Auðun Georg Ólafsson fréttastjóri Ríkisútvarpsins, tilkynnti í yfirlýsingu seinnipartinn í dag að hann hefði ákveðið að afþakka starfið og skrifa ekki undir formlegan ráðningarsamning. Auðun Georg tók formlega við starfinu í morgun og er óhætt að segja að þessi fyrsti og eini dagur Auðuns Georgs í starfinu hafi gengið brösulega og átök verið innanbúðar hjá RÚV vegna málsins. Blasti við að samstarf Auðuns Georgs og starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu myndi ekki ganga. Eins og fram kom í skrifum mínum hér fyrr í dag var ljóst að Auðun Georg gat ekki með góðu orðið fréttastjóri. Bæði voru yfirlýsingar hans í dag mjög undarlegar og framkoma hans orkaði tvímælis, bæði í viðtölum og eins er kom að því að halda á starfi sínu innan veggja RÚV. Hann er maður að meiri eftir að hafa tekið þessa ákvörðun.
Eflaust er Auðun Georg hinn vænsti maður og á margt gott sér til ágætis. Hinsvegar var staðan orðin þannig að aðstaða hans í málinu var orðin mjög slæm og vandséð hvernig hann gæti náð stjórnunarvaldi á fréttastofunni og sinnt starfinu með þeim hætti sem æskilegt er. Því var auðvitað, eins og ég hafði sagt hér fyrr í dag, ekkert annað í stöðunni en að hann bakkaði frá málinu. Þessi niðurstaða er best fyrir alla hlutaðeigandi. Ályktanir starfsmanna og fréttamanna Ríkisútvarpsins vegna málsins höfðu beinst að ráðningu fréttastjórans og vali á honum. Nú er ljóst að þetta mál er að baki og hægt er að horfa í aðrar áttir. Vonandi geta starfsmenn RÚV og útvarpsstjóri tekið upp gott samstarf. Tel ég það einsýnt að það muni takast enda málið leyst með þeim hætti sem bestur var fyrir starfsmenn og útvarpsstjóra. Þetta var eina leiðin sem fær var til að báðir aðilar þessa máls gætu farið frá því með sæmd og litið fram á veginn. Tel ég vænlegast að staðan verði auglýst að nýju og málið fari í grunnfarveg. Ef ekki er auðvitað réttast að skipa einn af níu umsækjendunum. Vonandi leiðir ákvörðun Auðuns Georgs til sátta og að faglega verði staðið að ráðningu í starfið í kjölfarið.
Í gærkvöldi hélt Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fund á Fiðlaranum og fjallaði þar um stóriðjumálin. Flutti hún þar ítarlega ræðu og fór yfir stöðu mála. Í ræðu sinni kynnti hún nýja skoðanakönnun sem gerð var af iðnaðarráðuneytinu um afstöðu fólks í Eyjafirði til stóriðju á Norðurlandi. Niðurstaða könnunarinnar var með þeim hætti að rúmlega helmingur íbúa á Akureyri og Eyjafirði, eða 51,6% er hlynnt því að álver rísi í næsta nágrenni bæjarins, 35,2% eru því andvíg og 13,2% kváðust hvorki fylgjandi né andvíg því. Ég verð að segja eins og er að þessar tölur komu mér á óvart, ég hafði fyrirfram talið að vilji Eyfirðinga í þá átt að efla atvinnulíf með nýjum og spennandi tækifærum og verkefnum væri meiri en hér er gefið til kynna. Ég hélt að jákvæðara andrúmsloft væri fyrir hendi í málinu. Það vekur talsverða athygli að mínu mati að ekki sé meiri stuðningur fyrir slíkri uppbyggingu hér á svæðinu og einnig fannst mér kynning ráðherrans orka tvímælis.
Í dag kynnti ég mér betur könnunina og grunn hennar. Ég verð að segja eins og er að ég hef mjög miklar efasemdir um hvernig þessi könnun er túlkuð. Sérstaklega tek ég eftir orðalagi í spurningum, sem ég tel merkilegar. Spurt var í könnuninni hvort menn væru hlynntir eða andvígir því að álver myndi rísa í næsta nágrenni Akureyrarbæjar. Ég verð að spyrja mig að því hvernig hinn almenni bæjarbúi hér innanbæjar eða íbúar í firðinum almenn skilji þessa spurningu, sem fyrir er lögð. Gæti bæjarbúi t.d. ekki tekið orðalaginu með þeim hætti að hér sé talað um svæðið við flugvöllinn hér eða jafnvel nágrenni Krossaness? Eða er vikið að álveri hér við utanverðan fjörðinn almennt. Við blasir að mat fólks á þessu er ekki það sama og margar forsendur og mat á stöðunni til staðar. Upphaflega var andstaða nokkur við álver á Austurlandi og reiptog uppi lengi vel um staðsetninguna sem að lokum náðist grunnsamstaða með.
Það sem ég tel að hafi vantað í umræðuna hér, tjáningu fólks á stöðunni og viðhorfi í orkumálum almennt er einmitt það að menn nefni mikilvægi stóriðju hér á svæðinu, hversu mikið hagsmunamál er að ræða og ekki síður það mikilvægi þess að efla atvinnulífið í heild sinni. En það sem eftir stendur í mínum huga er hvernig ráðherra kynnir könnunina og tjáði niðurstöður hennar með kynningu sinni á fundinum. Ég tel að ráðherra sé að leika einn langan leik og hafa fólk hér að fíflum og reyna að spinna atburðarás til hagsbóta sérstaklega gegn Eyfirðingum með undarlega uppsettri kynningu sinni og spurningum í könnunina sem gerð var fyrir ráðuneyti hennar. Við blasir að fólk vill stóriðju á Norðurland, ef Eyjafjörður dugar ekki er ekkert hægt að útiloka. Því tel ég túlkun ráðherrans mjög bogna og hálf kjánalega framsetta, svo ekki sé nú meira sagt. Það að hún kynni stöðuna þannig að jákvæð niðurstaða almennt fyrir álveri á Norðurlandi almennt sé notuð sem neikvæð afstaða fyrir Eyjafjarðarsvæðið af hálfu ráðherra vekur athygli og vekur upp margar spurningar að mínu mati. Það er enginn vafi á því í mínum huga eftir þennan fund að ráðherrann er að reyna með lítt huldu látbragði að færa grunnpunkt málsins héðan og færa hann annað.
Ég tel ekkert hafa breyst í þessu máli. Fyrir liggur að meirihluti íbúa hér vill álver eða stóriðju þrátt fyrir undarlega uppsetta könnun af hálfu iðnaðarráðuneytisins sem er með allt öðrum brag en könnun Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í haust. Niðurstaða hennar var sú að 62,3% íbúa hér á Akureyri voru jákvæð gagnvart stóriðju í Eyjafirði, 26,3% neikvæð og 11,1% tók ekki afstöðu þá. Í mínum huga er enginn vafi á því að þessar tvær kannanir eru gjörólíkar, bæði að uppsetningu og eðlislagi. Spurningarnar eru gjörólíkar og framsetning þeirra með misjöfnum brag, svo ekki sé nú meira sagt. Það skýrir þann mismun sem ráðherra gerir mest úr. Er spurt er um næsta nágrenni sjá flestir fyrir sér svæði í jaðri bæjarins. Á því og t.d. Dysnesi er þónokkur munur og framsetningin greinilega kokkuð til að lita niðurstöðurnar. Í könnun AFE var talað um utanverðan Eyjafjörð. Spurningarnar í könnun ráðuneytisins eru leiðandi og draga fólk í tvær ólíkar áttir. Það er alveg einfalt mál af minni hálfu. Mitt mat á þessu máli er skýrt: það er öruggur meirihluti íbúa hér á svæðinu fylgjandi stóriðjuframkvæmdum. Þessi kokkaða niðurstaða framsóknarráðherrans ætti vart að trufla fjárfesta við að taka ákvörðun og velta fyrir sér miklum kostum Dysness í stöðunni.
Heilsu Jóhannesar Páls páfa II hefur hrakað ört seinustu tvo dagana. Kom hann í glugga íbúðar sinnar á miðvikudag og blessaði mannfjöldann. Gat hann ekki tjáð sig en reyndi af ákafa að flytja blessunarorð. Sást þá vel að heilsa páfa var jafnt og þétt að þverra og hafði hann áður komið í glugga sinn á páskadag. Síðar á miðvikudeginum versnaði honum og hann varð að fá næringu í gegnum nefslöngu. Um nóttina fékk páfinn þvagfærasýkingu sem leiddi til hækkandi hita, lægri blóðþrýstings og andþrengsla. Á fimmtudeginum tók heilsa páfa mikið bakslag. Fékk hann hjartaáfall í gærkvöldi og beita þurfti lífgunartilraunum til að hann lifði það af. Í kjölfar þessa var páfa veitt hinstu sakramenti, sem er tákn þess að dauðinn sé skammt undan. Tilkynnti páfi að hann vildi ekki fara að nýju á sjúkrahús. Hann vildi deyja í páfagarði og bíða þess sem verða vill. Í dag var svo tilkynnt að líffæri páfa væru að byrja að sýna þess merki að þau væru að láta undan veikindum sem væru fyrir meðalmann einföld og vel viðráðanleg. Heilsa páfa er orðin það brothætt að hann getur ekki unnið úr flensu og öldrunarsjúkdómar og Parkinson sjúkdómurinn veikja hann mjög. Er ljóst að skammt er nú til andláts páfa og í raun bara beðið þess sem verða vill á næstu dögum.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á fundi sínum í gær að landsfundur flokksins skyldi haldinn dagana 13. - 16. október nk. Verður þetta 36. landsfundur flokksins í sögu hans. Flokksfélög kjósa yfir 1.000 fulltrúa til setu á landsfundinum sem mun marka stjórnmálastefnu flokksins og kjósa forystu hans: formann, varaformann og miðstjórn. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var síðast haldinn 27. - 30. mars 2003. Er ánægjulegt að dagsetning er komin á landsfund og getur því undirbúningur fundarins hafist og starfið fyrir hann ennfremur komið af stað. Brátt munu málefnanefndir hefja fullan undirbúning og vinna af krafti að undirbúningi að drögum að ályktunum þingsins. Í dag var svo kynnt ný könnun Gallups á fylgi flokkanna. Er hún ánægjuefni fyrir okkur sjálfstæðismenn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 38% og fylgi Framsóknarflokksins er 11,5%. Báðir stjórnarflokkarnir bæta því við sig fylgi. Fylgi Samfylkingarinnar dalar nokkuð og mælist nú tæp 29% og er nokkuð um liðið síðan Gallup mældi Samfylkinguna undir 30% markinu sem margoft hefur verið nefnd af hálfu flokksins. VG mælist með 15% og frjálslyndir fá 6% fylgi. Ánægjuleg könnun fyrir sjálfstæðismenn og hvatning í komandi verkefnum.
Í vikunni var haldin ráðstefna um nýjungar í stjórnun sveitarfélaga á Hótel Loftleiðum. Voru á þinginu veittar viðurkenningar fyrir framsækin sveitarfélög til sex sveitarfélaga í þremur stærðarflokkum. Þau sveitarfélög sem hlutu viðurkenningu voru Akureyrarbær, Hafnarfjarðarbær, Blönduósbær, Reykjanesbær, Vatnsleysustrandarhreppur og Garðabær. Akureyri var veitt viðurkenningin fyrir stjórnkerfisbreytingar sem tóku gildi á árinu 2003 og höfðu það að markmiði að: auka skilvirkni og flýta afgreiðslu með fullnaðarafgreiðslu til nefnda og starfsmanna - efla stefnumótandi hlutverk bæjarstjórnar - gera fundi bæjarstjórnar markvissari og umræður skipulegri - færa starfshætti í átt til rafrænnar stjórnsýslu. Sveitarfélaginu er ennfremur veitt viðurkenning fyrir að hafa tekist vel að samþætta verkefni frá ríkinu, sem sveitarfélagið tók í upphafi við sem reynslusveitarfélag, við aðra þjónustu sína og fyrir að hafa verið í fararbroddi meðal íslenskra sveitarfélaga við innleiðingu á rammafjárhagsáætlunargerð, árangursstjórnunaraðferðum og samningsstjórnun á sviði tölvumála og menningarmála. Þessi viðurkenning er mjög ánægjuleg fyrir okkur hér og glæsileg viðurkenning af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga á góðum stjórnkerfisbreytingum bæjarins sem hafa leitt t.d. til snarpari og betri funda bæjarstjórnar.
Ak-Extreme snjóbrettamótið verður haldið í Hlíðarfjalli og á Akureyri núna um helgina. Mótið hefur á seinustu árum mjög verið að festa sig í sessi og eflast sem kraftmikill vettvangur fyrir snjóbrettaíþróttina, sem er sífellt vaxandi íþróttagrein í skíðaíþróttum. Ak-Extreme er nú haldið í fjórða skipti hér í bænum. Hápunktur mótsins nú er eins og venjulega stökkkeppnin stórmerkilega efst í Gilinu, sunnanmegin við andapollinn, í brekkunni niður að kirkjunni. Í fyrra var gríðarlegur fjöldi saman kominn til að fylgjast með, sennilega vel á þriðja þúsund manns, snjóbrettakeppninni. Er þessa dagana verið að vinna að því að leggja keppnisbrautina og keyra snjó á staðinn til að hægt verði að halda keppnina, enda enginn snjór í bænum. Dagskráin hefst með flugeldasýningu kl. 21:00 að kvöldi laugardags, síðan mun verða keppt á snjóbrettunum og að lokum munu snjósleðamenn taka nokkrar ferðir niður snarbratta brautina. Verður gaman að fylgjast með þessu, venju samkvæmt. Ég fór í fyrra og fylgdist með þessu og hafði gaman af, og skelli mér auðvitað aftur að þessu sinni.
Saga dagsins
1855 Íslendingum var leyfð frjáls verslun við þegna allra þjóða með formlegum hætti - áður hafði verslun verið bundin við þegna Danakonungs og því algjör einokun á verslunarmarkaði Íslendinga
1873 Hilmar Finsen, 49 ára stiftamtmaður, skipaður fyrsti landshöfðingi Íslendinga - hann gegndi embættinu í 9 ár og varð ennfremur, á sínum langa stjórnmálaferli, borgarstjóri í Kaupmannahöfn
1936 Alþýðutryggingalög tóku gildi - marka eitt af stærstu sporunum í íslenska félagsmálalöggjöf
1998 Fréttavefurinn visir.is opnaður formlega - allt frá upphafi einn vinsælasti fréttavefur landsins
2001 Slobodan Milosevic fyrrum forseti Júgóslavíu, handtekinn á heimili sínu í Belgrad og færður í fangelsi - Milosevic var forseti Serbíu 1989-1997 og Júgóslavíu 1997-2000. Hann neyddist til að láta af forsetaembættinu árið 2000 eftir að sannreynt var að hann hafði tapað forsetakosningum en ætlað að hagræða úrslitunum sér í vil og beygja lýðræðið og hagræða stöðu mála. Í júní 2001 var Milosevic framseldur til strípsglæpadómstólsins í Haag. Réttarhöld yfir honum hófust svo í febrúarmánuði 2002
Snjallyrðið
Experience is one thing you can't get for nothing.
Oscar Wilde skáld (1854-1900)
Deilur og átök hjá RÚV - óhæfur fréttastjóri
Auðun Georg Ólafsson tók við starfi fréttastjóra útvarpsins í morgun. Mætti hann um níuleytið til fundar við fréttamenn og ræddi við þá ásamt útvarpsstjóra um málin. Þar staðfesti nýr fréttastjóri öll ummæli fréttamanns í Kastljósi í gærkvöldi þess efnis að hann hefði boðið fólki úti í bæ störf innanhúss. Sagði hann í viðtölum í dag ótímabært að ræða mannabreytingar á fréttastofunni en segist hafa rætt við fréttamenn úti í bæ. Þó viðurkenndi hann að hugsanlegar mannaráðningar og breytingar hafi hann ekki rætt við Boga Ágústsson forstöðumann fréttasviðs Ríkisútvarpsins. Þessar yfirlýsingar nýs fréttastjóra eru með ólíkindum. Á nokkrum klukkutímum í dag hefur hann sjálfur staðfest öll ummæli fréttamanna hjá RÚV um vanhæfi hans til að taka við starfinu. Það er greinilegt að eitthvað stórlega er bogið við þessa ráðningu.
Til að kóróna allt ruglið fer ritstjórnarleg ábyrgð á fréttastofunni við upphaf fréttastjóraskiptanna undir Boga Ágústsson forstöðumann fréttasviðsins. Hvað segir þetta manni? Mér er bara spurn. Að mínu mati segir það mér að viðkomandi er varla hæfur til starfa. Við erum að tala um fréttastjóra á stórri fréttastofu og hann er ekki settur yfir ritstjórnarlega ábyrgð í upphafi. Þetta er algjörlega með ólíkindum og óverjandi orðið. Svo talar hann gegn lögum um RÚV varðandi ráðningu fréttamanna. Ég hef lengi látið viðkomandi njóta vafans og viljað láta reyna á verk hans og forystu er hann tæki við starfinu. Það hefur sannast í dag að hann veldur ekki starfinu og verður að víkja. Þetta er bara einfalt mál. Það er ekki hægt að verja lengur þessa ráðningu í viðkomandi starf. Rökin sem nefnd hafa verið halda ekki vatni þegar litið er á þau með stækkunargleri.
Hvernig verður að bregðast við? Það er einfalt, þessi ráðning heldur ekki vatni og verður að afturkalla með einum hætti eða öðrum. Best væri ef Auðun Georg axlaði ábyrgð og færi frá þessu. Hann yrði maður að meiri fyrir það. Það hefur að mínu mati verið staðfest í dag að ástand mála er ótækt og harðpólitískar deilur framundan víki hann ekki. Ráðningin hefur verið rökstudd með reynslu og mannaforráðum hjá fyrri vinnuveitanda. Í dag sagði svo Auðun Georg að flatt skipulag ríkti þar og þar vinni fólk saman. Hann hafi borið ábyrgð á starfi nokkurra, um 12 manns, starfsmanna hjá japönsku umboðsfyrirtæki og litið á þá sem samstarfsmenn, en japanska fyrirtækið hafi greitt laun þeirra. Þetta fólk vinni hjá félaginu Honsu Rem, þar sem þeir hafi sinnt Marel mest og hann hefði haft mest um þá að segja. Þeir hafi unnið hjá Honsu Rem en starf þeirra hefði verið nátengt afköstum og árangri sem þau hefðu náð saman. Semsagt: stjórnunarreynslan er engin. Og ekki er fréttamannsreynsla hans mikil, nokkur ár sem fréttaritari og sumarstarfsmaður í fréttum.
Hvað stendur þá eftir í stöðunni? Því miður sú staðreynd að Auðun Georg er óhæfur til að valda starfinu, það verður bara að segjast eins og er. Ég get ekki komist að annarri niðurstöðu, sérstaklega eftir mistök hans í tjáningu í dag og allt að því að ljúga að þjóðinni í hádegisfréttum RÚV (sjá klippu neðar). Atburðarás dagsins hefur verið kostuleg og fréttastjórinn nýji hefur á skömmum tíma staðfest ummæli allra þeirra sem efuðust um hæfni hans og forystu til verka. Það er því miður bara svo. Ég verð að segja það hreint út að yfirlýsingar Auðuns Georgs hafa leitt til þess að ég sé mér ekki fært að verja ráðningu hans og tel hið eina rétta að hann víki sjálfur frá starfinu. Það eitt getur leitt til þess að málin settlist með góðu. Þetta er virkilega slæmt að nær öllu leyti og leitt að svona staða sé komin upp. En staðan er óverjandi og bregðast verður við henni með þeim eina hætti sem fær er, að mínu mati.
Kostulegt viðtal Ingimars Karls Helgasonar við Auðun Georg Ólafsson
<< Heim