Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 desember 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um skipan nefndar sem vinna á að tillögum um endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Er mikilvægt að nefnd vinni að þessu máli og fari yfir stöðu stjórnarskrárinnar og vinni að breytingum á henni í takt við tímann. Blasir við að margt í stjórnarskránni megi stokka upp og færa til betri vegar. Til fjölda ára hefur skort pólitískan kjark til að hrinda úr vör þessu ferli, opna málið og ræða málefni stjórnarskrár með opnum huga og ræða nauðsynlegar breytingar, sem verða að eiga sér stað í samræmi við nútímann, vinna að sjálfsagðri endurskoðun á stjórnarskrá. Fagna ég því að þessi vinna hefjist nú og ferlið sé komið af stað. Nauðsynlegt er nú því að taka umræðuna, stokka upp umdeildar greinar í stjórnarskránni, fá fram pólitíska og almenna umræðu um málin og fá fram vangaveltur nútímans til hinnar 60 ára gömlu stjórnarskrár og færa mikilvæg atriði til nútímans og breyta þeim sem þarf að stokka upp. Öll umræða um þessi mál á árinu hafa afhjúpað hversu 26. greinin er ófullkomin og mikilvægt að taka nú á öllum vafaatriðum tengda henni.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og Sigmund Jóhannsson skopmyndateiknari, undirrituðu í Vestmannaeyjum í vikunni, samning um kaup ríkisins á öllum skopmyndum Sigmunds sem birst hafa á síðum Morgunblaðsins sl. 40 ár. Með því eignast ríkið allan rétt af þessum myndum og munu þær verða allar myndaðar og komið í tölvutækt form þar sem öll þjóðin getur haft aðgang að þeim. Komið hefur fram í fjölmiðlum að hugmyndin sé að varðveita frumritin að myndunum á sérstöku Sigmund-safni sem verði hluti af menningarhúsi sem rísa á í Vestmannaeyjum. Persónulega hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir framlagi Sigmunds til þjóðmálaumræðunnar og oft skemmt mér vel yfir myndum hans. Hef ég jafnan keypt bækur sem gefnar hafa verið út með myndum hans og kynnt mér því vel feril hans og verk allt frá upphafi, og þótt mikið til koma. Hinsvegar vekur þessi samningur um kaup ríkisins á myndum hans upp margar spurningar og undrun margra, a.m.k. mína. Að lokum fjalla ég um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Bobby Fischer, fyrrum heimsmeistara í skák, landvistarleyfi á Íslandi. Lýsi ég yfir ánægju minni með þá ákvörðun að íslensk stjórnvöld styðji við bakið á Fischer og aðstoði hann við það að koma fótunum undir sig og líf sitt aftur, en líf hans hefur verið ein sorgarsaga á undanförnum áratug.

George W. Bush - maður ársins hjá TIME 2004George W. Bush - maður ársins hjá TIME
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur verið valinn maður ársins 2004 af tímaritinu TIME. Þetta er í annað skiptið sem forsetinn hlýtur nafnbótina. Hann var valinn maður ársins 2000, skömmu eftir að hafa unnið nauman sigur í umdeildum og sögulegum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Í umsögn blaðsins segir að forsetinn hafi verið valinn vegna þess að honum tókst að ná endurkjöri með því að hljóta rúmlega helming greiddra atkvæða og að hafa náð að efla stöðu sína fyrir kosningarnar með afgerandi hætti og að ná til hins almenna landsmanna og með því styrkt leiðtogaímynd sína. TIME kemur út á morgun og verður þar ítarlegt viðtal við forsetann, föður hans og manninn á bakvið stjórnmálaferil forsetans, Karl Rove. Þar segir forsetinn að hann þakki sigur sinn helst utanríkismálastefnu sinni og þeim stríðum, sem hann hóf í Afganistan og Írak.

Í viðtali á CNN í dag sagði Jim Kelly ritstjóri blaðsins, að Bush forseti, væri áhrifamikill en jafnframt umdeildur maður í heimalandi sínu og um allan heim og það væri t.d. ein af ástæðum þess að hann hefði verið valinn sem maður ársins, öðru sinni. Hann hefði verið sá maður á árinu sem öll umræða hefði snúist um. Sigur hans hefði svo verið toppurinn á velheppnuðu ári af hans hálfu. Valið hefði því verið erfitt. Óhætt er að taka undir þetta mat. Bush er sá einstaklingur sem hefur verið mest í fréttum um allan heim á árinu, verið mest umdeildur, allt að því hataður og jafnt dýrkaður víða. Fáir ef nokkrir menn hafa vakið sterkari viðbrögð á seinustu áratugum, eða verið jafnumdeildir og beittari sem persónur. Þrátt fyrir að hafa vakið jafnsterk viðbrögð tókst óvildarmönnum hans ekki að fella hann, sem segir margt um stöðu hans. Time hefur sex sinnum áður tvívegis valið sama forsetann mann ársins. Áður hafa Harry Truman, Dwight D. Eisenhower, Richard Nixon, Ronald Reagan, Lyndon B. Johnson og Bill Clinton hlotið þessa nafnbót tvisvar. Franklin D. Roosevelt var kjörinn maður ársins alls þrisvar sinnum, einn forseta landsins.

Dagurinn í dag
1901 Tólf hús brunnu í miklum bruna á Akureyri og rúmlega fimmtíu manns urðu þá heimilislausir
1956 Lög um bann við hnefaleikum voru samþykkt á Alþingi - samkvæmt því var bönnuð öll keppni eða sýning á hnefaleikum hérlendis. Ólympískir hnefaleikar voru leyfðir að nýju á Íslandi árið 2001
1969 Aðild Íslands að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, var samþykkt á Alþingi - tók gildi 1970
1984 Bretar og Kínverjar undirrita samkomulag þess efnis að Kína taki við stjórn Hong Kong af Bretum 1. júlí 1997 - valdaskiptin fóru fram eins og samið var um og með því lauk 150 ára stjórn Breta
2000 Hæstiréttur dæmdi að tekjuskerðing örorkubóta vegna tekna maka væri ólögleg - dómurinn sem var sögulegur, leiddi til þess að stjórnin breytti lögum um örorkugreiðslu og fyrirkomulag þeirra

Snjallyrði dagsins
Ljósadýrð loftin gyllir
lítið hús yndi fyllir
og hugurinn heimleiðis leitar því æ
man ég þá er hátíð var í bæ.

Ungan dreng ljósin laða
litla snót geislum baðar
Ég man það svo lengi sem lifað ég fæ
lífið þá er hátíð var í bæ.
Ólafur Gaukur Þórhallsson (Hátíð í bæ)