Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 október 2004

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, flutti stefnuræðu af hálfu ríkisstjórnar sinnar, í fyrsta skipti, á Alþingi í gærkvöldi. Fór forsætisráðherrann víða yfir í ræðu sinni. Sagði hann að eitt mikilvægasta verkefni þingsins á komandi vetri væri að takast á við endurskoðun stjórnarskrárinnar, um sé að ræða verkefni sem aldrei hafi með fullnægjandi hætti verið leitt til lykta. Stefna þurfi að því að á því þingi sem nú fari í hönd að hefja sameiginlegt starf allra flokka að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Er óhætt að taka undir þessi ummæli Halldórs, en ég hef í skrifum mínum til fjölda ára minnt á mikilvægi þess að stokka upp t.d. 26. greinina, ekki síst eftir að forsetinn misnotaði áhrifavald sitt í sumar. Það er fyrir löngu orðið tímabært að gera endanlega skýrt hvert valdsvið forsetans er, það gengur ekki að vafi leiki lengur á milli fræðimanna og stjórnmálamanna um stöðu embættisins. Fram kom í máli forsætisráðherra ennfremur að unnið sé að sölu á Símanum. Sagði hann að markaðsaðstæður væru hagstæðar og því líklegt að af sölunni verði á þessum þingvetri. Er mikilvægt að málið sé klárað á þeim tíma og eru ummæli ráðherrans því ánægjuleg. Vék forsætisráðherra að stöðu efnahagsmála og atvinnulífsins og minnti á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokkum. Benti ráðherrann á að grunnskólar væru á verksviði sveitarfélaganna, það kæmi því ekki til þess að ríkið ynni að lausn verkfalls grunnskólakennara. Deildi forsætisráðherra á stjórnarandstöðuna vegna ummæla forystumanna hennar um að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við fyrirheit við öryrkja. Eins og hann benti á eru staðreyndir málsins með þeim hætti að sérstaða þeirra sem yngstir yrðu öryrkjar hafi verið viðurkennd með því að tvöfalda grunnlífeyri þeirra og rúmum milljarði hafi verið varið til þessa verkefnis. Minnti hann á að öryrkjum hefði fjölgað um helming á aðeins sex árum og ennfremur að heildarbótagreiðslur til öryrkja hefðu þrefaldast á sama tíma. Eins og hann vék að tala þær tölur sínu máli. Var athyglisvert að hlusta á ræðu forsætisráðherrans og kom margt gagnlegt þar fram og fróðlegt.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraDavíð Oddsson utanríkisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra, ávarpaði þingheim við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra og flutti mjög athyglisverða og góða ræðu, þó að mínu mati hefði ráðherra mátt beina orðum sínum aðeins meir að málaflokki sínum. Mun hann eflaust gera það er hann flytur skýrslu sína sem slíkur fyrir þingheim á næstu vikum. Er þetta í fyrsta skipti á þingferli Davíðs sem hann er ekki í hlutverki forsætisráðherra við það tækifæri. Þakkaði utanríkisráðherra, forseta lýðveldisins, fyrir orð hans í sinn garð í þingsetningarræðu hans á föstudag. Orðrétt í kjölfarið sagði hann: "Það er nú þannig, að allra manna mest á opinberum vettvangi hafa forsætisráðherra og utanríkisráðherra samskipti við forseta Íslands, aðallega forsætisráðherrann. Ég átti sem forsætisráðherra mjög ágætt samstarf við frú Vigdísi Finnbogadóttur í upphafi míns starfsferils. En menn hafa hins vegar verið að gera því skóna í skrifum og dálkum og í spjallþáttum spekinganna að það kunni að vera að samstarf mitt við núverandi forseta hafi verið miklu lakara og slakara erfiðara og í rauninni þá er ekkert athugavert við slíkar spekúlasjónir vegna þeirrar fortíðar sem mennirnir báðir áttu hvor á sínum stað. En það hefur samt sem áður verið þannig, að samstarf mitt við núverandi forseta hefur sem forsætisráðherra verið með miklum ágætum og vil ég þakka honum fyrir það. Auðvitað get ég ekki annað en nefnt, að einn skugga hefur borið á það samstarf en við það ætla ég ekki að dvelja hér. Ekki vegna þess að ég óttist það að ef ég dvel lengur við það atriði fái einhverjir menn fiðring í fæturna og hlaupi úr salnum heldur vegna þess að ég tel að afstaða mín liggi ljós fyrir og hún sé þekkt. Auk þess sem að Halldór Blöndal, hæstvirtur forseti þingsins, hefur auðvitað með sínum hætti, myndarlega og afgerandi og eins og hans er von og vísa, gætt stöðu og virðingar Alþingis." Líflegar umræður urðu um ræðu forsætisráðherra og má segja að formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi reynt í máli sínu að ala á neikvæðni og svartagallsrausi í takt við það sem venjulegast sést til þeirra. Að auki utanríkisráðherra fluttu af hálfu Sjálfstæðisflokksins ræður af þessu tilefni þau Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, og Birgir Ármannsson. Tókst þeim báðum vel upp í máli sínu, sérstaklega var gaman að hlusta á Birgi berja með viðeigandi hætti á stjórnarandstöðunni.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður á Alþingi um hana

Dick Cheney og John EdwardsKappræður varaforsetaefnanna
Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, og John Edwards öldungadeildarþingmaður, munu mætast í kappræðum varaforsetaefna í bandaríska forsetaslagnum í kvöld í Case Western háskólanum í Cleveland. Verður þetta í eina skiptið sem varaforsetaefni stóru flokkanna í Bandaríkjunum, munu ræða málefni kosningabaráttunnar og takast á um stefnur forsetaframbjóðendanna sem mættust í fyrstu kappræðum sínum af þrem sl. fimmtudagskvöld í Miami-háskóla í Flórída. Nú, þegar 28 dagar eru til kjördags, hefur líf færst að nýju í kosningaslaginn. Ef marka má nokkrar nýjustu kannanir hefur munurinn á forsetaefnunum minnkað eftir fyrstu kappræðurnar og má eiga von á meira spennandi kosningaslag. Ekki eru þó allar kannanir samhljóða og segir t.d. nýjasta könnun Pew rannsóknarstofnunarinnar, svipaðar tölur og síðast, það að Bush hafi 48% atkvæða en Kerry hinsvegar 41%. Munurinn er sá að Kerry hefur náð til sín prósentumeira fylgi en þá. Bendir flest til þess að varaforsetaefnin muni í þessum kappræðum ræða enn frekar utanríkismál, sem rædd voru í fyrstu kappræðu forsetaefnanna, og að auki efnahagsmál og innanríkismál, sem verða að öllum líkindum helstu umfjöllunarefni þessarar kosningabaráttu. Ég fer á morgun til Washington og mun dveljast þar í viku. Verður athyglisvert að fylgjast í návígi á næstu dögum, með þessum harkalega kosningaslag sem harðnar dag frá degi, eftir því sem kjördagur nálgast óðfluga.

Dagurinn í dag
1946 Alþingi samþykkti Keflavíkursamninginn. Hann fjallaði að mestu um afnot Bandaríkjanna af Keflavíkurflugvelli. Harðar deilur urðu og leiddi hann loks til stjórnarslita í nýsköpunarstjórninni
1962 Hljómsveitin The Beatles gaf út fyrsta lag sitt, Love Me Do - hljómsveitin starfaði allt til ársins 1970 og markaði mikil þáttaskil í tónlistarmenningu um allan heim með tónlist sinni og nýjum takti
1974 Fimm látast í sprengjutilræði IRA í Guildford á N-Írlandi - fernt var handtekið vegna málsins og þau dæmd í fangelsi fyrir aðild sína að málinu. 1989 var sakleysi þeirra staðfest og þau látin laus
1991 Blönduvirkjun var formlega tekin í notkun af Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands
2000 Víkingaskipið Íslendingur kom til hafnar í New York, en það hafði siglt frá Íslandi í júnímánuði

Snjallyrði dagsins
Sýndu mér frelsið, flögrandi af ást
falið bak við rimlana þar sem sálirnar þjást
og nöfnin sem hjartað hafði löngum gleymt
haltu fast í drauminn sem þig hafði eitt sinn dreymt.
Bubbi Morthens (Frelsarans slóð)