Í sunnudagspistli í gær fjallaði ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um umdeilda lífskjarakönnun Gallups þar sem meðal rúmlega 50 spurninga var spurt um fylgi framboðanna sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar. Fer ég yfir málið frá ýmsum hliðum: tek fyrir framkomu Samfylkingarinnar og valdabaráttuna bakvið tjöldin þar, frammistöðu fréttamanns RÚVAK hér á Akureyri og væntanlega kosningabaráttu. Hljóp fréttamaður Ríkisútvarpsins hér í bæ nokkuð á sjálfan sig þegar að hann fullyrti að meirihlutinn væri fallinn. Greinilegt er að fréttamaður hefur fjallað um málið með þeim hætti að meirihlutinn hlyti að vera fallinn, fyrst hann fengi undir 50% fylgi. Er vissulega merkilegt að Samfylkingin sem hefur vaxið nokkuð undir forystu Oktavíu Jóhannesdóttur sjái fram á átök um leiðtogahlutverk flokksins. Flokkurinn hefur vaxið nokkuð milli kannana. Nú hefur Hermann Jón Tómasson skorað Oktavíu á hólm og fróðlegt að sjá hverjar lyktir verða. Það er alveg ljóst að hefði innri krísa innan Samfylkingarinnar ekki átt sér stað hefði umræða um þessa lífsgæðakönnun orðið með allt öðrum brag.
- í öðru lagi fjalla ég um skipun Páls Magnússonar í embætti útvarpsstjóra. Um þetta starf sótti mikill fjöldi hæfs og góðs fólks. Greinilegt er að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telur störf Páls Magnússonar að fjölmiðlum skipta sköpum. Þetta er reyndar í síðasta sinn væntanlega sem menntamálaráðherra mun skipa útvarpsstjóra. Með samþykkt nýrra útvarpslaga næsta vetur mun það vald færast í hendur rekstrarstjórnar RÚV sem kemur í stað útvarpsráðs sem lagt verður þá niður. Þá verður rekstrarstjórn ábyrg fyrir rekstrinum en hefur ekki ritstjórnarlegt vald eða mun skipta sér af mannaráðningum. Þetta vald fer í hendur útvarpsstjóra, Páls Magnússonar. Hér er ÞKG klárlega að velja útvarpsstjóra eftir því tagi sem hún telur hæfa samhliða frumvarpinu sem verður væntanlega að lögum á næsta þingvetri. Það er alveg ljóst að nýr útvarpsstjóri hefur stórt og mikið verkefni fyrir höndum og næg úrlausnarefni bíða Páls Magnússonar er tekið verður til við það sem bíður á skrifborðinu í Efstaleiti.
- í þriðja lagi fjalla ég um sölu Símans, sem er stærsta einkavæðing í sögu landsins. Á fimmtudag voru tilboð í Símann opnuð og var tilboð Skiptis hæst og því tekið í kjölfarið. Merkilegt hefur verið að fylgjast með dylgjum formanns Samfylkingarinnar í málinu. Fer ég yfir stöðu málsins og hversu mikilvægt það er að Síminn hafi verið seldur. Þessi sala markar jákvæð og góð tímamót fyrir landsmenn alla.
In the Line of Fire er ekta pólitísk spennumynd - hörkugóð og vel leikin úrvalsmynd, frá árinu 1993, sem segir frá Frank Horrigan, sem er í lífvarðasveit forseta Bandaríkjanna. Hann er í sögubyrjun kominn á sjötugsaldurinn og hefur ótvírætt umfangsmikla reynslu í starfi sínu eftir tæplega þrjátíu og fimm ára starf í leyniþjónustunni sem lífvörður forsetans. Hefur hann í raun aldrei jafnað sig á því að hafa mistekist að vernda John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, sem myrtur var í Dallas í Texas, 22. nóvember 1963. En allt í einu hefur samband við hann maður sem hefur í hyggju að myrða yfirmann Franks, núverandi forseta Bandaríkjanna, sem er nú í hörðum kosningaslag um lyklavöldin í Hvíta húsinu og er undir í baráttunni er sagan hefst. Er Frank áttar sig á að honum er alvara leggur hann til atlögu gegn skaðvaldinum. En spurningin að lokum er óneitanlega tvíþætt: tekst Frank að bjarga lífi forsetans eða tekst tilræðismanninum að myrða hann og mistekst Frank rétt eins og í Texas hinn heita vetrarmorgun er JFK féll fyrir morðingjahendi.
Clint Eastwood fer á kostum í einu af hans allra bestu hlutverkum á ferlinum. Hann er frábær sem hinn einmana leyniþjónustumaður sem lifir kyrrlátu lífi, sinnir vinnu sinni en fær sér einn kaldan bjór og hlustar á og spilar jazz utan vinnutíma. John Malkovich hefur aldrei verið betri en hér í hlutverki tilræðismannsins, Mitch Leary. Hann er alveg stórfenglegur í túlkun sinni, meistaralega góður er hann tjáir hið brenglaða eðli Leary og hæfileika hans til að spinna hinn margflókna vef sem mun jafnvel duga honum til að drepa forsetann. Hann hlaut tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, var það hreinn skandall að hann vann ekki verðlaunin. Rene Russo er flott í hlutverki lögreglukonunnar Lilly Raines, og Dylan McDermott á góða takta sem Al D'Andrea, vinnufélagi Franks. Hér gengur allt upp: frábær leikur, vandað handrit og meistaraleg leikstjórn (þjóðverjans Wolfgang Petersen). Rúsínan í pylsuendanum er svo hin frábæra tónlist meistara Ennio Morricone, sem klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Semsagt: hörkugóð og ógleymanleg hasarmynd sem fær áhorfandann til að gleyma stað og stund og tryggir spennandi kvöldstund. Ekta góð fyrir pólitíska áhugamenn.
Saga dagsins
1874 Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands öðlast formlegt gildi - Kristján 9. Danakonungur kom með stjórnarskrána til landsins í för sinni á þjóðhátíð á Þingvöllum og kynnti hana fyrst formlega þar.
1897 Oddfellow-reglan stofnuð - Oddfellow-reglan leggur aðallega áherslu á bræðralag og samhjálp.
1935 Talsímasamband við útlönd var formlega opnað, en skeytasamband komst fyrst á árið 1906.
1936 Ólympíuleikarnir settir í Berlín - þeirra var helst minnst vegna afreka Jesse Owens á leikunum.
1980 Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri, tekur við embætti forseta Íslands - hún varð fyrsta konan
í heiminum sem kjörin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegri kosningu. Sögulegur áfangi í jafnréttisbaráttu.
Snjallyrðið
Nú næðir vindur og nóttin kemur
og nú er friður í hjarta þér,
þú átt að vita það öðru fremur
að englar Drottins, þeir vaka hér.
Úti vindurinn vex og dvínar,
hann vekur öldur við kalda strönd
og ber um himininn bænir þínar
þær berast áfram um draumalönd.
Á meðan birta í brjósti lifir
þá bið ég Guð minn að vernda þig,
ég bið um ást fyrir allt sem lifir
og englar Drottins, þeir styðja mig.
Í myrkri finnur þú máttinn dofna
á meðan vindur um landið fer.
Þín augu lokast, þú ert að sofna
og englar Drottins, þeir fylgja þér.
Þorvaldur Friðriksson (1923-1996) (Englar Drottins vaki)
<< Heim