Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 febrúar 2005

ISGHeitast í umræðunni
Mikil umræða hefur átt sér stað á þingi seinustu daga um stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina. Hefur verið merkilegt að fylgjast með þeim umræðum og heyra skoðanir þingmanna á þessum málum. Í umræðunni kom Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður, í ræðustól og sagði þar mikilvægt að kanna kosti þess að Ísland gengi í myntbandalag Evrópu. Sagði hún að með upptöku Evrunnar væri betur hægt að koma í veg fyrir sveiflur í íslenska hagkerfinu. Ingibjörg hefur verið núna á þingi í nokkra daga og verið þar dugleg að minna á sig, eftir að hafa verið talsvert í skugga þjóðmálaumræðunnar, enda án hlutverks í stjórnmálum, eða því sem næst. Hún hefur verið í þeirri stöðu að vera aukaleikari í leikriti Samfylkingarinnar á þingi sem annarsstaðar og þurft að standa til hliðar. Hún hefur verið að reyna að breyta því seinustu dagana. Hefur verið kostulegt seinustu vikur annars að fylgjast með yfirlýsingakapphlaupi milli Ingibjargar Sólrúnar og Össurar Skarphéðinssonar formanns Samfylkingarinnar, í formannsslagnum í Samfylkingunni, sem nú er hafinn og mun standa vel á fjórða mánuð, eða fram að landsfundi seinnipartinn í maí.

Fara þessi kapphlaup nú sem mest fram á þingi og er stórmerkilegt að fylgjast með dramatískum tilburðum þeirra í ræðustól þingsins og kapphlaupinu um sem mestu yfirlýsingarnar og tjáningatúlkanir um málin. Staða Ingibjargar eftir þingkosningar 2003 var ekki öfundsverð, hún afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg telur það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir fram til formennsku. Þetta er barátta um völd og áhrif og ekkert er gefið eftir. Skiljanlegt er að Ingibjörg vilji leggja í þetta núna, svona áður en hún fuðrar endanlega upp pólitískt. Hefur rýrnað svo pólitískt á tæpu ári að með ólíkindum í raun er. Sést bara á allri fjölmiðlaumfjöllun með ISG að staða hennar er allt önnur en var lengi vel, skiljanlega. En hún hefur sjálf spilað svona úr sínum spilum. Hvort þeirra muni vinna verður óneitanlega merkilegt að fylgjast með, en eflaust verður þetta mikill kattaslagur, bæði eru að berjast fyrir pólitísku lífi sínu á komandi árum. Allt er lagt í sölurnar greinilega. Yfirlýsingar ISG um Evruna eru gott dæmi örvæntingarinnar í slagnum nú. Allt verður lagt í þetta, enda eru báðir þessir stjórnmálamenn að berjast fyrir pólitísku lífi sínu. Yfirlýsingar ISG um Evruna eru gott dæmi örvæntingarinnar í slagnum nú. Hvort sem mun vinna er ljóst að mikið uppgjör blasir við.

Tony BlairSvo virðist vera sem að kosningabaráttan fyrir þingkosningar í Bretlandi sé hafin á fullu, þó enn hafi ekki enn formlega verið boðað til kosninganna. Bendir flest til þess að þær muni fara fram þann 5. maí nk. Í dag kynnti Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, kosningastefnuskrá flokksins og helstu atriðin sem flokkurinn leggur áherslu á í komandi kosningum. Er það fyrsta afdráttarlausa merki þess að kosningarnar fari fram á þessu ári. Kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en í maíbyrjun 2006, en flest bendir til að Blair muni boða til kosninga mun fyrr, eins og fyrr segir jafnvel strax í maímánuði á þessu ári. Breski Íhaldsflokkurinn hefur þegar kynnt helstu kosningamál sín og stefnuskrá og hefur hafið markvissa kosningabaráttu nú þegar. Vofir yfir og hefur gert nokkuð lengi að kosið yrði á þessu ári, en nákvæm dagsetning verið mjög á reiki. Nú þykir flest stefna í þá átt að stutt sé í yfirlýsingu Blair um kjördag og baráttan hefjist af fullum krafti beint.

Ef marka má skoðanakannanir hefur Verkamannaflokkurinn mun meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Það hefur aldrei gerst í sögu Verkamannaflokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Aðeins Margaret Thatcher hefur tekist að leiða breskan stjórnmálaflokk í gegnum þrennar kosningar í röð og sigra þær allar. Það er því ljóst að Blair stefnir að því að jafna met Thatcher og sækist eftir að ná að komast nálægt meti hennar sem þaulsætnasta forsætisráðherra landsins í seinni tíma stjórnmálasögu. Blair stendur vissulega á krossgötum, nú þegar hann ávarpar flokksmenn sína. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli hans og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Engu að síður hefur flokkurinn sterka stöðu. Í ræðunni í dag markaði hann stefnu næstu ára, nái hann að vinna næstu kosningar og fjallaði hann þar að mestu um innanríkismál og velferðarmál sem aðalkosningamál. Með því hyggst hann reyna að beygja umræðunni frá utanríkismálunum og reyna að auka sigurlíkurnar enn meir. Kjördagurinn verður eins og fyrr segir sennilega 5. maí, dagsetning sem er vart valin af tilviljun (05-05-05).

Punktar dagsins
Camilla Parker Bowles og Karl Bretaprins

Við blasir að mörgum Bretum var brugðið er tilkynnt var opinberlega að Karl Bretaprins og Camilla Parker Bowles myndu giftast þann 8. apríl nk. Þó er ljóst að almenn ánægja sé með að þau gangi loks upp að altarinu. 2/3 hlutar bresku þjóðarinnar virðast styðja þá ákvörðun prinsins og Camillu að giftast. Fram kemur ennfremur í skoðanakönnun dagblaðsins Daily Telegraph að 47% aðspurðra telji að Camilla eigi ekki að hljóta neinn titil jafnvel þótt Karl taki við konungstign síðar meir. 40% eru sammála þeirri ákvörðun að hún fái prinsessutitil auk þess sem hún verði nefnd eiginkona konungsins en 7% aðspurðra finnst að hún eigi að verða drottning Englands. Það er því lítill stuðningur við að hún verði drottning og jafnvel andstaða við að hún hljóti titil sem eiginkona konungs ef að því kemur. Vekur það vissulega athygli að Bretar virðast styðja brúðkaupið en ekki að Camilla fái titil sem slík. Camilla verður við brúðkaupið titluð hertogaynjan af Cornwall og mun brúðkaupsathöfn þeirra verða borgaraleg og því mjög lágstemmd í uppbyggingu. Þarna spilar mjög inn í að bæði eru fráskilin og að fyrrum maður Camillu er enn á lífi. Fram kemur að auki í könnuninni að mikill meirihluti landsmanna vill frekar að Vilhjálmur prins, en faðir hans, taki við krúnunni af Elísabetu Englandsdrottningu, ömmu sinni.

Háskóli Íslands

Háskólalistinn fékk einn mann kjörinn í stúdentaráð í kosningunum sem fram fóru meðal nemenda í Háskólanum í gær og fyrradag. Listar Vöku og Röskvu hlutu hvor um sig fjóra menn. Með þessu er ljóst að meirihluti Vöku er fallinn í ráðinu og að Háskólalistinn sé kominn í oddaaðstöðu. Eru þetta vissulega nokkur tíðindi og þáttaskil að ekkert afl hljóti hreinan meirihluta í stúdentaráði Háskólans. Kosið var um helming sæta í ráðinu en 20 fulltrúar sitja alls í stúdentaráði. Með þessu er ljóst að Vaka og Röskva hafa bæði 9 fulltrúa og Háskólalistinn 2 fulltrúa, og með því komið í oddaaðstöðu milli þessara stóru fylkinga. Röskva hafði hreinan meirihluta í ráðinu samfleytt í 12 ár, 1990-2002, en Vaka síðan. Háskólalistinn fékk 414 atkvæði, eða 12,5%, Vaka 1542 atkvæði, eða 46,6%, Röskva 1253 atkvæði, eða 37,9%, Alþýðulistinn fékk 100 atkvæði, eða 3% og fær því engan mann inn. Ef marka má fréttir ætlar Háskólalistinn ekki að mynda meirihluta í ráðinu með annarri hvorri fylkingunni. Segjast þeir ekki ætla að vera í stjórnmálaleik eða færa umræðuna innan ráðsins á það plan. Það verður fróðlegt að sjá hvernig samkomulagið verður í stúdentaráði við þessar aðstæður.

Meet the Parents

Var á fundi í gærkvöldi og fór meginhluti kvöldsins í flokksstarfið. Er heim kom var ákveðið að horfa á góða gamanmynd. Leit á kvikmyndina Meet the Parents. Var ein af bestu gamanmyndum ársins 2000 og það er erfitt annað en að veltast um af hlátri, enda er hún alveg frábærlega fyndin. Hér segir af hjúkrunarfræðingnum Gaylord Focker (sem vill endilega láta kalla sig Greg, hehe). Hann hefur í hyggju að biðja unnustu sína, Pam Byrnes um að giftast sér. Þegar hún segir honum að faðir hennar ætlist til þess að verða spurður um hönd hennar ákveður hann að nota tækifærið er hann og Pam fara í helgarferð til foreldranna til að verða viðstödd giftingu systur hennar, til að biðja hann um samþykki föðurins, Jack Byrnes á ráðahagnum. En þegar á hólminn er komið breytast aðstæður verulega. Jack er vægast sagt lítið um Greg gefið og gerir sífellt lítið úr honum, starfi hans og eftirnafni hans! Auk þess dásamar hann fyrrum kærasta Pam og gerir Greg þannig enn erfiðar fyrir. Þar sem Greg er staðráðinn í að fá samþykki hans reynir hann að sýna sínar allra bestu hliðar til að komast í mjúkinn hjá föðurnum og móðurinni. Allar þær aðgerðir misheppnast herfilega (vægast sagt) og koma honum í sprenghlægilegar aðstæður.

Framundan er hræðilegasta helgin í lífi Gregs og ekki batnar ástandið er hann kemst að því að Jack er fyrrum CIA-leyniþjónustumaður sem lumar á lygamæli í kjallaranum, en það er bara byrjunin á ógleymanlegri helgi sem verður stöðugt verri og verri..... Myndin er endurgerð samnefndrar kvikmyndar frá 1992 þar sem Greg Glienna lék hlutverk tengdasonarins en hann er einn framleiðendum þessarar myndar. Meet the Parents var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna 2000 fyrir besta kvikmyndalagið (A Fool in Love) en það er höfundurinn Randy Newman sem syngur það. Óskarsverðlaunaleikarinn Robert De Niro fer á kostum í hlutverki hins vægðarlausa fjölskylduföður og tengdapabba og túlkar hann frábærlega. De Niro er að sjálfsögðu einn besti leikari samtímans og á að baki bæði ógleymanlegar og vandaðar leikframmistöður, nægir þar að nefna klassamyndir á borð við Taxi Driver, The Deer Hunter, Mean Streets og Cape Fear. Ben Stiller skilar einnig góðri frammistöðu í hlutverki hins seinheppna tengdasonar sem reynir að þóknast tengdapabba. En semsagt; hin besta skemmtun fyrir alla, svo sannarlega hægt að hlæja að þessari. Framhald myndarinnar, Meet the Fockers er einmitt komin í bíó og er sýnd þar þessa dagana.

Eftir undirritun samninga

Akureyrarbær hefur samið við Nýherja um kaup og innleiðingu á SAP fjárhags- og mannauðslausn. Ríkiskaup hafði haft umsjón með útboði hugbúnaðarlausnar fyrir hönd Akureyrarbæjar en þar voru vegnir saman þættir verðs og gæða lausnar og hlaut SAP-lausn Nýherja hæstu einkunn. Í kjölfarið var ákveðið að ganga til samninga við Nýherja. Fulltrúar Akureyrarbæjar og Nýherja skrifuðu undir samninga um kaup Akureyrarbæjar á nýju fjárhags- og mannauðskerfi í gær. Akureyrarbær mun vera fyrsta íslenska sveitarfélagið sem tekur SAP í notkun en með þeirri ákvörðun hefur SAP styrkt stöðu sína sem ákjósanlegur kostur fyrir önnur sveitarfélög. Akureyri er miðstöð þjónustu og menningar utan höfuðborgarsvæðisins, langfjölmennasta sveitarfélagið með um 16.500 íbúa. Akureyrarbær hefur lagt áherslu á að auka skilvirkni í verkferlum og bæta þjónustu og upplýsingagjöf til íbúa og starfsmanna, t.d. með rafrænum notendaskilum. Starfsemi sveitarfélagsins er því mjög umfangsmikil en stefnt er að því að dreifa vinnslu og ábyrgð og þá reynir á að upplýsingakerfi bæjarins geti þjónað slíkum markmiðum.

Saga dagsins
1943 Dwight D. Eisenhower verður hershöfðingi bandamanna í Evrópu - Eisenhower var sigursæll hershöfðingi í stríðinu. Hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna 1952 og sat á forsetastóli 1953-1961
1973 Sjöstjarnan fórst milli Færeyja og Íslands - 10 manns fórust í slysinu, fimm Íslendingar og fimm Færeyingar. Langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður á Akureyri, átti Sjöstjörnuna til fjölda ára
1975 Margaret Thatcher var kjörin leiðtogi breska Íhaldsflokksins, fyrst kvenna - Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands í maí 1979 og sat á valdastóli innan flokksins og í ríkisstjórn allt til 1990
1979 Ayatollah Khomeini tekur formlega við völdum í Íran, eftir mjög harða baráttu um völdin við leifarnar af hernum og fylgismenn keisarans - Khomeini og fylgismenn hans ná þá völdum í Teheran
1990 Nelson Mandela sleppt úr varðhaldi eftir að hafa verið haldið föngnum í 27 ár - varð leiðtogi Afríska þjóðarráðsins 1991 og leiddi baráttu blökkumanna í kosningunum árið 1994 og varð forseti

Snjallyrðið
Krummi gamli er svartur,
og krummi er fuglinn minn.
Krunkið eru söngvar hans
um sólina og himininn.

Fegri tóna hann ekki á,
og aldrei mun hann fegri ná.
Í kuflinum svarta hann krunka má,
uns krummahjartað brestur,
krummahjartað kvalið af löngun brestur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Krummi)