Bandarískir kjósendur ganga að kjörborðinu í dag og taka með því ákvörðun um það hvort George W. Bush forseti, eða John Kerry öldungadeildarþingmaður, muni sitja á forsetastóli í Bandaríkjunum á næsta kjörtímabili, 2005-2009. Jafnframt er kosið um fjölda þingsæta í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings. Kosningabaráttunni lauk formlega í nótt að íslenskum tíma. Báðir frambjóðendur fóru í helstu baráttufylki kosningabaráttunnar og ávörpuðu stuðningsmenn sína í síðasta skipti til að reyna að hafa áhrif á atkvæði almennings og ná þeim sem enn eru óákveðnir á sitt band. Bæði forsetaefnin notuðu einnig seinustu klukkustundir baráttunnar til að hvetja sitt fólk til að kjósa og minna þá á mikilvægi þess að hvert atkvæði skiptir máli. Allt bendir til metþátttöku í forsetakosningunum í dag. Gera verður ráð fyrir því að flestir kjósendur hafi nú tekið afstöðu til forsetaefnanna og stefnu þeirra. Ólíklegt er að kosningaræðurnar breyti miklu fyrir forsetaefnin eða hafi endanleg áhrif, nema þá að því marki að hvetja fólk til að mæta á kjörstað og taka afstöðu til málanna. Seinustu skoðanakannanir sem gerðar voru fyrir lok kosningabaráttunnar og birtust í gær sýna að baráttan er hnífjöfn. Bush forseti, hefur jafnan smáforskot en það er innan skekkjumarka og því getur í raun allt gerst. Það sannaðist árið 2000 að hvert atkvæði skiptir máli í jafnhörðum slag og þá var, ekki er slagurinn minni nú og baráttan hefur verið hörð og óvægin. Nú við lok hennar má fullyrða að enginn kosningaslagur í sögu Bandaríkjanna, hefur verið beittari og harkalegri. Repúblikanar eru sagðir hafa milljón sjálfboðaliða í því verkefni að hvetja fólk til að mæta á kjörstað til að kjósa Bush meðan demókratar hafa að minnsta kosti 250.000 sjálfboðaliða og fjölda starfsmanna í sama verkefni fyrir Kerry. Sjónir manna beinast nú á marklínunni að kjörmannamálunum sem munu ráða úrslitum að lokum, það eitt skiptir máli að sigra í ríkjunum og hala inn sem flestum kjörmönnum. Helst munu spekingar horfa til stöðunnar í Ohio, Flórída og Pennsylvaníu, en úrslitin þar munu að öllum líkindum ráða því hvort Bush nær endurkjöri á forsetastól eða hvort Kerry verði 44. forseti Bandaríkjanna. Ég hef fylgst ítarlega með þessum kosningum, meira en nokkrum öðrum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Eins og lesendur vefsins hafa séð hallast ég frekar að Bush forseta, en andstæðingi hans. Forsetinn hefur þorað að taka ákvarðanir, hversu óvinsælar sem þær mögulega geta orðið og staðið við mat sitt á hverjum tíma. Það er dæmi um styrkan stjórnmálamann. Spurning er hvort Bandaríkjamenn meta verk Bush og forystu hans með þeim hætti sem rétt er þegar gengið er að kjörborðinu. Það er von mín að kjósendur í Bandaríkjunum veiti Bush endurkjör í þessum kosningum.
Eins og lög gera ráð fyrir lauk formlegri kosningabaráttu á miðnætti að staðartíma í fylkjunum. Báðir voru forsetaframbjóðendurnir þreyttir að sjá á leiðarlokum baráttunnar. Þeir voru báðir byrjaðir að missa röddina eftir mikið álag síðustu dagana. Bush forseti, ferðaðist á lokadegi kosningabaráttunnar um sex lykilfylki: Ohio, Wisconsin, Iowa, Michigan, Pennsylvaníu og að lokum Nýju-Mexíkó. Seint í gærkvöldi lauk hann kosningabaráttu sinni á heimaslóðum með stórum kosningafundi í miðborg Dallas í Texas, skammt frá þeim stað þar sem einn forvera hans, John F. Kennedy, var myrtur þann 22. nóvember 1963. Að því loknu hélt hann til Crawford í Texas og þar mun hann greiða atkvæði í dag. Að því loknu flýgur hann til Columbus í Ohio og mun hitta stuðningsmenn sína á fundi til að þakka fyrir góðan stuðning þeirra. Þaðan heldur forsetinn ásamt eiginkonu sinni, Lauru, og dætrum þeirra, Barböru og Jennu, til Washington. Forsetinn mun ásamt fjölskyldu sinni, foreldrum sínum, varaforsetahjónunum og nánustu ráðgjöfum fylgjast með kosningavökunni í Hvíta húsinu. Hann mun ávarpa þjóðina á kosningasamkomu stuðningsmanna sinna í Ronald Reagan-byggingunni, í Washington, þegar úrslit forsetakosninganna ráðast endanlega, í nótt eða undir morgun. Kerry ferðaðist á lokadegi baráttunnar um lykilfylkin Michigan, Wisconsin og Ohio. Hann lauk kosningabaráttu sinni með ræðu á fundi með stuðningsmönnum sínum í Bedford í Massachusetts, í nótt að íslenskum tíma. Hann hefur daginn í dag með því að greiða atkvæði í heimaborg sinni, Boston, og mun á kjördag ferðast um fylkið ásamt eiginkonu sinni, Teresu, og hitta stuðningsmenn. Hann mun fylgjast með kosningavökunni á heimili sínu í Boston ásamt fjölskyldu sinni, varaforsetaefni sínu og fjölskyldu hans og nánustu ráðgjöfum. Þegar úrslit liggja fyrir mun hann ávarpa kjósendur í miðborg Boston. Úrslitastundin er nú í sjónmáli. Verður fróðlegt að sjá hvert val Bandaríkjamanna verður. Þeirra er nú valið eftir langa og kraftmikla kosningabaráttu. Örlög forsetaefnanna eru nú í þeirra höndum.
CNN
BBC
CBS
NBC
ABC
Race 2004
Fréttablaðið
Morgunblaðið
Washington Post
Ítarleg kosningahandbók WP
Umfjöllun um kjörmannakosninguna
Saga forsetakosninga í Bandaríkjunum
Kappræður forseta- og varaforsetaefnanna
Ítarleg umfjöllun um sögu kappræðna í Bandaríkjunum
Fyrstu kappræður Bush og Kerry - 30. september 2004
Aðrar kappræður Bush og Kerry - 8. október 2004
Þriðju kappræður Bush og Kerry - 13. október 2004
Kappræða Cheney og Edwards - 5. október 2004
Heitast í umræðunni
Sífellt betur verður ljóst að staða Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í Reykjavík, veikist. Það er öllum ljóst sem lesa nýútkomna skýrslu Samkeppnisstofnunar að borgarstjórinn tók áberandi þátt í samsæri gegn almenningi, sem leiddi til þess að halda uppi bensínverði, ólöglegum vinnubrögðum samkvæmt samkeppnislögum. Fjallað er um þátt Þórólfs á meira en hundrað stöðum í skýrslunni en hann starfaði sem markaðsstjóri ESSÓ í tæp fimm ár. Á einum stað í skýrslunni kemur fram að hann hafi sagt í samtali við starfsmenn Samkeppnisstofnunar að honum hafi verið kunnugt um samhæfða hækkun álagningar. Þetta kemur einnig fram í tölvupóstum sem hann skrifaði árið 1996. Þórólfur situr á borgarstjórastóli í umboði borgarfulltrúa R-listans. Hann hefur aldrei verið kjörinn af borgarbúum til starfa í pólitík, né verið í framboði. Það eru því hinir kjörnu fulltrúar meirihlutans sem réðu hann til starfa fyrir tæpum tveim árum, sem treysta honum fyrir að sitja áfram á stóli borgarstjóra. Þeirra er ábyrgðin á störfum hans í kjölfar þess að svona er komið. Greinilegt er að sá stuðningur er farinn að dvína, sífellt fleiri sjá sér ekki lengur að verja hann, einkum á þeim forsendum að samráðið snýr t.d. að útboði á vegum borgarinnar sjálfrar. Fulltrúar Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í R-listanum hafa varið borgarstjórann eftir að skýrslan var birt og ætla greinilega að verja hann pólitískt, jafnvel að fórna sér fyrir hann í næstu borgarstjórnarkosningum. Vinstri grænir sjá sér hinsvegar ekki lengur fært að verja að fullu borgarstjórann. Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar, var í viðtali á Morgunvaktinni hjá RÚV í morgun og þar sér hann sér ekki fært að koma með traustsyfirlýsingu lengur við borgarstjóra og telur rétt að kanna allt málið varðandi aðkomu Þórólfs sem markaðsstjóri ESSO í útboðum tengdum borginni. Greina má mikla undiröldu í röðum vinstri grænna vegna málsins og er greinilegt að á þeim bænum er útilokað að Þórólfur verði frambjóðandi í þeirra nafni í borgarstjórnarkosningunum 2006, né muni þeir verja stöðu hans lengur með nokkrum hætti. Eins og sjá mátti á viðtali Evu Bergþóru Guðbergsdóttur á Stöð 2 í gærkvöldi við borgarstjórann getur hann ekki fært nein sannfærandi rök í málinu og er greinilega að tala gegn betri vitund. Það er greinilegt að hann berst nú fyrir stöðu sinni, enda hans staða að verða vonlaus.
Eldgos hófst í Grímsvötnum í gærkvöldi. Er þetta í þriðja skipti á tæpum áratug sem gýs þar. 1996 og 1998 voru í bæði skiptin stór gos þar og leiddi gosið 1996 til stærsta hlaups í Skeiðará á 20. öld. Brúin yfir Gígjukvísl eyðilagðist þá og litlu munaði að hlaupið hrifi einnig með sér Skeiðarárbrú. Órói byrjaði í Grímsvötnum snemma í gærkvöldi, og á níunda tímanum hófst stöðug hrina mikilla jarðskjálfta. Hófst gosið af krafti á tíunda tímanum er gosrásins var orðin greið upp úr ísnum. Er gosið nú stærra að umfangi en það seinasta, árið 1998. Er gossvæðið norðan við það svæði sem gaus á 1998. Voru reyndar meiri jarðskjálfar sem fylgdu því. 13 metra gosmökkur stígur upp frá gossvæðinu og er hann samkvæmt fréttum vel sjáanlegur frá Egilsstöðum og Kárahnjúkum. Eldgosin í Grímsvötnum 1983 og 1998 áttu sér styttri aðdraganda heldur en nú. Ekki er hægt að miða við gosið 1996, sem er af allt annarri stærðargráðu en hin, enda mun umfangsmeira og stærra í sniðum. Er það mat sérfræðinga á borð við Pál Einarsson og Ragnar Stefánsson að hlaupið í Skeiðará um helgina hafi komið virkni af stað og leitt til gossins. Að mati Páls er um að ræða fyrsta skiptið sem vitað væri með vissu um að hlaup kæmi af stað gosi. Verður fróðlegt að fylgjast með fréttum af gosinu næstu daga.
Velheppnað kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
Dagurinn í dag
1913 Morgunblaðið kom út í fyrsta skipti - í rúmlega 90 ára sögu sinni hefur blaðið verið kraftmikið
1948 Harry S. Truman endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, þvert á allar kosningaspár - dagblaðið Chicago Daily Tribune var svo víst um ósigur forsetans og sigur keppinautar hans, Thomas Dewey, að það sló upp á forsíðu að hann myndi tapa kosningunum og varð blaðið að þjóðarathlægi fyrir vikið
1959 Háskólakennarinn Charles Van Doren viðurkennir í yfirheyrslum fyrir frammi þingnefnd að hafa tekið þátt í víðtæku hneyksli tengdum spurningaþáttunum 21 og að hafa fengið svör við spurningum
2000 Verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri opnuð - þar eru 20 verslanir í 9000 fm. húsnæði
2004 Bandarískir kjósendur velja á milli George W. Bush og John Kerry í æsispennandi forsetakjöri
Snjallyrði dagsins
I believe this nation wants steady, consistent, principled leadership. And that is why, with your help, we will win this election. The story of America is the story of expanding liberty, an ever-widening circle, constantly growing to reach further and include more. Our nation's founding commitment is still our deepest commitment: In our world, and here at home, we will extend the frontiers of freedom.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna
<< Heim