Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um formannsslaginn í Samfylkingunni sem brátt fer á fullt. Frestur til framboðs í formannskjörið rann út í vikunni og varð þá ljóst að Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gáfu bæði kost á sér, eins og vitað var fyrir. Segja má að Ingibjörg Sólrún hafi formlega hafið kosningabaráttu sína fyrir formannskjörið um miðja vikuna. Hún opnaði kosningaskrifstofu og heimasíðu á netinu til að marka upphafið og sást vel á allri uppstillingu að um þaulskipulagt framboð er að ræða og vel undirbúið að nær öllu leyti. Tengslanet hennar er mjög öflugt og sjá allir sem líta á vef hennar að hvert skref er pælt til enda. Á miðvikudagskvöldið kom svo formannsefnið í sannkallað hásætisviðtal í Kastljósið. Fannst mér ansi merkilegt að fylgjast með því. Ingibjörg var þar í sama dressinu og á öllum framboðsmyndunum og búin að æfa út í hina ystu æsa alla frasana sem búið var að hanna fyrir hana. Þaulæfð, eins og hver annar bandarískur forsetaframbjóðandi í milljón dollara þaulskipulagðri kosningabaráttu.
- í öðru lagi fjalla ég um stöðuna í Ríkisútvarpinu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, réð Auðun Georg Ólafsson sem fréttastjóra Útvarpsins. Loft er lævi blandið í útvarpshúsinu við Efstaleiti eftir þessa ráðningu. Starfsmenn RÚV samþykktu í vikunni yfirlýsingar þess efnis að hvetja útvarpsstjóra til að hætta við ráðninguna og fréttamenn meira að segja lýstu yfir vantrausti á Markús Örn. Er um sögulega ákvörðun að ræða, enda aldrei gerst í 75 ára sögu Ríkisútvarpsins að starfsmenn lýsi yfir vantrausti eða efist á opinberum vettvangi með beinni yfirlýsingu um yfirmann sinn og verk hans. Það er erfitt að sjá hvernig báðir aðilar geta farið með sæmd frá málinu nema fréttastjóraefnið víki þá sjálfviljugur frá. Er erfitt að spá um framhald mála, en ég fer yfir nokkra punkta.
- í þriðja lagi fjalla ég um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Fagna ég að það komi fram, enda um að ræða mikið baráttumál sjálfstæðismanna til langs tíma, einkum okkar í ungliðahreyfingunni. Tjái ég mig í nokkrum setningum um þetta frumvarp og hvaða breytingar það boðar, verði það samþykkt.
Ljóst er orðið að ekki verður kosið um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði á þeim tímapunkti sem upphaflega var kynntur, þann 23. apríl nk. Við blasir að ekki hefur enn náðst samkomulag um verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er því alveg ljóst að forsendur fyrir kosningu á fyrrnefndum tíma eru brostnar. Menn eru fallnir á tíma að koma málum í gegn fyrir þann tíma. Rætt er um að kjósa um málin í júnímánuði. Ljóst er að það er sá tímapunktur sem helst hentar. Þessi mál verða að vera frágengin, kosningalega séð fyrir sumarlok, að mínu mati. Það er forsenda þess ef kanna á stöðu mála fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Einnig hefur heyrst að kosningu yrði frestað til haustsins og kjördagur þá snemma í október. Sú dagsetning er algjörlega óásættanleg að mínu mati, enda kosningar undir lok maí 2006. Það verður að liggja fyrir vel tímanlega hvernig sveitarfélög líta út fyrir þær kosningar, varðandi skipan á framboðslista og kosningamál almennt fyrir flokkana. Í gær var kynnt skoðanakönnun RHA fyrir RÚV um afstöðu fólks hér til sameiningarmála í firðinum. Meirihluti íbúa Akureyrar, Dalvíkurbyggðar, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar eru hlynnt sameiningu en meirihluti íbúa í sveitahreppunum eru hinsvegar á móti sameiningu. Er þetta mjög í takt við það sem ég finn í stöðunni. En þessi könnun er merkileg, hvet fólk til að kynna sér hana betur.
Eins og ég sagði frá á föstudag var um helgina haldin hér í bænum sýningin Matur-inn 2005. Um er að ræða matar- og léttvínssýningu sem haldin var í húsnæði Verkmenntaskólans við Hringteig. Margir lögðu leið sína þangað í gær. Var ég einn þeirra og var sérstaklega gaman að fara þangað og gæða sér á bragðgóðum norðlenskum réttum í boði matvælaframleiðenda á svæðinu. Eins og nærri má geta svigna borðin undan kræsingum og stemmning mjög góð. Það var Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, sem opnaði sýninguna formlega í gærmorgun. Er keppnin haldin samhliða landskeppni matreiðslumanna sem haldin er í bænum um helgina. Segja má að um sé að ræða svar Norðlendinga við matarhátíð svipaðs eðlis í Reykjavík og ber heitið Food and fun. Er allt mjög vel heppnað og tekst vel upp. Einn af umboðsmönnum bæjarins, Magga Blöndal útvarpskona, er kynnir hátíðarinnar og heldur utan um dagskrána af stakri snilld. Í dag verður aftur litið á sýninguna en þá munu þekktir einstaklingar úr bæjarlífinu keppa í matargerð og ennfremur veitt verðlaun í keppninni um matreiðslumann landsins.
Í gær opnaði sýning á verkum Erró (Guðmundar Guðmundssonar) hér í Listasafninu á Akureyri og mun hún standa í tvo mánuði, eða allt til 8. maí. Meginuppistaðan á sýningunni eru átta mjög stór málverk úr myndaröðinni Listasagan sem hann málaði í upphafi tíunda áratugarins. Ennfremur má sjá nánari innsýn í vinnuaðferðir og hugmyndaheim listmálarans með því að sjá fjögur önnur verk, þar sem hann einkum klippir saman myndir annarra þekktra listamanna frá ýmsum tímabilum 20 aldarinnar. Eins og jafnan fyrr fer Erró ótroðnar slóðir í listsköpun. Erró málar jafnan í þriðju persónu. Hann notar að mestu myndir sem hafa birst á öðrum vettvangi listarinnar sem meginþema og uppsprettu í efnivið sinn. Segja má að grunnpunkturinn í frásögn Erró sé að þar komi saman ólík myndbrot héðan og þaðan og með þeim komi ný tilvísun og skapar með því eigin sýn, og eigin frásögn á þau. Ég hvet alla til að líta á Listasafnið og kynna sér sýninguna og verk Errós. Ég hafði gaman að kynna mér verk Erró. Um er að ræða enn eina rósina í hnappagat Listasafnsins okkar, sem hefur markað sér kraftmikinn sess í menningarlíf bæjarins fyrir margt löngu.
Helgin hefur verið góð eins og sést á fyrrnefndum tveim punktum og margt skemmtilegt gert og afmælisveisla pabba í gærkvöldi var vel heppnuð og ánægjuleg. Áttum góða kvöldstund og mjög gaman að hitta ættingja yfir góðum veigum. En einn punktur skyggði á flest annað hér um helgina. Það eru óneitanlega nokkur vonbrigði, svo ekki sé nú meira sagt, að ekki hafi verið samið við Slippstöðina hér um breytingar og endurbætur á varðskipunum Tý og Ægi. Var tekið lægsta boði, sem kom frá Póllandi. Tilboð pólverjanna hljóðaði upp á 275 milljónir og var 13 milljónum króna lægra en tilboðið frá Slippstöðinni. Get ég ekki annað en tekið undir mat Guðmundar Tulinius forstjóra Slippstöðvarinnar, í fréttum RÚV um helgina þess efnis að um reiðarslag sé að ræða á grundvelli málsins. Eftir stendur að munurinn á tilboðunum var það lítill að hann mun ekki einu sinni ná að dekka þann kostnað sem fylgir því að flytja verkið úr landi. Þessi ákvörðun Ríkiskaupa er sláandi og vægast sagt slæm. Er um mikil vonbrigði fyrir okkur að ræða hér fyrir norðan og vekur þessi gjörningur óneitanlega mjög margar spurningar.
Saga dagsins
1964 Alþingi var afhent áskorun 60 kunnra Íslendinga, svonefndra sextíumenninga, þar sem skorað var á þingið að takmarka útsendingar Keflavíkursjónvarpsins við herstöðina. Sendistyrkurinn hafði þá nýlega verið aukinn. Óttuðust menningarpostularnir að bandarískt sjónvarp til allra landsmanna hefði alvarleg áhrif á þá og skaðaði mjög menningarlíf. Á þeim grundvelli var helst mótmælt. Við tilmælum þeirra var formlega orðið 3 árum síðar. Þá hafði íslensk sjónvarpsstöð á vegum ríkisins verið stofnuð
1974 Græna byltingin - skýrt var frá áætlunum borgarstjórnar um að skipuleggja opin svæði og gera göngustíga, hjólreiðabrautir og útivistarsvæði í Reykjavík. Græna byltingin var umfangsmesta átak Reykjavíkurborgar í umhverfismálum og var lykilmál á borgarstjóraferli Birgis Ísleifs Gunnarssonar
1977 Hreinn Halldórsson varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss - Hreinn varð þriðji Íslendingurinn sem vann til Evrópumeistaratitils í frjálsum íþróttum - Hreinn varð kjörinn íþróttamaður ársins 1977
1983 Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð - náðu kjöri á þing í kosningunum 1983 og áttu fulltrúa á löggjafarþinginu allt til ársins 1999. Kvennalistinn varð partur af Samfylkingunni árið 2000
1996 Thomas Hamilton, 43 ára skoskur maður, myrðir 16 skólabörn og kennara þeirra í barnaskóla í smábænum Dunblane í Skotlandi - hann var ekki tengdur skólanum en trylltist eftir að hann var rekinn sem skátahöfðingi. Hamilton svipti sig lífi eftir árásina og því var málið aldrei upplýst að fullu
Snjallyrðið
Trust yourself. Create the kind of self that you will be happy to live with all your life. Make the most of yourself by fanning the tiny, inner sparks of possibility into flames of achievement.
Golda Meir forsætisráðherra Ísraels (1898-1978)
<< Heim