Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 maí 2005

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraBjörn sigrar í frelsisdeildinni
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sigraði í frelsisdeild Sambands ungra sjálfstæðismanna sem haldin var í vetur. Í fréttatilkynningu SUS segir orðrétt: "Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er sigurvegari Frelsisdeildar SUS veturinn 2004-2005 og hlaut hann að launum veglegan farandbikar í hádegisverði sem Samband ungra sjálfstæðismanna efndi til í Valhöll í dag. Mikil spenna var á lokakafla þingsins og skaust Björn í toppsætið í lokaumferð Frelsisdeildarinnar, en Pétur H. Blöndal hafði lengst af setið á toppnum. Pétur lenti í öðru sæti, einungis tveimur stigum á eftir Birni.

Björn er sá þingmaður sem tókst að gera flest jákvæð frumvörp að lögum, en Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson lögðu fram flest góð frumvörp, eða átta hvor. Ekkert þeirra varð að lögum. Það er reyndar áhugavert að engum þingmanni, sem ekki gegnir ráðherraembætti, tókst að koma eigin frumvarpi í gegnum þingið. Besta einstaka þingmálið er tvímælalaust breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem Geir H. Haarde, fjármálaráðherra lagði fram og fékk samþykkt.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra hlaut flest mínusstig og endaði í síðasta sæti deildarinnar. Á nýafstöðnu þingi kaus enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins gegn þeim málum, sem dómarar Frelsisdeildarinnar álíta að feli í sér frelsisskerðingu. Rétt er þó að geta þess að í sumum tilfellum sátu þingmenn hjá. Fjórir þingmenn enduðu í mínus eftir tímabilið. Að lokum er vert að geta þess að gerðar voru breytingar á stigagjöf fyrir þetta keppnistímabil til þess að gefa betri mynd af raunverulegum árangri þingamanna í baráttunni gegn járnkló ríkisvaldsins."

Þetta er glæsilegur árangur hjá Birni. Segja má ennfremur að frelsisdeildin sé ánægjulegur vettvangur hjá okkur í SUS til að verðlauna þá þingmenn flokksins sem standa sig vel og vinna af krafti. Í fyrra sigraði Sigurður Kári í samskonar frelsisdeild sem var þá til af hálfu Heimdallar. En eftir stendur að gott er að verðlauna þá þingmenn sem vinna vel og eru öflugir í störfum sínum. Björn hefur verið jafnan þekktur fyrir að vera vinnusamur og uppsker vel fyrir það.