Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt á Alþingi, laust eftir hádegið í dag. Atkvæðagreiðslan fór fram með nafnakalli. Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum en 30 greiddu atkvæði gegn því, einn sat hjá. Breytingartillögur við frumvarpið voru samþykktar með 33 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn 24 atkvæðum þingmanna Samfylkingar og Frjálslynda flokksins. Sex þingmenn sátu hjá, þingmenn VG og Kristinn H. Gunnarsson, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Jónína Bjartmarz alþingismaður Framsóknarflokks, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Aðrir þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með frumvarpinu. Nú þegar frumvarpið hefur verið samþykkt sem lög frá þinginu, fer málið á borð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, mun þá koma í ljós hvort hann noti 26. grein stjórnarskrárinnar og vísi málinu til þjóðarinnar eða samþykki lögin. Að mínu mati á forseti ekki að synja lögunum um samþykki, það á að vera þingsins að taka ákvarðanir um lagasetningar. Sú staða sem upp kæmi ef forseti neitar lögunum um samþykki mun verða erfið að öllu leyti fyrir stjórnkerfið og stjórnlagakreppa sem við höfum ekki kynnst í 60 ára sögu lýðveldisins skella á, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir forsetaembættið og stjórnkerfið allt.

Paul MartinPaul Martin forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslynda flokksins, tilkynnti í gær um þá ákvörðun sína að rjúfa þing og boða til þingkosninga í landinu, 28. júní nk. Gekk hann á fund Adrienne Clarkson landstjóra í Kanada í gær og tilkynnti um ákvörðun sína, fer Clarkson með vald Elísabetar Englandsdrottningar, í landinu. Kosningarnar fara fram tveim árum áður en kjörtímabil ríkisstjórnarinnar rennur út. Martin tók við embætti forsætisráðherra, 12. desember 2003 af Jean Chretien sem leitt hafði Frjálslynda flokkinn til sigurs í þrennum kosningum og setið á valdastóli í rúman áratug. Ástæður þess að Martin boðar til kosninga, er að hann vill eigið umboð til forystu, en ekki leiða þjóðina í umboði sem veitt var Chretien. Var Chretien lengi vel óskoraður leiðtogi frjálslyndra en á seinni árum höfðu óvinsældir hans aukist innan eigin flokks. Martin og Chretien háðu lengi valdastríð saman innan flokksins sem lauk því með að Chretien sparkaði honum úr stjórn sinni sumarið 2002. Chretien vék svo fyrir Martin í lok seinasta árs, en í millitíðinni var Martin utan stjórnar. Skv. skoðanakönnunum getur verið að Martin muni eiga við ramman reip að draga, óvinsældir flokksins hafa aukist á meðan hans persónulegu vinsældir haldast.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaðurÞað hefur ekki farið framhjá neinum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri, hefur setið á þingi seinustu vikur fyrir Guðrúnu Ögmundsdóttur. Er Ingibjörg eins og kunnugt er fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Jafnskjótt og farið var að ræða fjölmiðlamálið á þingi birtist Ingibjörg þar inni og eftirtektarvert að um leið og umræðunni lauk á laugardag hvarf hún og Guðrún mætti aftur til starfa. Er merkilegt að Ingibjörg Sólrún birtist þarna einvörðungu þegar mikilvægustu málin eru til umræðu og alltaf hverfur Guðrún af vettvangi til að hliðra til fyrir Ingibjörgu. Er engin furða sennilega að Samfylkingarfólk reyni að lappa upp á Ingibjörgu og koma henni í sviðsljósið. Hefur ásýnd hennar ryðgað nokkuð eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli vegna þingframboðs fyrir einu og hálfu ári og náði ekki kjöri í kosningunum. Hefur hún verið lítt sýnileg á pólitískum vettvangi síðan þá, ja nema ef vera skyldi innan Samfylkingarinnar, þar sem hún er nú varaformaður að baki Össurar Skarphéðinssonar, félaga síns og væntanlega keppinautar um formennsku flokksins á næsta ári.

ÞingsalurPistlaskrif
Að venju eru mögnuð skrif á Vef-Þjóðviljanum. Í dag fjallar pistlahöfundur á vefnum um fjölmiðlafrumvarpið og segir orðrétt svo: "Í dag verður margrætt frumvarp til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum afgreitt á alþingi, væntanlega sem ný lög. Þá þurfa þingmenn að velja á milli annars vegar þess frumvarps og hins vegar óbreyttra laga. Þegar það frumvarp er skoðað, þá eru tvenns konar athugasemdir sem koma til greina - að mati Vefþjóðviljans - ef menn vilja finna að frumvarpinu. Í fyrsta lagi er hægt að vera á móti frumvarpinu af princip-ástæðum, það er að segja, menn geta sagt að þeir séu einfaldlega á móti samkeppnisreglum og hafni því frumvarpinu enda er það í eðli sínu frumvarp um sérstakar samkeppnisreglur á tilteknu sviði. Hinn kosturinn til að finna að frumvarpinu, er að segjast að vísu vera hlynntur samkeppnisreglum en vilji bara ekki akkúrat þessar samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði. Vilji kannski ekki að eignarhlutur takmarkist við 35 % eign heldur eigi hann fremur að takmarkast við 25 %, eða kannski 40 %, og svo framvegis. Slík atriði verða hins vegar afgreidd með breytingartillögum." Hvet alla til að lesa þennan pistil á vefnum og önnur skrif andríkisfólks þar, alltaf gaman að líta á skrif þeirra.

SjálfstæðisflokkurinnÍ vikunni birtist á Íslendingi góður pistill eftir Gísla Aðalsteinsson, sem hann kallar Ákvarðanir um staðsetningu og rekstrarform opinberra stofnana. Orðrétt segir: "Ef stjórnvöld telja nauðsynlegt að ríkið veiti einhverja tiltekna þjónustu eða styðji við framleiðslu á einhverjum ákveðnum vörum þá ætti að bjóða þann rekstur út nema ef stjórnvöld geta sýnt fram á það með gildum rökum að það sé nauðsynlegt að þau sjái sjálf um þennan rekstur. Heppilegast væri að skilgreina í lögum við hvaða þröngu aðstæður er réttlætanlegt að ríkið standi sjálft í rekstri. Ef einhverjir aðilar vildu fá úr því skorið hvort að réttlæting stjórnvalda fyrir því að reka sjálf eitthvert ákveðið fyrirtæki sé nægjanleg þá ættu þeir að geta borið ákvörðunina undir dómstóla. Þegar ákvörðun er tekin um staðsetningu á fyrirtækjum þar sem nauðsynlegt er að ríkið sjái sjálft um reksturinn þá ætti að taka tillit til þess hvar hagkvæmast er að reka slíka þjónustu en ekki síður hvar er sanngjarnast að staðsetja slíka þjónustu með tilliti til þess að skattgreiðendur njóti með sem jöfnustum hætti ávinnings af nábýlinu við umrædd fyrirtæki." Hvet alla til að lesa þennan góða pistil.

Dagurinn í dag
1153 Malcolm IV verður konungur Skotlands - ríkti til dauðadags árið 1165
1626 Peter Minuit kaupir Manhattan eyjuna í New York - sem nú er stór hluti borgarinnar
1883 Brooklyn-brúin vígð formlega - tengir saman Manhattan og Brooklyn
1941 Hood, stærsta herskip heims, sekkur um 250 sjómílum vestur af Reykjanesi
1973 Einn fjölmennasti mótmælafundur aldarinnar í Reykjavík - 30.000 manns mótmæla formlega flotaíhlutun Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögu Íslendinga í 200 mílur, árið 1972

Snjallyrði dagsins
An eye for eye only ends up making the whole world blind.
Mahatma Gandhi (1869-1948)