Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 mars 2005

Alþingi ÍslendingaLaugardagspælingin
Lagt hefur nú verið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu felst einkum að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans að frumvarpinu eru fleiri þingmenn flokksins. Þau sem leggja málið fram með honum eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Gunnar Birgisson, Pétur H. Blöndal og Sólveig Pétursdóttir. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Nú er það aftur lagt fram á þingi. Er það mikið ánægjuefni að þetta baráttumál sjálfstæðismanna komi fram og sé lagt á það áherslu á þingi.

Rökin að baki frumvarpinu eru nokkur en þau eru einna helst þau að telja verður að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti mjög gegn rétti einstaklinga til friðhelgis einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru án vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari. Í greinargerð þingmannanna með frumvarpinu kemur fram að birting upplýsinga um tekjur einstaklinga sé mjög til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hafi á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Þar að auki er minnt á að með niðurfellingu kæruheimildar gjaldenda vegna skattákvörðunar þriðja manns hafi forsendur að baki framlagningu skattskráa einstaklinga brostið.

Ekki síður er þess getið að frumvarpið mun ekki fela í sér að neinu leyti að dregið verði úr þeim úrræðum sem skattyfirvöldum er veitt í núverandi löggjöf til að sinna virku skatteftirliti, bregðast við undanskotum frá skatti eða til að beita öðrum þeim heimildum sem núgildandi löggjöf kveður á um. Frumvarpið gerir ekki síst ráð fyrir því að núverandi eftirlit verði eftir sem áður í höndum skattyfirvalda. Verði frumvarpið að lögum ljúki hinsvegar einkaskattrannsóknum borgaranna hvers á öðrum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft ályktað um þetta mál og enginn vafi á því að það er stefna flokksins að þessar breytingar eigi sér stað. Það hefur verið baráttumál flokksins og ýmissa fylkinga innan hans að tekið sé á þessu máli. Það er því mjög ánægjulegt að þingmenn flokksins sameinist um að leggja frumvarpið fram og stokka stöðuna upp til samræmis við það sem stefna flokksins felur í sér. Að mínu mati eiga viðkomandi þingmenn mikið hrós fyrir að stíga þetta skref og vinna í takt við stefnu flokksins í þessum efnum. Sérstaklega hrósa ég þeim þó fyrir að leggja áherslu á þetta baráttumál ungra sjálfstæðismanna til fjölda ára.

Það hefur mjög lengi verið stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna að þessi breyting verði gerð á. Það er eins og komið hefur fram í skrifum mínum algjörlega í ósamræmi við skoðanir mínar að allir landsmenn geti farið á skattstofur og kynnt sér hvað annað fólk borgar í skatta og verið að hnýsast með því í einkalíf fólks með þeim hætti. Hefur það alltaf verið skoðun mín að þetta eigi ekki að vera með þessum hætti og ekki eigi að birta álagningarskrárnar opinberlega. Þetta er því gleðiefni að frumvarpið sé komið fram og tekið verði á þessum málum. Í júlímánuði 2003 skoraði þáverandi stjórn, bæði SUS og Heimdallar, á þingmenn flokksins um að beita sér í málinu. Sendu þau öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins bréf og hvatti þá til að standa að nauðsynlegum lagabreytingum til að tryggja að fjárhagsupplýsingar borgaranna verði framvegis ekki gerðar opinberar í álagningar- og skattskrám. Við þessu hafa þingmennirnir nú orðið, okkur ungliðum flokksins og almennum flokksmönnum til mikillar ánægju.

Punktar dagsins
Hildur Vala Einarsdóttir - poppstjarna Íslands 2005

Hildur Vala Einarsdóttir var í gærkvöldi kjörin poppstjarna Íslands árið 2005 í æsispennandi úrslitakeppni í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind. Keppti hún um sigurinn í keppninni við Aðalheiði Ólafsdóttur. 135.000 atkvæði bárust í þessari lokakosningu og var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Báðar stóðu þær sig alveg frábærlega í þessum úrslitaþætti. Fóru þær á kostum og fluttu hvor um sig þrjú stórfengleg lög. Hildur Vala söng lögin The Boy who giggled so sweet, Líf og Án þín. Heiða söng lögin Ég veit þú kemur, Líf og Slappaðu af. Mátti varla á milli sjá hvor stóð sig betur. Tvær stórglæsilegar söngkonur og úrslitakvöldið jafnaðist á við stórfenglega tónleika með frábærum flytjendum. Að mínu mati var Hildur Vala allan tímann hinn sanni sigurvegari keppninnar. Hún kom, sá og sigraði. Ég held að það sé rétt það sem Bubbi Morthens sagði í gærkvöldi er úrslitin lágu fyrir að grunnurinn að því að Hildur Vala náði sigrinum og heillaði þjóðina sé að hún hafi sungið sig inn í hjörtu landsmanna með svipmikilli túlkun og næmu látbragði. Hildur Vala er hin sanna stjarna og vonandi gengur henni vel á framabrautinni, sem og öllum öðrum þátttakendum keppninnar þetta árið. Hér fyrir neðan má fylgjast með ferð Hildar Völu í gegnum keppnina, glæsilegar túlkanir á fallegum lögum.

Hildur Vala Einarsdóttir
Hildur Vala - poppstjarna Íslands 2005
Immortality
Dark end of the street
I Love the Nightlife
Á nýjum stað
Er hann birtist
Everything I do, I do it for you
It´s only a Papermoon
I Wish
You´ve got a friend in me
Heart of glass
Careless Whisper
The Boy who giggled so sweet
Án þín
Líf

Ísjaki

Vægast sagt ískyggilegt ástand er komið upp hér við norðanvert landið. Hafís nálgast landið og er siglingaleiðin fyrir öllu Norðurlandi, allt frá Horni austur að Langanesinu, mjög varasöm vegna íssins. Hefur ástand mála ekki verið verra frá árinu 1979, sem var mjög kalt ár og mikið hafísaár. Ljóst er eftir könnunarflug Landhelgisgæslunnar í dag að staðan er dökk, enda stefnir allt í að norðlægar áttir verði í veðrinu næstu vikuna og því kalt í veðri. Mun slíkt veðurfar auðvitað leiða til þess að ísinn færist sífellt nær landi og jafnvel líklegt að hann taki að berast inn í fjörðinn. Þegar er hann kominn að Grímsey og eins og við má búast taka íbúar þar honum ekki fagnandi. Ef marka má fréttamyndir seinustu daga er ástandið dökkt og vonandi að veðurfarið breytist brátt svo ísinn fari fjær landi. Merkilegt er að lesa gamlar lýsingar af hafís við landið. Langafi minn, Stefán Jónasson skipstjóri og útgerðarmaður á Akureyri, sem lést árið 1982, þá 101 árs að aldri, skrifaði lengi dagbók. Er alltaf gaman að lesa lýsingar hans af hafís við landið á þeim árum þegar hann var skipstjóri. Á ég margar af bókunum og lít oft á. Hann sagði skemmtilega frá og er gaman að lesa lýsingar hans á þessu.

Mjólk

Að lokum er ekki hægt annað á þessum laugardegi, við vikulok, en að skrifa smá um kostulegt verðstríð í vikunni á lágvörumarkaðnum í verslunum. Mjólkin, sem hefur lengst af verið dagleg nauðsynjavara og oft nokkuð dýr, var meginhluta vikunnar annaðhvort seld í lágvöruverslunum á eina krónu eða hreinlega gefins. Fannst mér alveg kostulegt að fara í Nettó á fimmtudag og geta þar einfaldlega tekið þar fjórar einslítra umbúðir af mjólk ásamt fleiru á billegu verði og þurfa svo ekki að borga mjólkina við kassann. Þetta er eiginlega alveg ævintýralegt. Gosið var einnig hræbillegt, svo ekki sé nú talað um ávextina. En þetta með mjólkina var merkilegt og hefur sjaldan farið eins mikið af mjólk í verslunum. Verður fróðlegt að sjá hversu lengi þessi þróun heldur áfram. Eitthvað er nú tekið að róast yfir þessu og aftur farið að selja mjólkina. Þegar ég fór í verslun snemma í morgun var farið að selja hana aftur, en samt langt undir venjulegu verði. Þetta er alveg stórmerkilegt og reyndar verður fróðlegt að fylgjast með verðstríðinu næstu dagana.

Saga dagsins
1916 Alþýðusamband Íslands, ASÍ, var stofnað og þar með einnig Alþýðuflokkurinn. Fyrsti formaður Alþýðuflokksins og jafnframt fyrsti forseti ASÍ var Jón Baldvinsson - sögu Alþýðuflokksins lauk 2000 með formlegum hætti. Tengsl ASÍ og Alþýðuflokksins liðu að mestu undir lok á sjötta áratugnum
1945 Dagbókarhöfundurinn Anne Frank lést í Bergen-Belzen fangabúðunum, 15 ára að aldri. Henni og fjölskyldu hennar tókst í nokkur ár að leynast fyrir hersveitum nasista á heimili sínu í Amsterdam. Á meðan því stóð skrifaði Anne dagbók um það sem gerðist og lýsti lífi hennar og fjölskyldunnar til loka. Sagan var síðar gefin út og varð margverðlaunuð fyrir ritsnilli. Hún var færð í leikbúning og eftir henni gerð ógleymanleg kvikmynd af George Stevens 1959. Ein eftirminnilegasta saga aldarinnar
1965 Fyrsta íslenska bítlaplatan kom út - á plötunni voru tvö lög með Hljómum: Bláu augun þín og Fyrsti kossinn. Lögin urðu bæði mjög vinsæl og voru eftir Gunnar Þórðarson og við texta Ólafs Gauks
2001 Hverastrýtur á botni Eyjafjarðar voru friðlýstar, fyrstar náttúruminja hérlendis í hafi við landið
2003 Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, myrtur í Belgrad, fimmtugur að aldri. Djindjic var einn af allra vinsælustu stjórnmálamönnum í sögu Serbíu. Hann var lengi borgarstjóri í Belgrad og leiddi síðar forystu stjórnarandstöðunnar gegn Slobodan Milosevic, sem var felldur af valdastóli árið 2000. Hann studdi Vojislav Kostunica í forsetakjöri 2000 og varð þá forsætisráðherra Serbíu og sat til loka

Snjallyrðið
There is a fountain of youth: it is your mind, your talents, the creativity you bring to your life and the lives of people you love. When you learn to tap this source, you will truly have defeated age.
Sophia Loren leikkona (1934)