Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 febrúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um málefni Ríkisútvarpsins í fjölmiðlum um helgina þess efnis að afnotagjöld verði brátt afnumin og að fyrirtækið verði að fara í átt til framtíðar og stokka þurfi það upp. Fer ég yfir skoðanir mínar á RÚV og stöðu fyrirtækisins almennt. Eins og allir vita sem lesið hafa pistla mína um RÚV er þetta mál sem ég tel skipta mjög miklu máli. Óbreytt rekstrarfyrirkomulag RÚV er ekki fýsilegur kostur. Ég tel eðlilegt að leita leiða til að ná samkomulagi um breytingar á RÚV og því ekki viðeigandi að útiloka að gera RÚV að hlutafélagi, hinsvegar ætti öllum að vera ljóst að ég vil ganga mun lengra. Hlutafélagavæðing RÚV gæti verið eitt skref á langri leið, enda tel ég að enginn vafi leiki á að á endanum mun ríkið hætta að vera í samkeppni við einkastöðvar á fjölmiðlamarkaði.

- í öðru lagi fjalla ég um dönsku þingkosningarnar í vikunni. Við blasir þegar þessi úrslit eru gerð upp að sigur borgaraflokkanna er mikill og sérstaklega gott umboð sem Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, og stjórn hans, fær til áframhaldandi verka á valdastóli. Verður fróðlegt að fylgjast með danskri pólitík næstu árin, eftir þennan mikla sigur dönsku borgaraflokkanna, aðrar kosningarnar í röð. Úrslit kosninganna voru mikið áfall fyrir jafnaðarmenn í Danmörku, sem máttu þola það áfall að verða aftur, nú eftir fjögur ár í stjórnarandstöðu, annar stærsti flokkur landsins.

- í þriðja lagi fjalla ég um umræðuna um Íraksmálið sem heldur enn áfram hér heima. Í vikunni fór Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ítarlega yfir Íraksmálið og aðdraganda ákvörðunar um að veita Bandaríkjunum og tengdum þjóðum pólitískan stuðning í aðdraganda innrásarinnar í Írak í umfangsmiklu viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 á miðvikudagskvöld. Var eflaust rétt af forsætisráðherra að veita viðtal og fara yfir málið og ræða það hreint út. Hinsvegar er óneitanlega undarlegur bragur á því og uppsetning þess hefur vakið athygli, eflaust fleiri en hjá mér.

Punktar dagsins
Arthur Miller

Bandaríska leikskáldið Arthur Miller lést á föstudag, 89 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í Connecticut og var banamein hans hjartaslag. Miller var einn fremsti rithöfundur síðustu aldar og öflugt leikskáld sem setti sterkan svip á bandarískt leikhúslíf á seinni hluta 20. aldar. Til merkis um það voru öll ljós slökkt í leikhúsum á Broadway í New York klukkan átta að kvöldi föstudags til heiðurs honum og minnast framlags hans til leiklistar í Bandaríkjunum. Hann naut mikillar alþýðuhylli. Eitt þekktasta verk hans var Sölumaður deyr. Í því gagnrýndi hann harkalega bandarískt auðvaldsþjóðfélag. Miller var sístarfandi allt til loka. Hann var mjög pólitískur í umfjöllunarefnum og ófeiminn við að fara eigin leiðir. Hann kvæntist árið 1956, leikkonunni Marilyn Monroe. Þau voru gift í fimm ár, eða allt til ársins 1961. Monroe lést árið eftir. Leikskáldið Harold Pinter, sagði um Miller að hans yrði minnst vegna skoðana sinna, hann hafi haft ríka samúð með alþýðu manna og verið reiðubúinn að láta til sín taka í baráttu fólks fyrir réttlæti, hvar sem er í heiminum.

Bafta

Bresku kvikmyndaverðlaunin, BAFTA, voru afhent í Odeon við Leicester Square í London í gærkvöldi. Valdís Óskarsdóttir hreppti verðlaunin fyrir klippingu sína á myndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur hlýtur þessi verðlaun, æðstu kvikmyndaverðlaun Breta. Er þetta mikill heiður og eflaust ein helsta viðurkenning sem Íslendingi hefur hlotnast á sviði kvikmyndagerðar. The Aviator var valin besta kvikmyndin, Jamie Foxx var valinn besti karlleikarinn í aðalhlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni Ray og Imelda Staunton var valin besta leikkonan í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni Vera Drake. Mike Leigh hlaut leikstjóraverðlaunin fyrir sömu mynd. Clive Owen var valinn besti leikari í aukahlutverki fyrir leik sinn í Closer, og Cate Blanchett hlaut verðlaunin sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í The Aviator. Vera Drake fékk þrenn verðlaun en auk verðlauna fyrir besta leikstjórann og leikkonu í aðalhlutverki fékk myndin verðlaun fyrir búninga. Breski leikarinn Stephen Fry var kynnir á hátíðinni, venju samkvæmt.

Morgunblaðið

Íslensku blaðamannaverðlaunin voru afhent í gærkvöldi. Ítarleg fréttaskýring Árna Þórarinssonar í Morgunblaðinu í maí 2004 um átta ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar hlaut aðalverðlaunin, blaðamannaverðlaun ársins. Kemur það ekki á óvart, enda fór Árni víða yfir og kom margt nýtt fram í viðtölum. Í skrifum Árna vék hann að embættisferli Ólafs og verkum hans á forsetastóli og fortíð hans áður en hann varð forseti Íslands sumarið 1996. Vék hann þar t.d. að togstreitu sem hefur verið áberandi í umræðunni milli forsetaembættisins og stjórnkerfisins. Einnig var vikið að pólitískum tengslum Ólafs fyrir og eftir forsetatíð hans. Er þar fjallað um aðdragandann að forsetaframboði Ólafs við forsetakosningarnar 1996, er hann var kjörinn eftirmaður Vigdísar Finnbogadóttur, embættisferil hans og deilur um ýmis störf hans. Voru þetta mjög vandaðar umfjallanir og var mjög gaman að lesa þær.

Meðal þess sem mest þótti um vert að kæmi fram var að hugmyndin að framboði Ólafs Ragnars hafi verið pólitísk tilraun, sem myndi leiða til annarrar niðurstöðu en til var stofnað. Er Ólafur tilkynnti um framboð sitt, 28. mars 1996, reiknuðu hvorki hörðustu stuðningsmenn hans né andstæðingar með því að hann myndi ná kjöri til embættisins. Framboðið var því öðru fremur ætlað sem pólitískt baráttutæki fyrir hans hönd, sameiningarmálstaðar vinstri manna og áframhaldandi þátttöku hans í landsmálapólitík. Með því hafi hann ætlað að tryggja sig í sessi sem forystumann vinstri manna í þingkosningunum 1999 og leiða fyrstur manna, Samfylkingu vinstri manna sem var í burðarliðnum. Bergljót Baldursdóttir á fréttastofu útvarpsins og Morgunvaktinni hlaut verðlaunin fyrir bestu umfjöllun ársins, er fjallaði um stöðu og velferð aldraðra. Kristinn Hrafnsson á DV hlaut verðlaunin fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins, en umfjöllun hans um örlög íslensks drengs í fangelsi í Texas, þótti skara fram úr.

Undirritun álverssamnings á Reyðarfirði 2003

Mikil og ævintýraleg uppbygging á sér nú stað vegna álversframkvæmdanna við Reyðarfjörð. Fram kom í fréttum í dag að fyrirtækið Bechtel sem byggir álverið fyrir Alcoa á Reyðarfirði hefur í hyggju að ráða 1.500 - 1.600 manns í vinnu. Í blöðum í dag auglýsir Bechtel eftir 300 mönnum til sérhæfðra og almennra starfa. Eins og fram hefur komið í fréttum er sérhæft og almennt vinnuafl tæpast á lausu hér á landi í þeim mæli sem þarf við slíkar stórframkvæmdir. Það muni því flestir koma erlendis frá. Ég fór austur til Fjarðabyggðar undir lok janúar. Fannst mér mjög ánægjulegt að fara sérstaklega til Reyðarfjarðar og sjá hversu vel gengur þar núna og finna hversu mjög staðurinn hefur styrkst.

Saga dagsins
1693 Heklugos hófst - það stóð fram á haustið, olli miklu tjóni og jarðir lögðust í auðn á Suðurlandi
1942 18 breskir hermenn drukknuðu á Hrútafirði, þegar 2 prammar sukku - 6 mönnum var bjargað
1983 Loftsteinn féll í sjóinn austur af landinu - birti yfir víða um austanvert landið þegar steinninn þaut með miklum hraða um himinhvolfið. Þótti mjög tilkomumikil sjón, náðust merkar myndir af því
2001 Jarðskjálfti, að styrkleika um 6,6 á Richtersskala, skók El Salvador - rúmlega 400 manns létust
2002 Elísabet Englandsdrottning, veitir Rudolph Giuliani fv. borgarstjóra í New York, heiðursnafnbót

Snjallyrðið
Ég á það heima sem aldrei gleymist
né umbreyst fær,
við ölduhreiminn mig ávallt dreymir
um auðnir þær,
sem vindar geyma og vetrar snær,
þar vatnsföll streyma um dali tær.

Ó, fögru sveitir með fell og leiti
og fannagljá,
með svipinn hreina á öllu og einu
sem ann mín þrá.
Við minnstu steina grær minning smá
sem mun ei leynast né falla í dá.
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáld (1881-1946) (Heima)