Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 apríl 2005

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Jóhannes Páll páfi II liggur á viðhafnarbörum í Vatíkaninu

Kaþólskir menn og kristnir um allan heim hafa í dag minnst Jóhannesar Páls páfa II, sem lést í Vatíkaninu í Róm í gærkvöldi, 84 ára að aldri. Um leið og andlát hans var formlega tilkynnt í gærkvöldi komu rúmlega 100.000 manns saman á Péturstorginu og minntist hans og bað saman til heiðurs honum. Fylgdist ég með þeirri merku athöfn í beinni netútsendingu á sjónvarpsstöð Vatíkansins. Sérlega áhrifamikið var þegar klukkunum var hringt til heiðurs honum og til að marka þau sögulegu þáttaskil sem átt höfðu sér stað. Ennfremur var táknrænt að sjá þegar bronsdyrum Vatíkansins var lokað, sem merki um það að páfi væri látinn. Hurðin verður ekki opnuð að nýju fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Nú, er páfi hefur lokið jarðvist sinni, tekur sérlegur aðstoðarmaður páfa, Eduardo Martinez Somalo kardináli, við daglegum skyldum hans fram yfir vígslu nýs páfa. Somalo hefur verið nánasti aðstoðarmaður páfa í tvo áratugi. Skrifstofa utanríkis- og innanríkismála Vatíkansins er nú með öllu umboðslaus og ekki er því hægt að sinna diplómatískum málefnum fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Engin ákvarðanataka má eiga sér stað nema minniháttar tengd daglegum athöfnum.

Þjóðarsorg verður í mörgum ríkjum í dag og næstu daga vegna andláts páfans. Í heimalandi hans, Póllandi, hefur verið lýst yfir sex daga þjóðarsorg en þriggja daga á Ítalíu. Samhliða því að vera páfi var Jóhannes Páll II auðvitað trúarlegur leiðtogi rómversku kirkjunnar og því er mikil sorg þar, rétt eins og í Póllandi. Angelo Sodano kardináli, söng í morgun sálumessu til heiðurs páfa á Péturstorginu. Við þá athöfn voru viðstaddir fjöldi trúarleiðtoga kaþólsku kirkjunnar og erlendir erindrekar á hennar vegum og tæplega 140.000 manns voru saman komin á Péturstorginu. Við þetta tækifæri var lesið seinasta ávarpið sem páfi samdi fyrir dauða sinn. Á sömu stund var flutt annað ávarp hans við minningarathöfn í Krakow í Póllandi þar sem Jóhannes Páll II var erkibiskup til fjölda ára, áður en hann var kjörinn páfi í október 1978. Mikill hátíðarblær var yfir athöfninni á Péturstorginu í morgun og sérlega áhrifaríkt að sjá hversu mjög fólk tók andlát páfa nærri sér og bar mikla virðingu fyrir trúarlegu starfi hans seinustu áratugina. Sodano kardináli, flutti falleg minningarorð um páfa við þetta tækifæri.

Um hádegið, eftir athöfnina á Péturstorgi var lík páfa lagt á viðhafnarbörur í Höll miskunnseminnar í Vatikaninu. Fór þar fram mjög hátíðleg stund, þar sem æðstu forystumenn Ítalíu, stjórnarerindrekar og leiðtogar kaþólsku kirkjunnar minntust páfa. Carlo Azeglio Ciampi forseti Ítalíu, og Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, voru þar viðstaddir ásamt eiginkonum sínum. Lík páfa var sveipað fullum skrúða, hann var á viðhafnarbörunum klæddur rauðum og hvítum klæðum og með gylltan mítur á höfði, sem er til marks um virðingu fyrir honum og verkum hans í embætti. Hafði biskupsstaf verið komið fyrir í annarri hendi hans eins og páfi héldi á honum. Eftir táknræna og virðulega athöfn voru honum flutt blessunarorð og að því loknu var líkinu komið fyrir á börum í Péturskirkjunni þar sem almenningur mun geta kvatt páfa hinsta sinni á næstu dögum. Má búast við að vart muni færri en tvær milljónir manna um allan heim, pílagrímar og fólk víðsvegar að, leggja leið sína næstu daga í Vatíkanið til að kveðja páfann hinsta sinni. Er Jóhannes Páll páfi I lést í september 1978 komu tæplega ein og hálf milljón manns til að kveðja hann hinsta sinni.

Útför páfa mun væntanlega fara fram á fimmtudag, þó það hafi ekki endanlega verið ákveðið blasir við að svo muni að öllum líkindum vera. Mun það verða söguleg stund, enda markar dauði páfans söguleg þáttaskil í sögu kaþólsku kirkjunnar. Hafa aðeins tveir menn ríkt lengur í embættinu og margir þjóðarleiðtogar og forystumenn kristinnar trúar í heiminum munu vera viðstaddir athöfnina, fyrstu útför leiðtoga kaþólskrar trúar í 27 ár. Að athöfn á Péturstorginu og í St. Péturskirkju lokinni mun kista Jóhannesar Páls páfa II væntanlega verða grafin í grafhvelfingu kirkjunnar. Þar eru páfar sögunnar flestir grafnir. Eftir greftrun hans mun taka við svokallað tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála ber að koma saman 15 dögum eftir formlegan dánardag páfa og alls ekki síðar en 18 dögum.

Andlát páfa eftir svo langan tíma í forystu kaþólsku kirkjunnar eru tímamót. Jóhannes Páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hefur þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans hafa gert í 400 ár. Það deilir því enginn um áhrifamátt þessa trúarleiðtoga sem nú hefur kvatt. Hvað sem segja má um skoðanir hans voru áhrif hans mikil og enginn vafi leikur á að hann var einna merkastur af trúarleiðtogum í sögu kaþólsku kirkjunnar.

Jóhannes Páll páfi II kemur fram í glugga íbúðar sinnar í Vatíkaninu í hinsta skipti - 30. mars 2005

Í sunnudagspistli mínum í dag minnist ég Jóhannesar Páls páfa II, eins eftirminnilegasta trúarleiðtoga kaþólskra, manns sem hafði mikil áhrif á sögu 20. aldarinnar. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali að uppruna. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var kjörinn páfi í október 1978 og gegndi embætti, þrátt fyrir slæma heilsu, allt til dauðadags. Hann heimsótti um 130 lönd á 27 ára páfaferli og var víðförlasti páfi sögunnar og flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur annar trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar. Verk páfa og trúarleg forysta verða lengi í minnum höfð. Fer ég yfir ævi hans og feril í embætti og fer ennfremur yfir það ferli sem nú tekur við, er kardinálar þurfa að velja nýjan trúarleiðtoga sinn. Jóhannes Páll páfi II var heillandi og traustur fulltrúi embættis síns og ekki síður trúarinnar. Framlag hans gleymist ekki. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati. Verk hans skipta alla heimsbyggðina miklu máli. Þau hverfa ekki með honum, nú er hann kveður okkur öll hinsta sinni. Gildi verka hans verða að eilífu til staðar fyrir alla kristna menn.

Saga dagsins
1882 Bergur Thorberg landshöfðingi, tilkynnir um stofnun sameiginlegrar geymslu fyrir skjalasöfn æðstu embætti Íslendinga. Með þessari ákvörðun var lagður grunnurinn að Þjóðskjalasafni Íslands
1975 Bobby Fischer heimsmeistari í skák, sviptur titlinum í kjölfar þess að hann tilkynnti að hann myndi ekki keppa um hann við Anatoly Karpov á forsendum FIDE - Fischer varð heimsmeistari árið 1972 í kjölfar sögulegs skákeinvígis við Boris Spassky í Reykjavík. Fischer sneri aftur og keppti við Spassky í Júgóslavíu 1992 til að minnast hins sögulega einvígis í Reykjavík. Með því að keppa þar braut Fischer gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á hendur Júgóslavíu og var hann á flótta undan bandarískum yfirvöldum í 12 ár. Hann var handtekinn í Japan árið 2004, vegna þess að hann hafði ekki gild skilríki. Íslensk stjórnvöld björguðu Fischer úr vandræðum sínum með því að gera hann að íslenskum ríkisborgara í mars 2005. Kom hann til landsins eftir langa ferð frá Japan 24. mars 2005
1978 Leikkonan Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Annie Hall í samnefndri kvikmynd meistara Woody Allen - Keaton er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og hefur hún átt fjölda af glæsilegum leikframmistöðum á ferlinum og þykir jafnvíg á bæði dramatísk og gamansöm hlutverk
1984 Hundahald leyft að nýju í Reykjavíkurborg, en þó gert að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum
2001 Grænmetisskýrslan kynnt - innflytjendur grænmetis og ávaxta sektaðir um 105 milljónir króna

Snjallyrðið
When freedom does not have a purpose, when it does not wish to know anything about the rule of law engraved in the hearts of men and women, when it does not listen to the voice of conscience, it turns against humanity and society.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)