Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 júlí 2005

Punktar dagsins
Páll Magnússon verðandi útvarpsstjóri

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, skipaði í dag Pál Magnússon í embætti útvarpsstjóra frá 1. september nk. Páll Magnússon verðandi útvarpsstjóri, er þaulreyndur fjölmiðlamaður og er því án nokkurs vafa sviðsvanur á þeim vettvangi sem hann er að fara á er hann tekur við þessu starfi. Hann var blaðamaður á Vísi 1980-1981 og fréttastjóri á Tímanum 1981-1982. Páll var fréttamaður og þingfréttamaður hjá Sjónvarpinu 1982-1985 og varafréttastjóri Sjónvarpsins 1985-1986. Um tíma á þeim starfstíma var Páll starfandi fréttastjóri í veikindaforföllum Ingva Hrafns Jónssonar þáv. fréttastjóra. Árið 1986 var Páll ráðinn fyrsti fréttastjóri Stöðvar 2 og gegndi því starfi til ársins 1990. Páll var framkvæmdastjóri dagskrár- og framleiðslusviðs Stöðvar 2 1990-1991 og forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991-1994. Hann var ritstjóri Morgunpóstsins 1994-1995, sjónvarpsstjóri Sýnar 1995-1996, fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996-2000 og framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar 2000-2004. Eftir störf utan fjölmiðla um tíma kom hann aftur á sinn gamla vinnustað árið 2004 og var á rúmu ári þar framkvæmdastjóri dagskrársviðs Íslenska útvarpsfélagsins og svo að lokum sjónvarps- og fréttastjóri Stöðvar 2 þar til fyrr í þessum mánuði.

Í sunnudagspistli mínum um síðustu helgi skrifaði ég um fjölmiðla og taldi þar Pál Magnússon koma vel til greina í þetta starf. Það hefur alla tíð verið skoðun mín að í þessu starfi eigi að vera þaulreyndur fjölmiðlamaður. Páll hefur það sem til þarf í þetta embætti. Hann þekkir fjölmiðlalandslagið eftir áratugastörf að fréttamennsku og í kastljósi fjölmiðla. Hann hefur unnið víða að fjölmiðlum, það sem mest er vert að hann þekkir fjölmiðlaheiminn utan veggja Ríkisútvarpsins í Efstaleiti og þekkir lífið bæði innan veggja RÚV og ekki síður utan þeirra og hefur unnið á ólíkum fjölmiðlum. Páll verður ferskur blær breytinga inn í hið staðnaða Ríkisútvarp. Páll hefur ákveðnar skoðanir á fjölmiðlum og það hefur gustað af honum sem litríkum fjölmiðlamanni. Þannig útvarpsstjóra þurftum við að eignast. Því fagna ég mjög ákvörðun Þorgerðar Katrínar og líst vel á þær breytingar sem munu verða með Páli. Hefur hann í dag tjáð sig um verkefnin framundan og talað um breytta tíma í mörgu innan RÚV undir sinni stjórn. Það er mjög gott að heyra. Með skipan Páls Magnússonar í embætti útvarpsstjóra er vonandi hægt að stokka upp RÚV og horfa til nýrra tíma þar innbyrðis.

Í kvöld var Páll Magnússon verðandi útvarpsstjóri, gestur beggja dægurmálaþáttanna og svaraði þar spurningum fjölmiðlamanna með miklum bravúr. Hreifst ég af framkomu hans, hugmyndum og markmiðum í starfinu. Sannfærðist ég þar endanlega um að rétti maðurinn var valinn til verkanna sem framundan eru. Páll hefur margt með sér sem fær fólk til að trúa á hann og það sem hann talar fyrir. Hann hefur verið lengi öflugur fjölmiðlamaður og öðlast reynslu úr mörgum áttum. Öll sú reynsla verður honum öflugt veganesti á þeirri vegferð sem framundan er. Líst mér sífellt betur á hann og hans boðskap og sannfærðist um það yfir þáttunum að hér er kominn maður sem er kominn í starfið til að hafa áhrif til betri vegar og færa stofnunina áfram í átt til nauðsynlegra breytinga sem framundan eru samhliða því að útvarpsráð verður lagt niður og breytingar verða samhliða nýjum útvarpslögum. Það þarf svona týpu til verksins - hreint út sagt. Ég vil nota tækifærið og óska nýráðnum útvarpsstjóra innilega til hamingju með starfið og óska honum góðs í störfum sínum.

Páll í Kastljósi
Páll í Íslandi í dag

Síminn

Stærsta einkavæðing í sögu landsins hefur átt sér stað. Í gær voru tilboð í Símann opnuð. Þrjú tilboð komu. Hæsta tilboðið kom frá Skipta ehf, sem er í eigu Exista (fjárfestingarfélags Bakkavararbræðra), lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gildi-lífeyrissjóðs, sameinaða lífeyrissjóðsins, Samvinnulífeyrissjóðsins, MP fjárfestingarbanka hf, Kaupþing banka hf. og IMIS ehf. Tilboðið hljóðaði upp á 66,7 milljarða króna. Var því tekið, enda var næsta boð um 10% lægra. Því kom ekki til framhaldsferlis sem hefði orðið ef 5% hefðu orðið milli hæsta og næsthæsta tilboðs í fyrirtækið. Hefði það orðið raunin hefði næsthæsti bjóðandi getað hækkað boð sitt og til móts getað komið hærra boð frá hæstbjóðanda. Það mikill munur var á milli að það ferli fór ekki af stað og tilboði Skipta var því tekið. Það kom því ekki til spennuferlis sem hefði orðið að kapphlaupi á örfáum klukkutímum. Skrifað verður undir samninga vegna kaupanna í næstu viku. Næsthæsta boð átti Símstöðin, sem hljóðaði upp á 60 milljarða króna. Í þeim hópi voru t.d. KEA, Burðarás og Tryggingamiðstöðin. Þriðja og lægsta boð átti Nýja símafélagið, tæpa 55 milljarða króna, og var það tæplega 20% hærra en boð Skipta.

Fagna ég mjög því að þessu ferli sé lokið og nýr eigandi taki brátt við Símanum. Það sem mér þykir verst að ekki skuli hafa verið búið að selja Símann fyrir löngu. Það var reynt að gera það árið 2001 og leitt að það skyldi ekki takast. Það er auðvitað afleitt að ríkið hafi verið að reka samkeppnisfyrirtæki í símarekstri og í þeirri aðstöðu að halda utan um slíkt fyrirtæki og markaðinn með þessum hætti. Því er víðast um heiminn lokið og þetta kemur varla að óvörum hér. Annars eru bara rúm fimm ár síðan ríkið hafði eitt leyfi til að reka símafyrirtæki og menn voru ansi lengi aftarlega á merinni í þessum efnum og einkaaðilum bannað að reka samkeppni gegn Símanum. Það er auðvitað fáránlegt að ríkið sé í bullandi samkeppni við einkaframtakið og sé t.d. eigandi að Skjá einum, sem veitir okkur ókeypis sjónvarpsefni. En þessu er nú öllu að ljúka. Markmið nýrra eigenda virðist vera að tryggja áfram öfluga þjónustu við viðskiptavini, um allt land - dreifðar byggðir landsins, og enn frekari sókn Símans á fjarskiptamarkaði.

Síminn er stöndugt fyrirtæki og það verður fróðlegt að sjá framtíð þess í eigu annarra. Ekki tel ég veita af því að Síminn standi á eigin fótum í harðnandi samkeppni og fái aðra ásýnd með nýjum eigendum. Hvað varðar þá peninga sem koma í ríkiskassann vona ég að þeim verði vel varið. Eitt hið mikilvægasta er að greiða niður erlendar skuldir ríkisins með krafti og tryggja að allir landsmenn fái notið andvirðisins í formi þess að efla byggðir landsins, t.d. í formi betri samgangna.

Strandgata á Akureyri

Á morgun hyggst Minjasafnið hér á Akureyri bjóða fólki upp á sögugöngu um Oddeyrina. Er þetta kærkomið tækifæri til að kynna sér sögu þessa merka svæðis og húsanna á Eyrinni. Fyrir okkur sem höfum áhuga á sögu Akureyrar og þessa svæðis er þetta ánægjulegt mjög og hef ég í hyggju að fara í gönguna og kynna mér söguna og það sem kynnt er af hálfu Minjasafnsins. Alla tíð hefur mér þótt Eyrin heillandi, þar er mikil saga í gömlu húsunum. Sögu Eyrarinnar má rekja allt aftur til ársins 1300 og í gegnum tíðina hefur Eyrin verið vettvangur útgerðar og verslunar. Gránufélagið byggði upp höfuðstöðvar sínar þar og hús þess standa enn sem glæsilegur vitnisburður um liðna tíma í verslunarsögu bæjarins. Oddeyrin efldist mjög undir lok 19. aldar. Byggð kom þar til sögunnar í vaxandi mæli á þeim tíma. Strandgatan er virkilega heillandi og góð gata. Að Strandgötu 43 reisti langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður, sér hús og þar komu hann og langamma, Gíslína Friðriksdóttir, sér upp heimili og þar ólust börn þeirra upp. Alla tíð hef ég borið hlýjan hug til þessarar götu og húsanna sem standa glæsileg á þessu fallega svæði í bænum. Verður ánægjulegt að fara í þessa sögugöngu og kynna sér þá sögu sem svæðið býr yfir.

Sumarsól í Eyjafirði árið 2004

Verslunarmannahelgin er að skella á. Þessi mesta ferðahelgi ársins hentar vel til þess að slappa vel af heima eða að ferðast um landið og kynna sér útihátíðirnar og skemmta sér vel. Margir verða á faraldsfæti og hingað norður er kominn nokkur fjöldi fólks, eins og venjulega, á fjölskylduhátíðina Ein með öllu. Að þessu sinni ætla ég að dveljast hér heima á Akureyri og njóta lífsins vel. Það er viðeigandi að kanna vel menningarlífið í bænum, fara í sögugönguna (sem fyrr er nefnd), sleikja sólina og skemmta sér vel í hópi ættingja og vina. Á sunnudagskvöldið er svo ómissandi liður í hátíðahöldum helgarinnar, brekkusöngurinn á Íþróttavellinum. Þar tökum við öll, bæjarbúar sem og gestir okkar, lagið saman og eigum notalega og ljúfa stund saman í kvöldrökkrinu. Svo má ekki gleyma því að á sunnudaginn verður grillað ekta lambakjöt. Uppskrift að notalegri og góðri helgi. Óska öllum lesendum góðrar skemmtunar um helgina, hvar svo sem þið eruð stödd.

Saga gærdagsins
1662 Erfðahyllingin í Kópavogi (Kópavogsfundurinn) - helstu forystumenn þjóðarinnar undirrituðu þá formlega í Kópavogi skjal er markaði að fullu formlegt upphaf fulls einveldis Danakonungs á Íslandi.
1750 Eitt þekktasta tónskáld sögunnar, Johann Sebastian Bach deyr - hann var þá 65 ára að aldri.
1960 Norðurlandaráðsþing var haldið á Íslandi í fyrsta skipti - Norðurlandaráð var stofnað árið 1952.
1988 Paddy Ashdown kjörinn leiðtogi Frjálslyndra demókrata í Bretlandi - í 11 ára leiðtogatíð hans stækkaði flokkurinn um meira en helming - Ashdown hætti afskiptum af stjórnmálum á árinu 2001.
1990 Alberto Fujimori kjörinn forseti Perú - hneykslismál tengd honum voru mjög algeng í valdatíð hans. Fujimori neyddist til að segja af sér embætti vegna slíkra mála árið 2000 og fór þá í útlegð til Japans, þar sem hann hefur dvalið síðan. Fujimori er eftirlýstur af Interpol, t.d. fyrir fjármálamisferli, skjalafals og morðákærur. Fari hann frá Japan verður hann handtekinn og síðan framseldur til Perú.

Saga dagsins
1890 Einn þekktasti málari sögunnar, Vincent Van Gogh svipti sig lífi - hann var þá 37 ára gamall.
1934 Fyrsta ríkisstjórnin undir forsæti Hermanns Jónassonar tekur við völdum - sat við völd í sjö ár.
1954 Fyrsta bindið af þrem í The Lord of the Rings, The Fellowship of the Ring, eftir J.R.R. Tolkien kemur út - sögurnar voru svo kvikmyndaðar í lok 20. aldarinnar og hlutu lof kvikmyndaunnenda og hlaut seinasta myndin í myndaflokknum, The Return of the King alls 11 óskarsverðlaun árið 2004.
1968 Páll VI páfi, tilkynnir um það að kaþólska kirkjan fordæmi notkun getnaðarvarna og herðir á afstöðunni gegn fóstureyðingum. Yfirlýsing páfa markaði þáttaskil, var talað af meiri hörku en áður. Einn af eftirmönnum hans, Jóhannes Páll II páfi, sem ríkti í 27 ár, tók algjörlega undir afstöðu hans.
1981 Karl ríkisarfi bresku krúnunnar, giftist lafði Díönu Spencer, í St. Paul's dómkirkjunni í London - hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau tvo syni, William, 1982, og Harry, 1984. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna. Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem hin konunglega hátign. Díana prinsessa lést í vofveiflegu bílslysi í París 31. ágúst 1997. Karl giftist unnustu sinni Camillu Parker Bowles árið 2005.

Snjallyrðið
Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein,
ó, ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.

En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin.
Hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn,
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.
Þorsteinn Erlingsson skáld (1858-1914) (Sólskríkjan)