Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 mars 2005

Halldór Blöndal forseti AlþingisHeitast í umræðunni
Í gær fjallaði ég um þingumræðu um málefni Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Það var athyglisvert að fylgjast með umræðunni og kynna sér skoðanir þingmanna almennt á málefnum vallarins. Ekki var verra að sjá meginlínurnar. Fyrir liggur að í öllum flokkum eru deildar meiningar um stöðu flugvallar í borginni og tekist á um hvort hann eigi að vera þar eða flytja eigi innanlandsflugið til Keflavíkur. Eins og margoft hefur komið fram af minni hálfu mun slíkur flutningur tákna endalok innanlandsflugsins með þeim hætti sem við þekkjum það. Að mínu mati er alveg út í hött að sætta sig við það að höfuðborg allra landsmanna, eins og hún hefur verið nefnd, færi þessa meginsamgöngulínu frá sér og í aðrar áttir. Með því er óhjákvæmilegt annað en að taka til endurskoðunar hlutverk höfuðborgarinnar. Það breytist í sjálfu sér ef samgöngulínan verður færð burt með þessum hætti. Það er alveg ljóst í mínum huga og hefur margoft komið fram af minni hálfu. Það var mjög gott hjá Halldóri Blöndal forseta Alþingis, að taka málið upp og fá um það umræðu. Fáir menn þekkja betur stöðu málsins og mikilvægi flugvallar á höfuðborgarsvæðinu en Halldór, sem samgönguráðherra landsins í 8 ár. Það var orðið tímabært að fá fram umræðu um stöðu málsins og fá fram grunnáherslur þingmanna til þess.

Ekki veitir af að taka stöðu málsins í umræðinu á þinginu og sjá með því í hvaða farvegi málið er og heyra skoðanir þingmanna. Eins og kom fram af minni hálfu í gær var fróðlegast að sjá einstrengingslegan og flóttalegan málflutning Helga Hjörvar varaborgarfulltrúa og alþingismanns. Lagði hann reyndar til þá absúrd tillögu að þeim 10 milljörðum króna, sem ríkið fengi fyrir að selja land sitt í Vatnsmýrinni undir byggingarland yrði varið til að styrkja byggð á landsbyggðinni. Sagði hann svona í hálfum hljóðum meðan hann stautaðist í gegnum blaðrið að þetta væri sett fram til að koma til móts við sjónarmið landsbyggðarinnar. Ekki tók ég þessum tillögum Helga alvarlega, leit frekar á þetta sem grín eða barnaskap. Það er einfalt af minni hálfu að afþakka þennan "rausnarskap" þingmanns Samfylkingarinnar og bendi honum á að hann getur átt þessa hugmynd einn. Vonandi kemur hún aldrei til framkvæmda. Það er þó líklegt að það gerðist ef hann kæmist í aðstöðu til á vettvangi landsmálanna. Hvað þá Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, sem þekkt er af skoðunum sínum í flugvallarmálinu, þó hún hafi nú lagst undir feld eins og jafnan fyrr og reynt að þaga eins mikið og hægt sé til að friða landsbyggðarmenn í flokknum sem styðja hana til áhrifa í flokki sínum. Það væri varla árangursvert hjá henni að flíka skoðunum sínum í þeim slag, ef hún á að bjarga sér úr pólitískri eyðimerkurgöngu sinni. Eins og fyrr segir gef ég lítið fyrir hugmynd Helga í þessum efnum og vona að hún verði hans einkablaður sem lengst. Standa á vörð um flugvöll í borginni, það er einfalt. Samgöngur landsbyggðar við höfuðborgarsvæði má ekki skerða, með þeim hætti sem sérvitrungar á borð við Helga halda fram að eigi að gera. Er ekki hægt annað fyrir landsbyggðarfólk en að hneykslast á Helga og sjónarmiðum hans í þessu máli.

RíkisútvarpiðÚtvarpsráð hittist á fundi sínum í morgun til að fjalla um mörg mál. Eitt þessara mála var að fara yfir umsóknir um stöðu fréttastjóra Útvarps. Sú staða losnaði undir lok síðasta árs þegar Kári Jónasson, fréttastjóri Útvarps til tæplega tveggja áratuga, varð ritstjóri Fréttablaðsins. Meirihluti útvarpsráðs ákvað á fundinum að mæla með Auðuni Georg Ólafssyni markaðs- og sölustjóra, í starf fréttastjóra. 4 fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mæltu með Auðuni en aðrir fulltrúar ráðsins sátu hjá og sendu frá sér bókun þess efnis að fulltrúar stjórnmálaflokka ættu ekki að skipta sér af ráðningunni. Er um að ræða fulltrúa Samfylkingarinnar og Frjálslyndra. Skal ég viðurkenna að ég varð hissa á áliti meirihlutafulltrúa í ráðinu. Taldi ég flesta umsækjendur hæfari en Auðun Georg, sem hefur aðeins starfað í nokkur ár sem fréttamaður hjá Stöð 2 og Bylgjunni, en mest unnið að markaðsmálum. Taldi ég fréttamenn á borð við Óðinn Jónsson, Hjördísi Finnbogadóttur og Kristínu Þorsteinsdóttur standa þessu mun frekar nær, sökum langrar starfsreynslu við fjölmiðla og tengd verkefni í gegnum tíðina.

Finnst mér undarlegt að útvarpsráð fari gegn áliti Boga Ágústssonar yfirmanns fréttasviðs. Hinsvegar kemur afstaða minnihluta útvarpsráðs mér enn meir á óvart. Einkum Samfylkingarinnar sem segist ekki taka þátt í pólitísku vafstri við ráðninguna. Samfylkingin tók sjálf þátt í pólitísku plotti árið 2002 til að reyna að koma í veg fyrir að Elín Hirst yrði fréttastjóri Ríkissjónvarpsins og stóð þar að meirihluta með Framsóknarflokki til að mæla með umsækjanda sem yfirmaður fréttasviðs mælti ekki með í stöðuna. Þannig var það nú. Fyrst reyndi þessi meirihluti að plögga Pál Benediktsson sem andstæðu við Elínu Hirst en enduðu svo á Sigríði Árnadóttur. En það er undarlegt að Samfylkingin mæli ekki með þeim umsækjanda sem þeir töldu þá hæfastan í stöðuna. Það er fáheyrt að útvarpsráðsmenn mæli ekki með umsækjenda í stöðu. Vinnuferlið er ekki nýtt. Samfylkingin er ekki nýtt afl í útvarpsráði. Samfylkingin hefur tekið þátt í svona ferli áður og stuðlað að pólitísku bandalagi í útvarpsráði gegn mati yfirmanns fréttasviðs. Þeir sem sitja í útvarpsráði hafa fullan rétt á tjáningu um það hvern þeir telja hæfastan og eiga að gera það. Það er rugl að sitja hjá eða benda ekki á þann hæfasta að mati ráðsins þegar kemur að þessu ferli. Samfylkingin er því ekki trúverðug í þessu máli og vinnubrögð hennar stórundarleg. Vel má vera að minnihlutinn sé ósáttur við val meirihlutans en þeim ber samt skylda til að tjá skoðun sína á því hver sé hæfastur umsækjenda og eigi að taka við stöðunni.

Punktar dagsins
Göran Persson

Eins og fram kom í skrifum mínum hér í síðasta mánuði hefur staða sænska jafnaðarmannaflokksins og pólitísk staða Göran Persson leiðtoga flokksins og forsætisráðherra landsins, veikst mjög að undanförnu. Fylgi ríkisstjórnarinnar, flokksins og persónuvinældir Persson hafa dalað nokkuð. Það var því honum mikið áhyggjuefni þegar fregnaðist að nærri 22% sænskra kjósenda gæti hugsað sér að kjósa flokk femínísta. Er jafnvel búist við því að Guðrún Schyman sem er þekkt kvenréttindakona í Svíþjóð stofni slíkan flokk sem færi fram í þingkosningum í landinu á næsta ári. Ef marka má hvert slíkur flokkur myndi sækja fylgi sitt einna helst blasir við að hann myndi taka mikið af Jafnaðarmannaflokknum og jafnaðarmenn verða fyrir miklu fylgistapi ofan á aðrar óvinsældir í könnunum. Það er því engin furða að Persson sé áhyggjufullur yfir stöðu mála og því hvað Schyman muni gera. Hún var fyrsta konan sem varð formaður flokks í Svíþjóð, vinstri flokksins, en hún sagði sig úr flokknum vegna þess að hann lagði ekki nægar áherslur á kvenréttindamál. Mun þessi flokkur berja skörð í helstu vinstriöflin í landinu og gæti því raskað valdahlutföllum og leitt til falls ríkisstjórnar Persson.

Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton

Tilkynnt var í dag að Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, þyrfti að gangast undir skurðaðgerð í vikunni. Er um að ræða frekar einfalda aðgerð sem felst í því að vökvi og örvefur verði fjarlægður úr brjósti hans. Er um að ræða staðlaða framhaldsaðgerð fyrir flesta þá sem gangast undir opna aðgerð á hjarta. Forsetinn mun þurfa að dvelja á spítala í 10 daga vegna aðgerðarinnar, en hyggst mæta til vinnu fljótlega að því loknu. Clinton gekkst undir flókna hjartaaðgerð þann 6. september 2004, skömmu eftir að hann var staddur í heimsókn hérlendis. Var um að ræða þrefalda hjáveituaðgerð sem þykir mjög flókin og erfið. Var hann fjarri sviðsljósinu í einn og hálfan mánuð. Hann birtist fyrst opinberlega undir lok október og tók þátt í kosningabaráttu John Kerry fyrir forsetakosningarnar í nóvember og fór með honum á nokkra framboðsfundi. Þótti forsetinn fyrrverandi vera slapplegur og magur, en óvenjubrattur eftir svo flókna aðgerð. Hann var svo viðstaddur opnun forsetabókasafns síns í Arkansas í nóvember og hefur seinustu vikurnar verið áberandi í forsvari söfnunar til styrktar fórnarlömbum hamfaranna í Asíu í desember sl., eins og ég sagði frá í gær hér á vefnum.

Mjólk

Eins og fram hefur komið í fréttum seinustu daga er skollið á mikið verðstríð í lágvöruverslunum landsins. Nær það til Bónus og Krónunnar. Er þar skipt ört um verð og rokkar það til og frá og verslanirnar eru fljótar að svara stöðu mála með því að lækka, hafi keppinauturinn hreyft við verðinu. Gott dæmi um ástandið í verðstríðinu er að mjólkurlítrinn er nú nánast gefinn. Þeir sem fara í lágvörubúðirnar geta keypt mjólkina allt frá 90 aurum upp í fjórar krónur. Það þarf vart að taka fram að um gjafverð er að ræða og hefur fólk verið duglegt að hamstra mjólkina. Annað gott dæmi er að 2 lítrar af kóki fæst í Bónus nú á 50 krónur, en verslanirnar hafa verið að takast á um verð á gosdrykkjum seinustu daga ennfremur. Heyrði ég hjá systur minni sem átti leið um Bónus hér á Akureyri seinnipartinn að þar hafi körfur verið upp til hópa stappaðar af mjólk og kóki og eflaust margir að versla gos fyrir fermingarveislurnar sem hefjast í næstu viku. Er merkilegt að heyra af þessu og sjá myndir af verslunarmátanum. En ætli mig gruni ekki að verðið á öðru muni hækka í staðinn. Neytendur þurfa að borga mismuninn að lokum, eða það blasir við. Varla gefa verslanirnar og eigendur þeirra meira en þær þurfa.

Teresa Wright (1918-2005)

Óskarsverðlaunaleikkonan Teresa Wright lést á sunnudag, 86 ára að aldri, á sjúkrahúsi í New Haven í Connecticut. Hún hóf ung leikferil sinn sem sviðsleikkona í heimafylki sínu. Hennar fyrsta hlutverk í kvikmynd var í The Little Foxes árið 1941. Hún varð fræg um allan heim ári síðar, 1942, með túlkun sinni á Carol Beldon Miniver í Mrs. Miniver. Hún hlaut óskarsverðlaun sem leikkona í aukahlutverki fyrir góða frammistöðu í þeirri mynd. Með því var framtíð hennar ráðin. Á árunum í kjölfarið lék hún í meistaraverkum á borð við Shadow of a Doubt, The Best Years of Our Lives, The Trouble with Women og The Actress. Hún varð minna áberandi í leiklistinni á árunum eftir 1960 og dró sig nokkurnveginn í hlé. Hún hélt þó áfram að leika í mynd stöku sinnum. Lék hún langt fram á efri ár. Síðasta kvikmyndahlutverk hennar var í kvikmyndinni The Rainmaker árið 1997, þar sem hún fór á kostum í hlutverki Miss Birdie. Hún kom síðast fram opinberlega á óskarsverðlaunahátíðinni árið 2003 þegar óskarsverðlaunahafar fyrri ára voru heiðraðir. Teresa var eins og fyrr segir glæsileg leikkona. Með henni er fallin í valinn ein af þeim leikkonum sem settu mestan svip á gullaldarsögu Hollywood á fyrri hluta 20. aldar.

Saga dagsins
1700 Tugir fiskibáta fórust í gríðarlegu stormviðri við Reykjanesskaga - alls 136 manns drukknuðu
1843 Alþingi Íslendinga var formlega endurreist með tilskipun konungs - kom saman 1. júlí 1845
1868 Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld lést, 49 ára að aldri - hann varð þekktur fyrir skáldsögur og kvæði. Jón ritaði fyrstu skáldsögu Íslendinga, Piltur og stúlka, sem þykir meistaraverk enn í dag
1975 Kvikmyndaleikstjórinn George Stevens lést, sjötugur að aldri - Stevens var einn af svipmestu kvikmyndaleikstjórum 20. aldarinnar í Bandaríkjunum og gerði margar af eftirminnilegustu myndum gullaldarsögu Hollywood. Stevens hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í kvikmyndinni Giant 1956
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kallar Sovétríkin veldi hins illa í víðfrægri ræðu í Flórída

Snjallyrðið
Music is the art which is most nigh to tears and memory.
Oscar Wilde rithöfundur (1854-1900)