Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 október 2004

Bandaríski fáninnFarið til Washington - fylgst með kosningabaráttunni
Ég fer í dag til Washington ásamt öðrum þeim sem ásamt mér sitja í utanríkismálanefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna. Ég hef undanfarnar vikur og mánuði skrifað mikið um kosningaslaginn í Bandaríkjunum: fjallað um áherslur frambjóðenda, baráttumálin og persónur þeirra sem eru í framboði til embættisins. Dagskrá ferðarinnar er mjög þétt, t.d. verður farið í kosningamiðstöðvar, þinghúsið á Capitol Hill, íslenska sendiráðið í borginni, Smithsonian safnið og margt fleira mætti nefna. Undirbúningur fyrir ferðina hefur staðið í marga mánuði og er áhugaverð ferð framundan fyrir okkur sem höfum til fjölda ára fylgst með bandarískum stjórnmálum. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann er auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu. Aðrar kappræður forsetaefnanna verða á föstudagskvöld, ég verð því staddur í Bandaríkjunum þegar aðrar kappræðurnar fara fram. Verður fróðlegt að fylgjast með þeim kappræðum í enn meira návígi en verið hefur þau 12 ár sem ég hef horft á kappræður bandarískra forsetaefna. Ég mun fjalla vel um ferð mína þegar heim verður komið og skrifa af krafti auðvitað um kosningaslaginn eftir heimkomuna fram að kjördegi, þriðjudaginn 2. nóvember.