Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 febrúar 2005

Karl prins og Camilla Parker BowlesHeitast í umræðunni
Tilkynnt var með fréttatilkynningu frá Clarence House í morgun að Karl Bretaprins myndi ganga að eiga heitkonu sína, Camillu Parker Bowles, þann 8. apríl nk. Með þessu lýkur áralöngum vangaveltum um samband þeirra og eðli þess. Þrátt fyrir að prinsinn og Camilla gangi loks í hjónaband þýðir það þó ekki að hún verði Englandsdrottning eða taki stöðu sem slík, þegar og ef hann verður konungur Englands. Mun hún við brúðkaupið hljóta titilinn: hennar konunglega hátign, hertogaynjan af Cornwall. Verði hann konungur tekur hún prinsessutitil og hlýtur formlegan titil sem hennar konunglega hátign, eiginkona konungs (Princess Consort). Eflaust hefur þetta allt verið mikið samkomulagsatriði og tekið tíma að landa þessu máli endanlega. Fyrir liggur að kirkjuyfirvöld og foreldrar prinsins hafi samþykkt ráðahaginn, en með því skilyrði að Camilla hlyti aldrei drottningartign eða sömu stöðu og móðir prinsins. Stóð Elísabet Englandsdrottning, lengi í vegi þess að þau myndu giftast og tók aldrei í mál að hún hlyti stöðu drottningar. Var Filippus hertogi af Edinborg, faðir prinsins, ekki síður andsnúinn því að þau myndu giftast. Greinileg stefnubreyting hefur orðið hjá foreldrum hans og ljóst ennfremur að leiðtogar kirkjunnar og ríkisstjórnarinnar hafa lagt blessun sína yfir giftinguna.

Camilla og Karl eru bæði fráskilin. Þjóðhöfðingi Bretlands er verndari kirkjunnar og því málið mjög erfitt í vöfum fyrir hana að samþykkja ráðahaginn. Eins og flestir vita varð Edward VIII Englandskonungur, afabróðir Karls, að segja af sér krúnunni í desember 1936 vegna ástarsambands síns við Wallis Warfield Simpson. Ástæða þess var að hún var Bandaríkjakona og tvífráskilin í þokkabót. Samþykktu kirkjunnar yfirvöld og ríkisstjórnin ekki ráðahaginn, enda hafði Edward sagt að yrði hún ekki við hans hlið og drottning að auki á sama tíma, gæti hann ekki setið á valdastóli. Hann gæti ekki lifað án hennar. Svo fór að hann valdi frekar að segja af sér embætti og slíta tengslin við fjölskylduna en láta Wallis frá sér fara. Vildi bróðir hans ekkert meira af honum vita og lítið sem ekkert samband var milli Edwards og konungsfjölskyldunnar fyrr en leið að ævilokum hans í upphafi áttunda áratugarins. Karl fór nokkrum sinnum til Frakklands og hitti afabróður sinn og drottningin gerði einu sinni sérstaka ferð þangað í opinberri heimsókn rétt fyrir andlát hans til að hitta hann. Eðli sambands Karls og Camillu hefur lengi verið fjölmiðlamatur og umdeilt meðal Breta hvernig taka eigi því. Því er umfram allt kennt um að draumahjónaband Karls og Díönu prinsessu, leið undir lok. Þau giftust með miklum viðhafnarbrag 29. júlí 1981 og var það almennt kallað brúðkaup aldarinnar. Brestir komu fljótt í draumahjónabandið vegna þess að Karl og Camilla héldu áfram sambandi sínu. Karl og Díana skildu að borði og sæng árið 1992 og hlutu lögskilnað árið 1996. Díana prinsessa, lést í bílslysi 31. ágúst 1997. Í kjölfarið fóru Karl og Camilla að vera saman opinberlega og Camilla flutti til Karls árið 2002 í Clarence House. En nú er semsagt komið að því að þessar umdeildu turtildúfur gangi upp að altarinu.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHalldór Ásgrímsson forsætisráðherra, fór í gærkvöldi ítarlega yfir Íraksmálið og aðdraganda ákvörðunar um að veita Bandaríkjunum og tengdum þjóðum pólitískan stuðning í aðdraganda innrásarinnar í Írak í umfangsmiklu viðtali við fréttastofu Stöðvar 2. Var viðtalið, sem stóð í tæpar 20 mínútur, sýnt í heild sinni á Stöð 2 í gærkvöldi að loknum fréttatímanum. Ræddi Brynhildur Ólafsdóttir þar við forsætisráðherrann og fór lið fyrir lið yfir málið allt. Vakti athygli að hann ræddi við hana, enda er hún sambýliskona Róberts Marshall, sem varð að hætta í starfi vegna fréttar nýlega. Sagði forsætisráðherrann þar að Bandaríkjastjórn hefði sótt hart að íslenskum stjórnvöldum að leggja nafn sitt við innrásina og styðja hana með afgerandi hætti og það væri þess vegna sem nafn Íslands lenti þar þann 18. mars 2003. Halldór sagði að Bandaríkjamenn hefðu haft samband við íslensk stjórnvöld og beðið um pólitískan stuðning í málinu eins og gert hafði verið í mörgum öðrum málum. Ef Íslendingar hefðu neitað hefði það verið veruleg stefnubreyting af hálfu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Viðurkenndi hann í viðtalinu að ákvörðunin um að fara á þennan lista hafi tengst hagsmunum Íslands í varnarsamningunum við Bandaríkin.

Er rétt af forsætisráðherra að veita viðtal og fara yfir málið og ræða það hreint út. Eflaust helgast þetta allt af pólitískri stöðu hans í augnablikinu. Hver skoðanakönnunin hefur birst af öðrum seinustu daga, sem sýnir að persónufylgi hans er í lágmarki og fylgi Framsóknarflokksins hefur minnkað verulega frá alþingiskosningunum 2003. Hann veitir viðtalið til að sækja fram og verjast gagnrýni almennt. Tel ég nær öruggt að hinir margþekktu spunameistarar forsætisráðherrans, fyrrum blaðamenn, í þjónustu hans hafi ráðlagt honum þessa leið í tjáningu og umfangi þess. Óhætt er að fullyrða að Halldór haldi allt öðruvísi á málum í embætti og í formennsku flokksins en Steingrímur Hermannsson, forveri hans á formannsstóli, gerði meðan hann gegndi síðast á sama tíma bæði formennsku í Framsóknarflokknum og forsætisráðherraembættinu, 1988-1991. Steingrímur hefur enda gagnrýnt Halldór svo eftir hefur verið tekið. Halldór svaraði til baka í fyrrnefndu viðtali og sagði með ólíkindum að fyrrum forsætisráðherra hafi tjáð sig með þeim hætti sem varð um pólitískar ákvarðanatökur. Hefur jafnan andað köldu milli þeirra, engin ný tíðindi í því. Vel eru þekktar snerrur þeirra seinustu ár þeirra saman á þingi, einkum um EES-málið. En ef marka má fréttir þegar þessi orð eru skrifuð er umræða hafin á þingi um málið. Þessi dauflega stjórnarandstaða hefur ekkert annað úr að moða greinilega. Eru tilþrif hennar í þessu máli auðvitað fyrir löngu orðin aðhlátursefni. En segja má annars að stjórnarandstaðan sé hætt að koma fólki á óvart í málefnafátækt sinni.

Punktar dagsins
Halldór Kiljan Laxness

Mjög athyglisvert var að heyra fréttir af því í gær að í tímaritinu Mannlífi, sem kemur út á morgun, sé umfjöllun um að FBI hefði til fjölda ára fylgst með Halldóri Kiljan Laxness rithöfundi. Segir í umfjöllun blaðsins að J. Edgar Hoover forstjóri FBI um árabil, hefði sjálfur fyrirskipað að kanna skyldi feril Laxness, tekjur sem hann hefði af sölu bóka í Bandaríkjunum og fylgjast með ferðum hans um árabil. Beiðni til Hoovers vegna Laxness mun hafa fundist í opinberu skjalasafni í Washington undir lok seinasta árs í athugunum um mikilvæg skjöl. Þar kemur fram að Halldór Laxness væri einna mest áberandi í íslenska kommúnistaflokknum og rannsaka þyrfti því hvort sá flokkur nyti fjárhagslegs stuðnings frá honum í gegnum bókatekjur í Bandaríkjunum. Fylgir sögunni að FBI hefði fylgst með Halldóri í rúmlega áratug. Málið hefur legið í þagnargildi allt til þessa dags. Lög sem sett voru í forsetatíð Bill Clinton um meðhöndlun leyndarskjala úr kalda stríðinu hafa létt leynd af mörgum málum og merkilegum skjölum, t.d. þessu. Fjallað var stuttlega um þetta mál í ævisögu Halldórs Guðmundssonar um Laxness, að ef til vill hefði verið fylgst með málum Halldórs af bandarískum yfirvöldum. Umfangið er hinsvegar meira en áður hafði verið talið óneitanlega.

Bruni í Grindavík

Fiskimjölsverksmiðjan Fiskimjöl og lýsi í Grindavík, sem er í eigu Samherja, brann til kaldra kola í gær. Eldur kviknaði í húsinu á fjórða tímanum í gær eftir að sprenging varð í katli við mjölþurrkara í verksmiðjunni. Er þó mest um vert að enginn slasaðist í þessum bruna. Tjónið er mikið og tilfinnanlegt. Ljóst er að vinnsluaðstaða og húsakynni fyrirtækisins eru ónýt og verði ekki notuð meira í vetur. Mikið ánægjuefni er þó að nokkur hluti tækjabúnaðar er óskemmdur. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, og Guðjón Hjörleifsson formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, fóru til Grindavíkur í dag og hittu forsvarsmenn fyrirtækisins að máli og kynntu sér stöðu mála. Tryggingamiðstöðin hefur nú sent frá sér afkomuviðvörun vegna brunans í fiskimjölsverksmiðjunni, enda eru eignirnar tryggðar hjá fyrirtækinu. Hafa matsmenn fyrirtækisins verið á staðnum í dag og kynnt sér stöðuna og metið hana. Ljóst er að bruninn er mikið áfall fyrir Grindavík, nú í byrjun vertíðar. Vonandi verður verksmiðjan endurreist en staða mála er nokkuð ótrygg vissulega.

As Good as it Gets

Vann í gærkvöldi að breytingum á uppsetningu vefsins. Er ekki um stórar breytingar að ræða svosem en bæði letur og bakgrunnslitur og fleira hefur breyst. Nauðsynlegt að stokka þetta aðeins upp. Aldrei að vita nema meiri breytingar verði síðar. Horfði ennfremur á kvikmyndina As Good as it Gets. Fjallar um rithöfundinn Melvin Udall, mann sem allir elska að hata. Hann er sérlega óforskammaður í háttum, með eindæmum ókurteis í tilsvörum og hefur yfirleitt allt á hornum sér. Eina manneskjan sem honum virðist líka sæmilega við er Carol Connelly, gengilbeinan á veitingahúsinu þar sem Melvin snæðir hádegisverðinn sinn, enda hefur hann margoft neyðst til að sitja á sér til að verða ekki vísað endanlega út af staðnum fyrir ókurteisi og frekju. Hann vill ekki að neinn annar en Carol þjóni sér til borðs. Í húsinu sem hann býr, búa m.a. nágranni hans, Simon, og hundurinn hans Verdell, Melvin til stöðugs ama, enda hikar hann ekki við að láta þá báða fá það óþvegið hvenær sem hann telur þörf á - sem er reyndar alltaf þegar færi gefst.

Þegar Simon lendir á sjúkrahúsi eftir líkamsárás, neyðist Melvin, fyrir kaldhæðni örlaganna, til að taka rakkann í fóstur og fyrr en varir taka hlutirnir óvænta stefnu, enda hefur Carol sitthvað til málanna að leggja. Sonur hennar, Spencer þarf á læknishjálp að halda vegna ofnæmissýkingar, og til að Carol geti unnið sem fyrr á veitingastaðnum við hornið, borgar Melvin allan lækniskostnað stráksins, og þá fyrst fara hlutirnir að breytast hjá Melvin. Hlutirnir taka óvænta og góða stefnu, bæði fyrir hann og alla í kringum hann... Hér er allt til að skapa hina ógleymanlegu stórmynd. Handritið er afbragð, leikstjórn James L. Brooks fagmannleg, myndatakan og tónlistin er hreinasta afbragð. En aðall þessarar óviðjafnanlegu myndar er stórleikur þeirra Jack Nicholson og Helen Hunt sem hlutu óskarsverðlaun fyrir leik sinn. Þetta er gæðamynd, fyndin og skemmtileg og sérlega vel leikin. Á alltaf vel við. Hef alltaf þótt Nicholson frábær leikari og á flestar af hans myndum og horfi reglulega á þær. En já frábær mynd, eitt af hans bestu hlutverkum á ferlinum.

Akureyri

Samkvæmt niðurstöðu skýrslu um áhrifasvæði höfuðborgarsvæðisins og helstu þéttbýlissvæða sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið, Vegagerðina og Flugmálastjórn gætu 35% íbúa höfuðborgarsvæðisins hugsað sér að búa á Akureyri. Þessi niðurstaða er kynnt á vef Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar. Í skýrslunni segir svo: "Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru spurðir hvort þeir gætu hugsað sér að búa á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins. Af 421 svarendum sögðu 52,4% já, 47,6% nei og 4,3% tók ekki afstöðu. Þetta er ótrúlega hátt hlutfall að rúmlega helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins gætu hugsað sér að búa út á landi. Þessi áhugi er nokkuð jafn eftir aldri, fjölskyldugerð, menntun og tekjum. Þó má greina heldur meiri áhuga hjá yngri tekjulægri hópum." Ennfremur kemur svo fram í lokamatinu: "Þegar spurt var hvar íbúar höfuðborgarsvæðisins vildu búa kom greinilega í ljós að Akureyri er lang vinsælasti staðurinn, en 34% svarenda nefndu höfuðstað Norðurlands." Þetta eru mjög ánægjulegar niðurstöður og koma í kjölfar skýrslu IMG Gallup. Þar kom fram að 54,6% landsmanna fólks í atvinnuleit á höfuðborgarsvæðinu gat hugsað sér að flytja hingað norður.

Sjálfstæðisflokkurinn

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, er 76 ára í dag. Félagið var stofnað þann 10. febrúar árið 1929, nokkrum mánuðum áður en Sjálfstæðisflokkurinn var formlega stofnaður, 25. maí 1929. Hef ég nú verið formaður félagsins í tæpt hálft ár. Saga félagsins er merk og hefur það alla tíð verið öflugur þáttur í starfi flokksins hér á Akureyri.

Saga dagsins
1840 Viktoría Englandsdrottning, kvænist Albert af Saxe-Coburg-Gotha. Hann hlaut titilinn prins, eiginmaður drottningar (Prince Consort). Þau voru gift allt til að hann lést árið 1861. Banamein prinsins var lömunarveiki. Syrgði hún mann sinn mjög og lifði í sorg í 40 ár. Hún var drottning allt til dauðadags árið 1901. Viktoría var drottning Englands í tæp 64 ár og ríkti lengur en nokkur annar
1938 Héðinn Valdimarsson rekinn úr Alþýðuflokknum - leiddi það til stofnunar Sósíalistaflokksins
1943 Orlofslög voru samþykkt á Alþingi - með þeim var tryggður einn frídagur fyrir hvern unninn mánuð. Allt frá samþykkt laganna hefur orlofstími landsmanna verið lengur um meira en helming
1944 Þrjár þýskar flugvélar vörpuðu sprengjum að olíuskipinu El Grillo sem lá á Seyðisfirði og sökk það. El Grillo var 10.000 tonna skip. Olía var í skipinu í fjöldamörg ár, en henni var dælt upp 1999
1954 Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna, varar við hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Víetnam. Í valdatíð eftirmanns hans, John F. Kennedy, var farið í stríð þar sem varð mjög langvinnt

Snjallyrðið
Víða eru vörður reistar
á vegum sögu þessa lands,
úr fornöldinni fljúga neistar
framtaksins og hraustleikans.

Rétt er vörður við að hressa,
veginn svo að rati þjóð,
og bindini í að binda þessa
björtu neista úr fornri glóð,
Grímur Thomsen skáld (1820-1896) (Vörður)