Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í gær. Forvitnir geta með lestri blaðsins svalað áhuga sínum á að kynna sér tekjur 2.400 einstaklinga: t.d. forstjóra, starfsmanna fjármálafyrirtækja, stjórnmálamanna, leikara, söngvara, svo fátt eitt sé nefnt. Tölur í blaðinu eru venju samkvæmt byggðar á álagningarskrá sem lögð var fram á föstudaginn var. Þann sama dag fengu landsmenn allir sendan heim til sín álagningarseðil. Eins og flestir vita kemur fram á þeim álagning ársins og upplýsingar um skattaskuldir, eða endurgreiðslur, ef um þær er að ræða í þessum tilfellum. Geta allir farið á skattstofur eins og venjulega og kynnt sér hvað annað fólk borgar í skatta og verið að hnýsast í einkalíf fólks með þeim hætti. Svo getur það auðvitað keypt fyrrnefnt blað og svalað forvitninni heima í stofu í staðinn. Sumum finnst það sennilega betra að fara svo lítið beri á í næstu bókabúð og kaupa blaðið, halda svo heim en að setjast á skattstofuna og fletta gögnunum þar. Hefur það alltaf verið skoðun mín að þetta eigi ekki að vera með þessum hætti og ekki eigi að birta álagningarskrárnar opinberlega eða leyfa opinbera birtingu þessara gagna með þessum hætti.
Sl. vetur var lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu fólst einkum að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna skyldi með öllu lögð af. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans að frumvarpinu voru fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég persónulega fagnaði þessu frumvarpi þingmanna flokksins mjög í ítarlegum pistli á föstudaginn langa, hinn 25. mars sl. Fór ég þar yfir skoðun mína á þessu málefni í nokkuð ítarlegu máli og bendi þeim sem vilja kynna sér afstöðu mína með ítarlegum hætti að lesa þann pistil. Rökin að baki þeirri skoðun okkar í Sjálfstæðisflokknum og SUS að vilja breyta þessu eru allnokkrar en þó ber að sjálfsögðu helst að nefna sú skoðun okkar að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti mjög gegn rétti einstaklinga til friðhelgis einkalífs. Að mínu mati eru fjárhagsmálefni einstaklinga án nokkurs vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari.
Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er mjög til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengst hefur á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft ályktað um þetta mál og enginn vafi á því að það er stefna flokksins að þessar breytingar eigi sér stað. Að mínu mati áttu viðkomandi þingmenn mikið hrós skilið fyrir að stíga þetta skref og vinna í takt við stefnu flokksins í þessum efnum. Gleðiefni var að þeir skyldu með þessu leggja áherslu á þetta baráttumál ungra sjálfstæðismanna til fjölda ára. Það hefur mjög lengi verið stefna SUS að þessi breyting verði gerð. Það verður fróðlegt að sjá hver umræðan um það verði á næsta þingvetri. Fyrst og fremst tel ég ekki rétt að þessar upplýsingar séu opinberar. Það er kominn tími til að stokka þetta upp. Það á enda að mínu mati varla að koma fólki úti í bæ við hvað Jóhannes Jónsson verkamaður á Eyrinni, nú eða Jóhannes Jónsson athafnamaður á Brekkunni, er með í laun. Það á aðeins að vera málefni viðkomandi aðila. Eða hvað segirðu annars lesandi góður?
Á sunnudag birtist skoðanakönnun á fylgi framboðanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Skv. henni nýtur Sjálfstæðisflokkurinn meira fylgis en R-listinn um þessar mundir. Er þetta í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur forskot er spurt hefur verið um fylgi borgarmálaframboðanna í þjóðarpúlsi Gallup. Á milli kannana tapar R-listinn 6%. Sjálfstæðisflokkurinn fengi rúmlega 48% fylgi en R-listinn hlyti 47%. Frjálslyndir mælast með tæplega 5%. Miðað við þetta fylgi hlyti Sjálfstæðisflokkurinn átta borgarfulltrúa, eða hreinan meirihluta, en R-listinn 7, og myndi tapa meirihlutanum. Niðurstaðan er nær eins og birtist í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins og var birt í síðasta mánuði. Þessi könnun staðfestir að Sjálfstæðisflokkurinn á góða möguleika á því að ná hreinum meirihluta í borgarstjórn og velta R-listanum, eða flokkunum sem mynda hann, úr sessi. Það er vissulega ekki undarlegt að valdahlutföllin í borginni séu að breytast. R-listinn er orðinn þreytulegur og mörg neikvæð mál hafa komið upp þar að undanförnu. Þetta er jákvæð mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ef rétt er haldið á spöðum þar mun flokkurinn komast til valda næsta sumar.
Í gær voru svo birtar niðurstöður viðhorfskönnunar IMG Gallup, er gerð var fyrir áhugamenn um borgarmál. Þar kemur fram að borgarbúar telja að Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sé líklegastur leiðtogaefna flokksins í borginni til að velta R-listanum úr sessi og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í væntanlegum borgarstjórnarkosningum. Valið stóð á milli Gísla Marteins, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Gísli Marteinn hlaut 36,9%, Vilhjálmur Þ. var með 29,7%, Guðlaugur Þór hlaut 13,4%, Hanna Birna hafði 12,7% og Júlíus Vífill mældist með 7,2%. Í kjölfarið var spurt að nýju og valið stóð þá milli tveggja hæstu, Gísla Marteins og Vilhjálms Þ. Þá hlaut Gísli Marteinn 53,6% en Vilhjálmur Þ. 46,4%. Fram kom ennfremur að Gísli Marteinn hefði meiri fylgi bæði meðal karla og kvenna. Þetta eru mjög merkilegar tölur og sýna vel fram á sterka stöðu Gísla Marteins. Má telja líklegt að hann muni alvarlega íhuga framboð til leiðtogastóls flokksins í borginni gegn Vilhjálmi Þ.
Hrafn Gunnlaugsson hefur alltaf átt auðvelt með að stuða Íslendinga, bæði með framkomu sinni og ekki síður kvikmyndunum sem hann hefur gert. Enginn vafi leikur á því, að mínu mati, að besta kvikmynd hans sé Hrafninn flýgur. Það er stórfengleg kvikmynd, byggð á frásagnararfi Íslendinga og er í senn bæði þjóðleg og mystísk. Í henni kemur saman allt það besta í íslenskri kvikmyndagerð. Um er að ræða eina af bestu kvikmyndum okkar Íslendinga. Leikurinn, dulúðug tónlistin (byggð á hinu rammíslenska lagi Sprengisandi sem fært er í Morricone-stíl), kvikmyndatakan, búningarnir og leikstjórnin: allt myndar þetta glæsilegt og heilsteypt kvikmyndaverk. Í henni er sögð sagan af Gesti sem kemur til Íslands, staðráðinn í að hefna fyrir dauða foreldra sinna. Hann kemur sem huldumaðurinn óvænti til sögunnar og leggur til atlögu við skaðvaldana. Einn þeirra sem myrtu foreldrana rændi systur hans er foreldrarnir voru myrtir og er hún nú eiginkona hans. Jakob Þór Einarsson, Helgi Skúlason, Edda Björgvinsdóttir og Flosi Ólafsson fara öll á kostum í hlutverkum sínum í myndinni - sérstaklega Helgi, sem auðvitað var einn besti leikari þjóðarinnar á 20. öld.
Nú hefur myndin loksins komið út á DVD. Var ég ekki lengi að festa kaup á DVD-disknum með myndinni, enda er þessi mynd í sérflokki íslenskra kvikmynda. Sennilega hefur engin íslensk mynd farið víðar um heiminn, ef Börn náttúrunnar, eftir Friðrik Þór Friðriksson, er frátalin. Hún hlaut fjölda alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna. Segir Hrafn skemmtilega frá gerð myndarinnar, sem markaðist af miklum erfiðleikum vegna veðurfars og ýmissa annarra aðstæðna, í bók sinni Krummi, sem kom út árið 1994. Það er því kjörið fyrir þá sem ekki hafa séð myndina að sjá hana og eins hina að rifja upp kynnin. Það er ánægjulegt að eiga myndina í fullum gæðum og geta horft á aukaefnið sem fylgir myndinni. Þessi mynd hentar alltaf vel og er ánægjulegt að geta notið stórleiks leiksnillingsins Helga Skúlasonar, sem að mínu mati lék aldrei betur en í þessari mynd. Ennfremur er Jakob Þór virkilega góður í hlutverki hins dularfulla Gests, sem allt í einu er kominn til að gera upp gamlar sakir. Hrafn hefur aldrei farið troðnar slóðir á sínum ferli, en með þessari mynd skapaði hann ógleymanlegt meistaraverk að mínu mati.
Til fjölda ára hef ég haft gaman af Lífsmyndum Þráins Bertelssonar. Ef Jón Oddur og Jón Bjarni er talin frá finnast mér þetta bestu myndir leikstjórans. Reyndar er það svo fyndið að þær þykja það góðar að leikstjórinn komst í flokk þeirra sem hljóta heiðurslistamannalaun ríkisins, eins absúrd og fyndið og það hljómar. En hvað með það. Lífsmyndirnar hafa fylgt manni til fjölda ára og létt lundina. Karl Ágúst Úlfsson og Eggert Þorleifsson fara í myndunum á kostum í hlutverkum lífskúnstneranna Daníels Ólafssonar og Þórs Magnússonar. Í fyrstu myndinni, Nýtt líf, fara þeir á vertíð í Vestmannaeyjum með kostulegum afleiðingum, í annarri myndinni, Dalalíf, halda þeir í sveitina og taka að sér bú í Kjósinni með grátbroslegum hætti og að lokum taka þeir að sér löggæslustörf í Reykjavík í Löggulífi. Nú eru þessar myndir komnar á DVD. Keypti ég mér þær allar á föstudaginn og horfði á þær allar um helgina. Átti ég þær á spólu, en það hefur verið horft það mikið á spólurnar að þær eru að verða frekar lélegar. Það er því kærkomið að henda spólunum og eiga þessar úrvalsgrínmyndir á DVD. Frábærar gamanmyndir sem hafa alltaf hentað vel mínum húmor.
Merkilegt var að fylgjast með veðrinu hér í gær og líta til himins. Úrhellisrigning var hér í bænum eftir hádegið. Er líða tók á daginn gekk á með þrumum og eldingum á himni hér í firðinum. Þessu fylgdi eins og fyrr er sagt allnokkur úrkoma. Hluti Vaðlaheiðar gránaði svo af hagli. Er þetta fátítt hér um slóðir og merkilegt að gangi á með hagléljum í ágústbyrjun. Náðust mjög góðar myndir af þrumuveðrinu sem sýndar voru í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Lítið endilega á fréttina og sjáið þrumurnar, frá flottu sjónarhorni inn Eyjafjörðinn.
Saga dagsins
1914 Fyrri heimsstyrjöldin hefst formlega - Þýskaland lýsir yfir fullu stríði á hendur Frakklandi.
1974 Meirihluti öldungadeildarþingmanna samþykkir að ákæra Nixon forseta fyrir embættisafglöp vegna Watergate-málsins - Nixon sagði af sér forsetaembættinu svo loks nokkrum dögum síðar.
1980 Hátíð haldin á Hrafnseyri við Arnarfjörð - þess var minnst formlega að öld var liðin frá láti Jóns Sigurðssonar. Vigdís Finnbogadóttir vígði minningarsafn um Jón - var fyrsta embættisverk hennar.
1984 Ringo Starr trommuleikari Bítlanna, kom til Íslands - hann var heiðursgestur á útihátíð í Atlavík í Hallormsstaðaskógi og tók við það tækifæri nokkur lög með Stuðmönnum og Gunnari Þórðarsyni.
2000 George W. Bush þiggur útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans í ræðu á þingi flokksins í Philadelphiu - Bush vann forsetakosningarnar og tók við embætti 20. janúar 2001. Bush forseti var endurkjörinn í forsetakosningunum 2004 og mun sitja á forsetastóli til 20. janúar 2009.
Snjallyrðið
Smávinir fagrir, foldar skart,
fifill í haga rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.
Faðir og vinur alls sem er!
annastu þennan græna reit;
blessaðu faðir blómin hér;
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley! sérðu mig.
Sofðu nú vært og byrgðu þig;
hægur er dúr á daggarnótt,
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Hulduljóð)
<< Heim