Í byrjun vikunnar hélt George W. Bush forseti Bandaríkjanna, í sitt reglubundna sumarfrí á búgarð sinn í Crawford í Texas. Er hann og fjölskylda hans vön að dvelja þar allan ágústmánuð, meðan að deildir Bandaríkjaþings eru í sumarleyfi. Hefur frí forsetans jafnan verið umdeilt og varð frægt hvernig að kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore gerði því skil í kvikmynd sinni, Fahrenheit 9/11. Það er auðvitað fjarri lagi að forsetinn sitji auðum höndum í Texas meðan fríið á sér stað. Hann sinnir skylduverkum og fær reglulegar skýrslur frá leyniþjónustunni og alríkislögreglunni um stöðu mála. Á mánudaginn, áður en fríið hófst, skipaði forsetinn John Bolton sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Gerðist það án samþykkis öldungadeildarinnar, en staðfestingarferli vegna valsins á Bolton hafði staðið þar í nokkra mánuði og demókratar reynt að koma í veg fyrir skipan hans í embættið. Bush hefur forsetavald til að skipa menn í embætti tímabundið og getur það átt við í þessu tilfelli vegna þess að þingið er farið í sumarleyfi. Mun skipun Bolton gilda a.m.k. til janúarmánaðar 2007, er nýkjörið þing kemur saman eftir þingkosningar sem fram fara í nóvember 2006. Hann getur því setið allavega í eitt og hálft ár.
Bush sætti ákúrum demókrata vegna vals síns á Bolton og voru margir öldungadeildarþingmanna flokksins harðorðir í garð hans í kjölfarið. Bush hefur nú hinsvegar haldið á brott frá átakalínum þessa máls og Bolton er mættur til starfa í New York, eftir að hafa beðið í hálft ár eftir að fá staðfestingu þingsins. Verður fróðlegt að fylgjast með störfum þessa umdeilda sendiherra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem hann hefur svo oft gagnrýnt opinberlega. Er þingið kemur saman að loknu leyfinu hefst staðfestingarferli vegna skipunar forsetans á John G. Roberts í hæstarétt Bandaríkjanna. Munu yfirheyrslur þingnefndarinnar í öldungadeildinni yfir Roberts hefjast 6. september. Bendir flest til þess að hann muni hljóta staðfestingu þingsins fyrir lok september og ekki verði mikil læti yfir staðfestingarferlinu. Hefur Roberts átt fundi með valdamiklum þingmönnum að undanförnu. Þó eru nokkrir demókratar staðráðnir í að spyrja dómaraefnið krefjandi spurninga um mikilvæg mál. Má búast við ábúðarmiklum og fræðilegum spurningum um lagaleg álitaefni, en líkurnar á því að Roberts verði hafnað af þinginu teljast verulega litlar. En Bush er semsagt kominn til Texas í 36 daga frí - dæmigert vinnufrí að sögn Hvíta hússins, enda fer forseti Bandaríkjanna aldrei í algjört frí.
Á morgun verður Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík í fimmta skiptið. Sú hefð hefur skapast að á laugardegi í byrjun ágústmánaðar er haldinn fiskidagurinn mikli við höfnina á Dalvík. Fiskidagurinn hefur tekist með eindæmum vel þau fjögur ár sem hann hefur áður verið haldinn. Árið 2001 komu um 7.000 manns á hátíðarsvæðið, 2002 voru þeir um 15.000 og 2003 voru þeir um 23.000 talsins. Í fyrra komu tæplega 30.000 manns til Dalvíkur og stemmningin því alveg einstaklega góð. Á grillinu verða fjöldi rétta í veglegum skömmtum í álpappír. Er um að ræða ufsa í grillsósu, útvatnaðan saltfisk í mexikó-marineringu, lax í hvítlaukssúrsætrisósu og þorskur í sweet chili-sósu. Ennfremur verður í boði brauð, rækjukokteill, síld úr tunnu með heimabökuðu rúgbrauði, skelrækjur úr Eyjafjarðarál, harðfiskur með smjöri, fiskisúpa og síðast en ekki síst fiskborgarar af lengsta grilli (8 metra langt) norðan alpafjalla. Fisknum verður svo skolað niður með rúmlega tveimur vörubílsförmum af gosdrykkjum og í desert verða 3.000 lítrar af kaffi og 11.000 íspinnar. Verða í boði um 130.000 matarskammtar milli 11:00 og 17:00, þann tíma sem dagskráin mun standa.
Búast má við miklu stuði á Fiskideginum. Dagskrá mun verða á sviði á hátíðarsvæðinu milli 11:00 og 17:00. Meðal atriða er flutningur lags Fiskidagsins, sem er flutt af Matta í Pöpum og Friðriki Ómari, heiðrun sem Svanfríður Jónasdóttir fyrrum alþingismaður (og Dalvíkingur) stendur fyrir, ávarp sjávarútvegsráðherra, karlakór Dalvíkur tekur lagið, fjöldi hljómsveita kemur fram og er eflaust hápunkturinn þegar að Papar stíga á svið og taka nokkur lauflétt lög. Dagskráin er löng og ítarleg. Driffjöðurin í þessu öllu og stjórnandinn er þúsundþjalasmiðurinn Júlíus Júlíusson á Dalvík. Hann stjórnar þessu af miklum krafti. Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Það er mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist á Dalvík á þessum degi og greinilegt á þeim fjölda sem þarna hefur komið saman seinustu árin að fólk skemmtir sér konunglega í góðu veðri og hefur gaman af. Að sjálfsögðu fer ég til Dalvíkur þennan dag - ég hvet alla til að fara sem eiga möguleika á því.
Á stjórnarfundi Sambands ungra sjálfstæðismanna í vikunni voru samþykktar tvær ályktanir: Sú fyrri hljóðar svo: "Samband ungra sjálfstæðismanna hvetur nýjan útvarpsstjóra, Pál Magnússon, til að hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Þar með myndi skapast aukið svigrúm fyrir einkarekna ljósvakamiðla. Ungir sjálfstæðismenn telja ekki koma til greina að ,,bæta" Ríkisútvarpinu upp tekjutapið með auknum álögum á landsmenn. Nýr útvarpsstjóri ætti fremur að skera niður í rekstrinum, til dæmis með því að tryggja að RÚV sinni ekki verkefnum sem einkareknir fjölmiðlar sinna nú þegar. Í framhaldinu væri eðlilegt að RÚV hætti rekstri Rásar 2. Jafnframt er mikilvægt að horfið verði frá öllum hugmyndum fráfarandi útvarpsstjóra um að fjölga enn ríkissjónvarpsstöðvum. Að lokum ítreka ungir sjálfstæðismenn þá skoðun sína að ríkisvaldið hætti rekstri fjölmiðla og RÚV verði selt."
Seinni ályktunin hljóðar svo: "Ungir sjálfstæðismenn fagna því að sala Símans sé orðin að veruleika. Með sölunni hefur ríkisstjórninni tekist að framkvæma mikilvægan áfanga í stefnuskrá sinni og eitt af helstu baráttumálum ungra sjálfstæðismanna um langt skeið. Brýnt er að haldið verði áfram á þessari braut. ÁTVR, Landsvirkjun og Ríkisútvarpið eru dæmi um fyrirtæki sem betur væru komin í eigu framtakssamra einkaaðila en hjá hinu opinbera. Ungir sjálfstæðismenn leggja áherslu á að söluandvirði Símans verði varið skynsamlega, svo sem í niðurgreiðslu skulda og lækkun skatta, en ekki í pólitísk gæluverkefni." Nú hefur svo 38. sambandsþing Sambands ungra sjálfstæðismanna verið formlega auglýst. Það verður haldið að Hótel Stykkishólmi helgina 30. september til 2. október 2005.
Í ítarlegum pistli á íhald.is í dag fjalla ég um atvinnumótmælendurna fyrir austan og rökþrot þeirra sem kemur fram í aðgerðum þeirra að undanförnu. Í pistlinum segir svo: "Atvinnumótmælendur höfðu þá komið til sögunnar. Útlendingar á heimshornaflakki á höttunum eftir mótmælum – mótmælanna vegna greinilega. Það var enda mjög ankanalegt að sjá þetta fólk komið hingað til sögunnar í atburðarásina heilum tveim árum eftir að framkvæmdir voru hafnar við Kárahnjúka. Það var eins og fólkið væri ekki með á staðreyndir málsins, ekki með á grunn þess sem þarna hefði verið að gerast. Það hefði verið nær að mótmælendurnir hefðu komið fyrir tveim árum, þegar vinna var að hefjast við Kárahnjúka frekar en núna. En það má segja að mælirinn hafi orðið endanlega fullur meðal Austfirðinga, sem langflestir styðja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan og ekki síður meðal þeirra landsmanna sem stutt hafa þessar framkvæmdir fyrir austan." Hvet alla til að lesa pistilinn, það hefur alltaf verið svo að ég hef haft ákveðnar skoðanir á stóriðju á Austurlandi og stutt hana eindregið. Austfirska taugin er sterk í mér og ég styð austfirðinga heilshugar og hef gert alla tíð.
Að lokum í færslu dagsins má ég til að hrósa Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, fyrir öfluga framkomu hans á blaðamannafundi í dag í Downingstræti 10. Þar sagði hann að enginn vafi léki á því að lög í landinu yrðu hert vegna hryðjuverkanna í landinu í síðasta mánuði og hryðjuverkaógnarinnar almennt í landinu. Jafnframt sagði hann að hann og ríkisstjórn Verkamannaflokksins væri tilbúin til að aðlaga mannréttindalög að breyttum aðstæðum í landinu og breyta með því lögum sem varða mannréttindi standi þau í vegi fyrir hugmyndum um að yfirvöldum verði veitt heimild til að vísa einstaklingum úr landi telji þau þá ekki stuðla að þjóðarhag. Á blaðamannafundinum tilkynnti forsætisráðherrann að að lögum yrði breytt í því skyni að heimilt yrði að vísa þeim úr landi sem myndu hvetja til ofbeldis eða tala máli hryðjuverkaaflanna. Þetta er gott hjá Blair og rétt skref sem er ekki annað hægt en að hrósa honum fyrir að taka. Það verður að taka á ógninni með einbeittum hætti.
Saga dagsins
1796 Brynjólfur Sveinsson biskup, lést, sjötugur að aldri - var einn merkasti biskup í lútherskum sið.
1873 Stefán Guðmundur Guðmundsson, 19 ára Skagfirðingur, hélt ásamt fjölda annarra Íslendinga vestur um haf - hann tók sér upp nafnið Stephan G. Stephansson við komuna út. Stephan varð eitt besta ljóðskáld Íslendinga á 19. öld og orti fjölda ljóða um ættjarðarást og lífið í nýjum heimkynnum, fjarri föðurlandinu. Stephan orti allt til dauðadags 1927. Ljóðasafn Stephans hlaut nafnið Andvökur.
1875 Hjálmar Jónsson skáld, Bólu-Hjálmar, lést í beitarhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði, 78 ára að aldri. Bólu-Hjálmar var stórbrotið skáld en átti jafnan við mjög mikið andstreymi að stríða í lífinu.
1962 Bandaríska leikkonan Marilyn Monroe lést, 36 ára að aldri - Marilyn, er hét réttu nafni Norma Jean Baker, fannst látin á heimili sínu, væntanlega eftir að hún hafði tekið alltof stóran skammt af svefnlyfjum. Réttarlæknir úrskurðaði að um sjálfsmorð væri að ræða. Lengi hefur verið deilt um það hvort leikkonan var myrt. Ef einhver leikkona á skilið það að hljóta titil sem kyntákn kvikmyndanna, kemur aðeins Marilyn til greina. Hún var allt í senn: kynþokkafull og fögur, varnarlaus, viðkvæm, tælandi og lokkandi. Hún var táknmynd ljóskunnar á 20. öld, en líf hennar var sambland martraða og drauma, sorgar og gleði, sigra og skipbrota. Marilyn lék á ferlinum í fjölda ógleymanlegra kvikmynda.
2000 Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir Alec Guinness lést, 86 ára að aldri - Guinness var einn af virtustu leikurum Breta á 20. öld. Leikaraferill hans spannaði 60 ár og varð hann þekktastur fyrir leik sinn í leikritum Shakespeare og sem Obi-Wan Kenobi í Star Wars-kvikmyndunum. Guinness lék á ferli sínum ólík hlutverk, allt frá Hamlet til gamanpersóna. Sir Alec hlaut óskarsverðlaunin árið 1957 fyrir ógleymanlega túlkun sína á Nicholson ofursta í The Bridge on the River Kwai. Hann var aðlaður 1959.
Snjallyrðið
I may not always love you
But as long as there are stars above you
You never need to doubt it
I'll make you so sure about it.
God only knows what I'd be without you!
If you should ever leave me
Though life would still go on believe me
The world could show nothing to me
So what good would living do me.
God only knows what I'd be without you!
Brian Wilson tónlistarmaður (God only knows)
<< Heim