Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Enn heldur málþóf stjórnarandstöðunnar áfram á Alþingi. Eins og flestum er kunnugt er þingmönnum heimilt að tala eins lengi og þeim sýnist í annarri umræðu og nota þann rétt til að tefja málið. Eins og ég benti á í gær hafa þingmenn lesið uppúr bókum til að leggja áherslu á málflutning sinn, en ennfremur tölvupósta, greinaskrif, skýrslur og greinargerðir svo fátt eitt sé nefnt. Vart þarf að taka fram að fáir nenna að fylgjast með þessu málþófi og er þingsalurinn að mestu tómur allan daginn að frátöldum ræðumönnum, forseta þingsins og nokkrum stjórnarandstöðuþingmönnum. Athyglisvert er að minnst er talað um helsta hluta umræðunnar, eignarhald á fjölmiðlum og lítið kemur fram um beina stefnu stjórnarandstöðunnar í málinu. Halldór Blöndal forseti Alþingis, sem hefur fylgst með þingstörfum sem þingfréttamaður og síðar stjórnmálamaður allt frá árinu 1961, hefur sagst í viðtali aldrei hafa orðið vitni að öðru eins málþófi og því sem nú á sér stað á þingi, og eins miklum umræðum beint um fundarstjórn forseta. Ljóst varð í morgun að forseti Íslands færi ekki til Kaupmannahafnar í brúðkaup Danaprins í dag. Halldór Ásgrímsson sendi forsetanum tóninn í gær og sagði það skyldu hans að vera fulltrúi Íslands við athöfnina og hann hefði engum skyldum að gegna við þingumræðuna um málið. Pen en traust skilaboð, hvað gerist nú er ómögulegt að segja, enda slíkt ástand og nú er uppi sennilega aldrei komið fyrir fyrr.

Donald RumsfeldDonald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fór í gær í óvænta heimsókn til Íraks og heimsótti þar hernámsliðið í landinu. Hann átti fundi með æðstu yfirmönnum hersins og ávarpaði hermenn. Ennfremur heimsótti ráðherrann Abu Ghraib-fangelsið, sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna pyntinga hermanna á stríðsföngum þar. Fram kom í ræðu Rumsfelds að hermenn ættu ekki að láta gagnrýni raska ró sinni og skemma fyrir uppbyggingarstarfinu í landinu, en ekkert geti þó réttlætt þær pyntingar sem fram hefðu farið og tekið yrði á þeim sem hefðu gerst sekir um glæpi. Sagðist hann ekki lengur lesa blöðin. Þess í stað hefur hann að undanförnu lesið sögu þrælastríðsins í Bandaríkjunum, enda hafi Abraham Lincoln mátt þola harkalega gagnrýni sem forseti þá. Varaði hann hermennina í Bagdad við og sagði að þeir myndu lenda í erfiðleikum en til huggunar að sá dagur kæmi að þeir litu stoltir um öxl yfir verk sín í Írak. Á fundi með blaðamönnum sagðist hann ekki myndu víkja vegna málsins, afsögn hefði aldrei hvarflað að sér. Enn fleiri myndir birtast nú þessa dagana og málið heldur sífellt áfram að hlaða utan á sig og verða umfangsmeira.

Sonia GandhiVinstrisveiflan sem varð í indversku þingkosningunum hefur komið fólki um allan heim mjög á óvart. Flestum þótti öruggt að hægrisinnuð stjórn Vajpayee forsætisráðherra, myndi halda völdum. Ljóst er að stjórninni var hafnað þrátt fyrir góð verk seinustu 6 árin, efnahagsástandið er mun betra en við valdatöku forsætisráðherrans og horfurnar um margt mun betri. Líklegasta skýringin á úrslitunum og sigri Kongressflokksins, er innkoma nýrrar kynslóðar Gandhi-fjölskyldunnar í stjórnmálaþátttöku og persónuvinsældir leiðtogans. Börn Soniu Gandhi leiðtoga Kongressflokksins og hins látna eiginmanns hennar, Rajiv, Rahul og Priyanka, tóku virkan þátt í kosningabaráttunni og Rahul var í framboði og náði kjöri í hinu fornfræga kjördæmi föður síns og ömmu, Amethi. Eru þau almennt talin foringjaefni flokksins til framtíðar. Vinna er þegar hafin við stjórnarmyndun í landinu og hefur Sonia, heitið því að mynduð verði sterk stjórn. Flest bendir til þess að hún verði forsætisráðherra landsins og feti þarmeð í fótspor tengdamóður sinnar og eiginmanns, enda er hún óskoraður leiðtogi Kongressflokksins og sigurvegari kosninganna.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í pistli á frelsinu í dag, fjalla ég um mál málanna í samfélaginu þessa dagana, fjölmiðlafrumvarpið. Fjalla stuttlega um atburði seinustu daga, t.d. málþóf stjórnarandstöðunnar og það hvort forseti Íslands beiti málskotsréttinum sem gert er ráð fyrir í 26. grein stjórnarskrárinnar. Meginefni pistilsins víkur þó að því að fyrst ríkisstjórnin setji reglur um eignarhald fjölmiðla að þá sé ótækt að taka ekki á málefnum RÚV. Í pistlinum segir orðrétt: "Mikla athygli hefur vakið að samhliða því að setja eigi leikreglur á fjölmiðlamarkaði með þessum lögum er ekki tekið á stöðu Ríkisútvarpsins og almennt fjölmiðlun af hálfu ríkisins. Ekkert mun breytast í því verði þetta frumvarp að lögum nú á vorþinginu. Það er ekki undrunarefni að t.d. flokksbundnir sjálfstæðismenn verði hugsi yfir umræðunni og þeim tillögum sem fram hafa komið í frumvarpinu til breytinga og beri fram spurninguna: Já, en hvað með RÚV?? Á virkilega ekkert að taka á þeirri stofnun og taka hana til endurskoðunar samhliða slíkum breytingum sem hér eru til umræðu? Framganga forystumanna Sjálfstæðisflokksins í málefnum RÚV að undanförnu, bæði fyrir og eftir að þetta frumvarp var lagt fram hafa valdið okkur ungu sjálfstæðisfólki miklum vonbrigðum. Bendi fólki á að lesa pistilinn.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraGreinaskrif
Í ítarlegum pistli á heimasíðu sinni bendir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, á nokkra punkta sem sýnishorn af því, hvað um sé rætt og þá einkum í DV, vegna umræðunnar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Orðrétt stendur þar: "Umræður um álit umboðsmanns fóru fram utan dagskrár á alþingi þriðjudaginn 11. maí að ósk Össurar Skarphéðinssonar. Þótti mér gott að fá tækifæri til að skýra mál mitt og afstöðu til álitaefna umboðsmanns fyrir þingheimi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, tók til máls, en krafðist þess ekki, að ég segði af mér eins og hún gerði, þegar hún ræddi málið í þingi að mér fjarstöddum. Hún hefur kannski gefið sér tíma til að lesa álitið og séð, hve langt hún skaut yfir markið. Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, lét ljós sitt ekki skína í umræðunum, en hann hafði einnig krafist afsagnar minnar, að mér fjarstöddum. Eins og kunnugt er lét Magnús Þór í ljós þá skoðun á spjallsíðu málverja, að það ætti að sprengja okkur Halldór Blöndal, forseta alþingis, í loft upp." Mörg fleiri atriði bendir hann á, t.d. fyrirsögnir úr DV hina seinustu daga. Hvet alla lesendur vefsins að líta á pistil Björns.

Dagurinn í dag
1943 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, fæðist á Ísafirði - kjörinn forseti Íslands 1996
1998 Bandaríski söngvarinn og leikarinn Frank Sinatra deyr í Los Angeles, 82 ára að aldri
1998 Jóhanna Sigurðardóttir talaði samfellt í rúma fimm klukkutíma í umræðu á Alþingi
2000 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, deyr, 62 ára að aldri - hann fékk heilablóðfall 1. apríl 2000 og var í dái á sjúkrahúsi í Tokyo í rúman mánuð. Obuchi kom til Íslands árið 1999
2004 Friðrik Danaprins, giftist hinni áströlsku Mary Donaldson, í Kaupmannahöfn

Snjallyrði dagsins
You can live to be a hundred if you give up all the things that make you want to live to be a hundred.
Woody Allen leikstjóri