Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 desember 2004

Davíð Oddsson utanríkisráðherraHeitast í umræðunni
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt hérlendis sem um allan heim um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, dvalarleyfi hérlendis. Íslensk stjórnvöld ætla ekki að fara að hvatningu bandarískra stjórnvalda um að draga boðið til baka. Á fundi Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í dag, tjáði ráðherra honum að Fischer nyti mikils álits hérlendis og Ísland væri með boði sínu einungis að bregðast við með vísun til sögulegra tengsla við skákmanninn. Forsenda þeirrar ákvörðunar að vísa beiðninni ekki á bug væri sú að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki krafist framsals Fischers frá Japan. Sagði Davíð við sendiherrann að möguleg brot Fischers gegn viðskiptabanni á fyrrum Júgóslavíu væru fyrnd skv. íslenskum lögum. Davíð óttast ekki að sú ákvörðun munu hafa áhrif á samskipti þjóðanni, og segist jafnframt reiðubúinn að láta á það reyna með formlegum hætti, krefjist bandarísk stjórnvöld þess að fá Fischer framseldan.

Er þetta mál vitnisburður um það hversu öflugur stjórnmálamaður Davíð er. Hann tekur ákvörðun, hikar aldrei og fer með málið alla leið og vinnur af krafti fyrir framgangi þess, hvað sem mögulega getur gerst. Staða málsins er með þeim hætti að afstaða okkar til þess liggur fyrir og óþarfi að hika eitthvað í framgangi þess. Ekki er fyllilega víst hvort Fischer kemur hingað til lands. Honum er þó mikið í mun um að komast hingað sem fyrst. Hann hefur ákveðið að falla frá málsókn á hendur japönskum stjórnvöldum, en þó ekki fyrr en tryggt verður að þau heimili honum að fara til Íslands. Sæmundur Pálsson trúnaðarvinur Fischers til fjölda ára, hyggst fara til Japans til að fylgja Fischer til landsins. Mál Fischers kemur upp á sama tíma og viðræður standa yfir milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um áframhaldandi veru varnarliðsins hér á landi. Það hefur ekki gerst áður að Íslendingar veiti manni landvistarleyfi sem bandarísk yfirvöld álíta vera eftirlýstan glæpamann og verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þess. Hvort Fischer komi til landsins veltur fyrst og fremst á japönskum stjórnvöldum. Hvort skákmeistarinn komi eður ei, ætti að ráðast á næstu dögum.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, hélt blaðamannafund í dag í Dwight D. Eisenhower stjórnunarbyggingunni í Washington, og flutti þar yfirlýsingu og svaraði að því loknu spurningum fjölmiðlamanna. Var þetta í sautjánda skipti á forsetaferli Bush sem hann heldur blaðamannafund. Fór hann þar yfir stefnu stjórnar sinnar í mikilvægum málaflokkum og fór að mestu leyti yfir hvað hann og stjórn hans muni gera á seinna kjörtímabili sínu, en það hefst eftir nákvæmlega mánuð, 20. janúar 2005. Á fundinum lýsti forsetinn yfir trausti sínu í garð Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, sem hefur barist í bökkum seinustu vikurnar, eftir að tilkynnt var að hann myndi sitja áfram í embættinu í upphafi seinna kjörtímabilsins. Sagði forsetinn að Rumsfeld hefði staðið sig vel og að hann hefði verið ánægður þegar Rumsfeld hefði þegið boð hans um að sitja áfram í embætti. Rumsfeld hefur verið gagnrýndur harðlega af valdamiklum þingmönnum beggja flokka, sérstaklega Repúblikanaflokksins seinustu dagana, vegna Íraksstríðsins og framkomu hans við fjölskyldur fallinna hermanna.

Deilur spruttu svo endanlega upp þegar í ljós kom að hann hefði til þessa látið prenta undirskrift sína á bréfum til ættingja þeirra rúmlega 1000 hermanna sem hafa fallið í átökunum í Írak og Afganistan. Hefur hann nú heitið að undirrita hvert einasta bréf með eigin hendi framvegis. Er þetta ekki eina dæmi þess að hart sé að honum sótt. Athygli vakti að þegar hann fór til hermanna í Kuwait að þar var hann gagnrýndur harkalega af hermönnum. Fullyrtu þeir þar að þeir fengju ekki þau vopn í hendur sem dygðu gegn uppreisnarmönnum í Írak og fullyrtu að ekkert væri aðhafst í Washington til að finna leiðir til að minna hættuna af jarðsprengjum á vegum og vegaslóðum í landinu sem uppreisnarmenn hefðu komið fyrir til að granda hermönnum. Notuðu margir áhrifamenn í bandarískri pólitík pólitísku helgarspjallþættina til að ráðast að ráðherranum og tjá andstöðu sína við verk hans. Hefur andstaðan komið vel fram í skoðanakönnunum. Í nýrri könnun Gallups fyrir CNN kemur í ljós að 52% landsmanna vilja að hann víkji af ráðherrastóli. Er ljóst að staða hans hefur skaddast verulega á skömmum tíma og er talið líklegt að hann muni aðeins sitja skamman hluta kjörtímabilsins í embætti.

DimmugljúfurKárahnjúkavirkjun - með og á móti
Nýlega keypti ég mér bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, þar sem hann fer yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Ómar er landsmönnum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í öllum fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur hann seinustu fimm árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjun á Austurlandi og álver við Reyðarfjörð.
Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, árið 2002 og heldur nú þeirri umfjöllun áfram í bókinni. Er hún sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni neikvæða, báðar skoðanir koma vel fram.

Er þessi bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar. Þó að við Ómar séum ósammála um þetta mál, met ég það að hann reyni af krafti að tjá báðar skoðanir með þessum hætti og fái fram umræðu um það. Það er nefnilega það nauðsynlega við þetta, að fá umræðu um kosti og galla framkvæmdarinnar og þess sem gera þarf til að styrkja og efla Austfirðina. Enginn vafi er á því að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Það stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast verulega, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Mikill uppgangur hefur verið á öllum sviðum á Austurlandi. Fór ég austur í Fjarðabyggð í sumar og þótti mjög ánægjulegt að sjá hversu vel gengur þar núna og að finna fyrir þeim mikla krafti sem býr í fólki þar og öllum framkvæmdum sem í gangi eru. Framkvæmdirnar þar styrkja Norðausturkjördæmi í heild og efla Austurland og síðast en ekki síst mannlífið í Fjarðabyggð. Það er því rétt að taka umræðuna um málið, en eftir stendur að kostirnir við framkvæmdina yfirgnæfa alla mögulega galla sem tíndir eru fram í bók þessari. Er enginn vafi á því að virkjun á Austurlandi og virkjun í Reyðarfirði er kraftmikil byggðaframkvæmd sem mun styrkja stöðu mála í kjördæminu til framtíðar.

Húmorinn
In his speech last night President Bush said this nation should never settle for mediocrity. Then he let Dick Cheney finish the speech.

Bill Clinton was walking through Central Park this week and a crowd gathered and began to ask him questions. And some one interrupted and said 'You were an embarrassment to the office of commander and chief.' Clinton fought right back and said 'Honey can we save this till we get home.'
Jay Leno

How about that Bernard Kerik, former police commissioner who was gonna be the head of Homeland Security. You know I think he would be a great Homeland Security director. He's had three wives and two mistresses. I mean he's used to fighting terrorism.
David Letterman

The first lady has had her staff put up 41 Christmas trees. Or, as President Bush said, one for each state.
Conan O'Brien

At his annual physical last week, the president found out he has gained six pounds over the last year and he has pledged to loose the weight as soon as possible. So, finding Osama bin Laden gets pushed even further down the to-do list.
Tina Fey (Saturday Night Live)

It was reported that while at the White House Christmas party first daughter Barbara Bush smashed her head on the dance floor when a friend she was dancing with dipped her to low. That friend - Captain Morgan.
Amy Poehler

Áhugavert efni
Þrjú stórlestarslys R-listans - pistill Vef-Þjóðviljans
Þú ert plebbi! - pistill Kára Allanssonar á vef Heimdallar
Tyrkland skrefi nær í átt að aðild að ESB - pistill Camillu Óskar Hákonardóttur

Dagurinn í dag
1930 Ríkisútvarpið tók formlega til starfa - útvarpað var í upphafi þrjá tíma á kvöldin, en eftir því sem árin liðu lengdist útsendingartíminn og er nú útvarpað á Rás 1 frá 6:45 til 01:00 að nóttu. Árið 1966 hóf RÚV rekstur fyrstu sjónvarpsstöðvar landsins og 1983 var svo stofnuð önnur útvarpsrás, Rás 2. Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson, en núv. útvarpsstjóri er Markús Örn Antonsson
1973 Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, ráða Luis Carrero Blanco forsætisráðherra Spánar, af dögum í sprengjutilræði í Madrid - almenn þjóðarsorg var á Spáni vegna andláts hins sjötuga forsætisráðherra
1974 Snjóflóð féllu á Neskaupstað og ollu stórtjóni á mannvirkjum. 12 manns fórust í snjóflóðinu, margir voru grafnir lifandi upp úr snjónum. Tvítugur piltur bjargaðist eftir rúmlega 20 klukkustundir
1975 Kröflueldar hófust með miklu eldgosi í Leirhnjúki - gosið stóð allt fram til febrúarmánaðar 1976
1983 Kvótakerfi á fiskveiðar var samþykkt á Alþingi - kerfið sem varð umdeilt tók gildi 1. janúar 1984

Snjallyrði dagsins
Framtíð okkar svo fallvölt er,
fortíð leit hjá sem blær
jólanóttin er nú og hér.
Nóttin heilög og kær.

Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gleymdu sorg og þraut
vittu til að vandamálin hverfa á braut.
Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gjöf, sem dýrmætust er.
Í kærleika að kunna að gefa af sjálfum sér.

Hér og nú hjartkær vinafjöld
hjá oss eru í kvöld sem fyrr.
Jólabarn við oss brosir rótt
björt er jólanótt, hljóð og kyrr.
Ómar Ragnarsson (Glæddu jólagleði í þínu hjarta)