Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 ágúst 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um dramatísk endalok R-listans sem geispaði golunni í vikunni. Fer ég yfir málið frá nokkrum hliðum sem við blasa að séu mest áberandi þegar gert er upp merkileg endalokin á þessu langa dauðastríði sem R-listinn hefur háð seinustu árin. Jafnframt spái ég í framhaldinu, t.d. hvernig flokkunum gangi að vinna saman fram að kosningum. Það hefur óneitanlega verið nokkuð merkilegt að fylgjast með þessu kosningabandalagi (ég kalla það oftast hræðslubandalag) líða undir lok. Atburðarásin var fyrirséð nokkuð lengi - menn höfðu búist við endalokunum allt frá því er horft var upp á VG og Framsókn steypa Ingibjörgu Sólrúnu af stóli innan R-listans um jólin 2002. Þeir sem upplifðu þann hasar allan og gerningaveður á heilagasta tíma ársins gleyma honum ekki. Endalokin komu engum á óvart - þegar þau loks komu. Ekki einu sinni völdin gátu haldið fólki saman enn aðrar kosningarnar - svo mikill kuldi var kominn í skjól andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að völdin gátu ekki megnað að halda hjörðinni í sömu réttinni. Þessi endalok urðu engin stórfrétt - þetta var eitthvað sem allir bjuggust við.

- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Farið er nú að tala um raunhæfa kosti í málunum í stað hnútukasts um grunnatriði. Er það gleðiefni. Nú hefur rykið verið dustað af þriggja áratuga gamalli tillögu um völl á Lönguskerjum, sem Trausti Valsson kom manna fyrstur með, og Hrafn Gunnlaugsson færði í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Ég lýsi yfir ánægju minni með nýja stöðu málsins nú. Menn eru farnir að tala um raunhæfa kosti og raunhæft mat á grunni málsins. Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er mjög góður kostur. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp – átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns um skipulagsmál í borginni.


Pólitíska ræman
Wag the Dog

Hvers vegna dillar hundur skottinu? Vegna þess að hundurinn er snjallari en skottið. Ef skottið væri snjallara mundi það dilla hundinum. Þetta er augljós sannleikur og speki sem á svo sannarlega við í Wag the Dog, hinni frumlegu, fyndnu og sérlega skemmtilegu mynd óskarsverðlaunaleikstjórans Barry Levinson. Það eru aðeins 11 dagar í forsetakosningar og tíminn því ekki heppilegur fyrir alvarlegt hneyksli þar sem forsetinn sjálfur er aðal sökudólgurinn. Ásakanir þess efnis að hann hafi beitt eina starfsstúlku Hvíta hússins kynferðislegri áreitni eru komnar fram og málið er mjög líklegt til að hafa afgerandi áhrif á siðvanda kjósendur. Til að bjarga málunum er ákveðið að kalla í Conrad Brean, en hann er svokallaður spunalæknir (spin doctor), þ.e. sérfræðingur í að hafa áhrif á almenning í gegnum fjölmiðla og fréttatilkynningar. Conrad gerir sér þegar grein fyrir alvöru málsins og til að dempa umræður um hneykslið finnur hann upp enn alvarlegri fréttir sem hafa með kjarnorkusprengju og stríð í Albaníu að gera.

Til að gera "fréttirnar" sem allra trúverðugastar flýgur hann til fundar við Hollywood-leikstjórann Stanley Motts og fær hann í lið með sér. Hlutverk hans er að framleiða í einum grænum trúverðugar fréttamyndir frá "átakasvæðinu" og koma þeim á framfæri. Þeir Stanley og Conrad verða skottið sem dillar hundinum. Og hundurinn er í þessu tilfelli öll heimsbyggðin. Wag the Dog er án nokkurs vafa ein af bestu kvikmyndum ársins 1997. Óskarsverðlaunaleikararnir Dustin Hoffman og Robert De Niro fara algjörlega á kostum í hlutverkum Motts og Brean. Hoffman var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Pólitískir klækir þeirra og vinnubrögð jafnast á við heila kennslubók í pólitíska spinnplottinu á bakvið tjöldin. Þessi mynd er fjársjóður fyrir áhugamenn um stjórnmál. Þeir sem sjá þessa kynnast mörgum trixum sem bæði eru í bókinni heilögu um áróðursklæki og eins finnast ekki nema í vinnubrögðum þeirra allra færustu í bransanum. Áhugaverð mynd - sem allir áhugamenn um stjórnmál ættu að hafa sannkallað gagn og gaman af.

Saga dagsins
1011 Njálsbrenna - Njáll Þorgeirsson og fjölskylda hans brennd inni á Bergþórshvoli í Landeyjum.
1238 Örlygsstaðabardagi háður í Blönduhlíð í Skagafirði - þar féll á sjötta tug manna. Bardaginn er almennt talinn einn af þeim örlagaríkustu hérlendis en í honum börðust þrjár af voldugustu ættum landsins um áhrif og völd. Kolbeinn ungi Arnórsson vann sigur í orrustunni með atbeina Gissurar Þorvaldssonar jarls. Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans féllu t.d. í bardaganum með liði sínu.
1968 Tilraun stjórnvalda í Tékkóslavakíu til að færa stjórnarfar landsins til lýðræðisáttar er kaffærð með valdaráni þarlendra fulltrúa Sovét-kommúnistanna - lýðræðislegri stjórn landsins steypt af stóli.
1983 Benigno Aquino leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Filippseyjum, myrtur á flugvellinum í Manila
við heimkomu til landsins, en hann hafði þá verið í útlegð í Bandaríkjunum í 3 ár. Morðið á honum efldi stjórnarandstöðuna í baráttunni gegn Marcos einræðisherra landsins. Corazon Aquino, ekkja Benignos, leiddi baráttuna og varð forseti landsins í febrúar 1986 er Marcos var loks steypt af stóli.
1991 Valdarán harðlínuaflanna í Moskvu mistekst og forystumenn valdaránsins eru handteknir - Gorbatsjov sleppt úr varðhaldi, snýr aftur til Moskvu þar sem blasir við gjörbreytt valdaumhverfi.

Snjallyrðið
Enn birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Svo morgunbjört og fögur í mínum huga býr
hver minning um vor sumarstuttu kynni.

Og ástarljóð til þín verður ævikveðja mín,
er innan stundar lýkur göngu minni
þá birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Játning)