Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 ágúst 2005

Punktar dagsins
Gísli Marteinn Baldursson

Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tilkynnti á fjölmennum fundi með stuðningsmönnum sínum í Iðnó á sunnudag um framboð sitt í leiðtogasæti á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 27. maí nk. Það er því ljóst að kosið verður milli manna hvað varðar efsta sætið, en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi, sem verið hefur leiðtogi borgarstjórnarflokksins frá árinu 2003, sækist eftir umboði flokksmanna til áframhaldandi forystu og því að leiða framboðslistann. Báðir eru Vilhjálmur og Gísli Marteinn mætir menn sem hafa unnið fyrir flokkinn af heilindum og hafa metnað til að vinna vel fyrir kjósendur. Það er auðvitað bara eðlilegt að ungir menn á borð við Gísla Martein sem hafa áhuga á stjórnmálum hafi ambisjónir fyrir sig og vilji vinna fyrir flokk sinn og kjósendur. Það er svo flokksmanna að velja á milli manna, velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum. Það er ekkert að því að menn hafi val í þeim efnum. Það er einfaldlega bara merki um lýðræði og opin vinnubrögð innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að valkostir séu uppi í stöðunni og það mun svo verða almennra flokksmanna að taka svo af skarið og velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum - til sigurs! Lykilatriði er að sjálfstæðismenn velji sér þann leiðtoga sem leitt getur flokkinn á sigurbraut.

Alveg ljóst er að Gísli Marteinn hefur á að skipa fjölmennum hópi stuðningsmanna sem samanstendur af flokksbundnum sjálfstæðismönnum og eins af þeim sem vilja breytingar í borgarmálum og hafa ekki valið sér það hlutskipti að ganga í flokk. Kristallast þetta vel í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag. Þar kemur fram að flestir Reykvíkingar vilja Gísla Martein sem næsta borgarstjóra. Tæpur fjórðungur þeirra sem tóku afstöðu valdi hann. Næstur kemur Stefán Jón Hafstein, svo Vilhjálmur Þ. og loks kemur Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Nýtur Gísli Marteinn fylgis um 24%, Stefán Jón hefur um 20%, Vilhjálmur Þ. um 18% og Steinunn Valdís hefur rétt rúm 10%. Athygli vakti að Gísli Marteinn og Stefán Jón voru saman í báðum dægurmálaspjallþáttunum í gærkvöldi og fóru yfir leiðtogaslaginn sem framundan er innan bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Greinilegt er að vinstrimenn óttast mjög leiðtogaframboð Gísla Marteins. Skýrt dæmi um þetta eru skrif Össurar Skarphéðinssonar leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formanns flokksins, í bloggfærslu sinni í gær. Það er greinilegt að menn óttast á þeim vængnum Gísla Martein og ef marka má þessa skoðanakönnun Fréttablaðsins er það varla óeðlilegt. Hann nýtur mikils fylgis.

Ég fór í Iðnó á sunnudaginn og var viðstaddur það þegar að Gísli Marteinn lýsti yfir framboði sínu, áður en ég hélt með síðdegisvél heim eftir góða helgi fyrir sunnan. Þar var jákvæð og góð stemmning. Gísli Marteinn lætur reyna á sína stöðu sem er mjög jákvætt. Nú eru örlög hans og annarra frambjóðenda sett í hendur almennra flokksmanna. Persónulega líkar mér vel við Gísla Martein og ákvörðun hans um að gefa kost á sér. Það er eðlilegt að hann láti reyna á hvar hann standi meðal flokksmanna. Það sem mér líkar best við hann er jákvæðni og málefnalegheit. Hann er jákvæður í framsetningu málefnapunkta sinna og kemur fram með góðum hætti. Þannig verður kosningabarátta sjálfstæðismanna að verða í næstu kosningum. Það sem mestu skiptir nú fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að þar sé unnið saman að því markmiði að vinna borgina. Áður velja flokksmenn forystuna - talsmenn framboðsins í kosningunum. Þar verður kosið milli manna. Að því loknu verða menn að einhenda sér í það verkefni að vinna saman og tryggja að vinstriöflunum verði komið frá. Það sem hefur verið akkilesarhæll sjálfstæðismanna í borgarmálunum undanfarin ár er sundurlyndi. Nú eru menn samhentir, vonandi, í því markmiði að snúa bökum saman. Kosningarnar á næsta ári er lykilpunkturinn - það eru átökin sem mestu skipta.

Nú skiptir mestu að sjálfstæðismenn í Reykjavík velji þann sem leiða á flokkinn til sigurs. Að mínu mati tel ég rétt að flokkurinn velji ungt fólk til forystu og komi fram með ferska ásýnd og öfluga liðsheild undir forystu yngri kynslóðarinnar í flokknum. Sögulega séð hefur það alltaf reynst best í borgarmálunum. Það blasir við ef sagan er skoðuð allt frá upphafi. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þannig eigi það að vera núna. En sjálfstæðismenn verða að vinna saman að sigrinum til að geta náð honum. Það er alveg ljóst. Framundan er spennandi prófkjörs- og kosningabarátta næstu mánuðina í borgarmálunum í Reykjavík.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna í borgarmálunum sem kynnt var í gær nýtur Sjálfstæðisflokkurinn nú langmests fylgis allra framboða sem verða í kjöri í næstu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðismenn fengju hreinan meirihluta í borginni, eða níu borgarfulltrúa kjörna, ef marka má könnunina. Greinilegt er að endalok R-listans hafa leitt til vatnaskila í borgarmálunum. Nú skiptist fylgið sem eyrnamerkt var R-listanum upp og eftir stendur gjörbreytt pólitískt landslag í borginni í sveitarstjórnarpólitík. Það allavega blasir við þegar litið er á þessa skoðanakönnun, sem vissulega er bara vísbending en segir þó óneitanlega ansi margt. Sjálfstæðismenn hafa unnið vel á kjörtímabilinu og hafa nú hafið fundarferð um borgina. Öflugt forskot Sjálfstæðisflokksins nú kristallar það að kjósendur vilja breytingar - betri borg! Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin 29,7%, eða fimm borgarfulltrúa. VG hlyti einn borgarfulltrúa kjörinn, en hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndi flokkurinn næðu manni inn í borgarstjórn. Tæp 5% segjast styðja Framsóknarflokkinn en aðeins rúm 2% segjast styðja Frjálslynda. Það er því greinilegt að Samfylkingin fær fleiri borgarfulltrúa kjörna en þeir hefðu fengið í R-listanum en missa völdin.

Mörg sóknarfæri sjást í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar litið er á þessa skoðanakönnun og pólitísku stöðuna almennt í borginni. Fyrst og fremst segir þessi könnun það að Sjálfstæðisflokkurinn á mjög góða möguleika á að vinna kosningarnar og það vinna þær með mjög öflugum hætti. Dauði R-listans segir margt um stöðu mála, en endalok þessa hræðslubandalags breytir stöðunni hvað varðar meirihlutann sem nú ríkir og greinilegt að hann á erfitt með að halda saman fram til kosninga og auðvitað með það að halda meirihlutafylginu í sundruðum framboðum. Hljóti Sjálfstæðisflokkurinn ekki hreinan meirihluta er vandséð að R-listaflokkarnir vinni áfram saman, heldur keppist þeir þá við að reyna að komast í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Það stefnir allavega í mjög spennandi kosningar og uppstokkun innan flestra flokkanna hvað varðar frambjóðendur og uppröðun á framboðslista. Reyndar blasir við slagur í Samfylkingunni hvað varðar leiðtogastólinn en Stefán Jón Hafstein sem leiðir Samfylkinguna innan R-listans hefur lýst yfir framboði í leiðtogastól flokksins í kosningabaráttunni og ljóst að hann mun a.m.k. keppa við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, um þann stól. Andar greinilega mjög köldu þar á milli.

Svo er auðvitað óljóst hvað gerist með Össur Skarphéðinsson leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formann flokksins. Hann hefur komið með krafti inn í borgarmálaumræðuna og verið mjög áberandi þar. Hann hikaði ekki við að gagnrýna borgarstjórann á föstudag er hún sagði við leiðtogaframboði Stefáns Jóns að hann hefði lengi gengið með borgarstjórann í maganum. Össur tók sig til að kvöldi föstudagsins og ritaði merkilega bloggfærslu sem birtist aðfararnótt laugardagsins. Þar sagði hann að orð Steinunnar Valdísar hefðu verið ósmekkleg. Skrif Össurar vöktu verðskuldaða athygli. Eins og fyrr segir virðist ótti borgarstjórans skiljanlegur, enda nýtur hún mun minna fylgis en Stefán Jón. Tel ég að ég verði sannspár er á hólminn kemur, en ég spáði því að þau tvö sem mestu myndu tapa með dauða R-listans yrðu borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar. Sá síðarnefndi var reyndar ansi fyndinn í gær þegar hann kom í fjölmiðla eins og hinn veruleikafirrti vegna lítils fylgis Framsóknar í borginni og sagði framsóknarmenn oft hafa séð það svartara. Fátt varð þó um svör þegar spurt var um hvenær það hefði verið. Það mætti segja mér að það sé farið að fara um Alfreð innan um þjónana sína í glæsihýsi OR að Bæjarhálsi sem væntanlega verður langlífasti minnisvarði hins steindauða R-lista. Það eru flestir farnir að flýja hann.

Snæfellsjökull

Um síðustu helgi var ég fyrir sunnan og átti mjög góðar stundir þar. Var áhugavert að fara um borgina, hitta góða vini og eiga notalegt spjall um stjórnmál og margt fleira. Að morgni laugardags fór ég ásamt góðvini mínum, Gunnari Ragnari Jónssyni, í sumarferð Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Var ferðinni heitið á Snæfellsnesið. Var góður hópur fólks með í för. Sérstaklega hafði ég gaman af að spjalla við það eldra fólk sem var með í för og fara yfir ýmis ólík mál. Fararstjórar í ferðinni voru t.d. borgarfulltrúarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Kjartan Magnússon. Vorum við í þeirri rútu sem Kjartan var fararstjóri í. Var ánægjulegt að heyra lýsingar Kjartans á svæðinu en hann kynnti það sem fyrir augu bar á leiðinni með miklum glæsibrag. Var þetta mjög góður dagur og gleðilegt að fara þennan hring um Snæfellsnesið. Það er visst ævintýri að kynna sér þetta svæði og virða fyrir sér náttúrufegurðina þar. Að Arnarstapa var grillað og skemmt sér vel og spjallað um margt og mikið.

Fórum við svo að Gestastofu að Hellnum, þar sem er mjög athyglisvert og gott minjasafn. Þar kynnti Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður, okkur safnið og sögu svæðisins. Skoðuðum við svo safnið og var það mjög ánægjulegt, enda margt þar sem vekur áhuga sögufróðra. Að þessu loknu keyrðum við fyrir nesið og sérstaklega var ánægjulegt að keyra um byggðirnar þar, Ólafsvík, Hellissand og Grundarfjörð. Að því loknu var keyrt aftur til Reykjavíkur. Hef ég nokkrum sinnum áður farið um Snæfellsnesið. Eru reyndar fjögur ár síðan ég fór hringinn um nesið síðast en ég fór þá í leiðinni í heimsókn til ættingja minna í Stykkishólmi, en þar bjuggu tveir bræður mömmu og frændi minn, Árni Helgason, ennfremur, en hann og mamma eru systkinabörn. Hafði ég mjög gaman af þessari ferð og ég er ekki fjarri því að ég hafi hugleitt margt á þessari ferð, enda er Snæfellsnesið einstaklega fallegt og þar er mikil náttúrufegurð og vettvangur kyngimagnaðra atburða. Reyndar gerir Laxness því skondin skil í Kristnihaldinu og sr. Árni Þórarinsson lýsir fólkinu á svæðinu kostulega í ævisögu sinni.

Gunnar Ragnar og Stefán Fr. Stef.

Við komuna til Reykjavíkur héldum við Gunni í það að hafa fataskipti fyrir afmælishátíð SUS sem haldin var að laugardagskvöldinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Fórum við þangað saman og áttum við félagarnir mjög góða stund. Þar voru fluttar margar góðar ræður og farið var yfir sögulega punkta í merkri sögu SUS í 75 ár. Átti ég þar gott spjall við marga mæta félaga. Sérstaklega var gaman að heyra ræðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, og Vilhjálms Egilssonar ráðuneytisstjóra og fyrrum alþingismanns og formanns SUS. Óhætt er að segja að Gústaf Níelsson útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, sem var viðstaddur afmælishátíðina og var um tíma í stjórn SUS, hafi sett svip á þessa afmælishátíð en hann ávarpaði afmælishátíðina og kom með marga skemmtilega sögulega punkta. Áttum við gott spjall en við sátum við sama borð á kvöldverðinum. Gústaf er þekktur fyrir það að tjá skoðanir sínar óhikað og var ánægjulegt að ræða málin við hann. Þetta var góð og ánægjuleg helgi.

Cherie Booth Blair

Cherie Blair forsætisráðherrafrú Bretlands, er þessa dagana stödd hér á landi. Ávarpaði hún í gærmorgun heimsfund menningarráðherra úr röðum kvenna sem haldinn er í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands, sem fyrst kvenna í heiminum var kjörin forseti heimalands síns með lýðræðislegum hætti árið 1980. Kynnti Cherie þar skýrslu World Economic Forum (Women's Empowerment: Measuring the Global Gender Gap). Er Cherie kynnti skýrsluna kom fram þar að Ísland væri í öðru sæti hvað varðaði hlut kvenna í stjórnmálaákvörðunum. Erum við í þeim efnum aðeins á eftir Svíþjóð. Getum við vel við unað við þá staðreynd mála. Aðeins er ár síðan að Cherie kom síðast til landsins. Í ágústlok í fyrra kom hún til landsins og ávarpaði ráðstefnuna Konur, völd og lögin. Jafnframt kom hún til Akureyrar í þeirri heimsókn til landsins og opnaði listsýninguna Ferð að yfirborði jarðar, á verkum hinnar bresku Boyle-fjölskyldu, á Akureyrarvöku. Kemur hún aftur til Akureyrar í þessari Íslandsför sinni. Þó að ég og Cherie deilum ekki sömu pólitísku hugsjónum hef ég alltaf borið virðingu fyrir henni sem persónu. Leikur enginn vafi á því að hún á mikinn þátt í því hversu farsæll stjórnmálamaður eiginmaður hennar, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er. Að kvöldi síðastliðins sunnudags ræddi Eyrún Magnúsdóttir við Cherie í Kastljósinu. Bendi ég lesendum vefsins á að líta á það viðtal.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra

Í áratug hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, haft heimasíðu á netinu. Allan þann tíma hefur hann tjáð þar af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum íslenskra stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vefnum er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Eru þeir ekki margir íslensku stjórnmálamennirnir sem hafa á að skipa vef með skrifum í heilan áratug þar sem efnið er óbreytt og sígilt. Sama er hægt að segja um í því tilfelli að hann hefur skrifað allan tímann af krafti. Vefur hans er safn öflugra og vandaðra skrifa um málefni samtímans á hverjum tíma. Nú hefur Björn breytt eilítið forsíðu heimasíðu sinnar og breytt aðeins umfjölluninni og skrifar nú dagbókarfærslur í bloggformi og tekur fyrir málefnin þar með öðrum hætti auk pistlaskrifa sinna vikulega. Ég óska Birni til hamingju með þessa breytingu á vefnum. Það er nú sem ávallt fyrr ánægjulegt að fylgjast með skrifum hans.

Saga gærdagsins
1862 Akureyri fékk kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 286, en nú búa í bænum rúm 16.000 manns.
1948 Baldur Möller 34 ára lögfræðingur, varð skákmeistari Norðurlandanna, fyrstur allra Íslendinga.
1966 Hljómsveitin The Beatles, hélt seinustu tónleika sína, í San Francisco. Hljómsveitin hætti 1970.
1982 Sænska óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman lést úr krabbameini í London, 67 ára að aldri. Ingrid Bergman var ein frægasta leikkona 20. aldarinnar og hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum.
2000 Fyrsta sólarhringsverslun 10-11 opnuð, flestar verslanir 10-11 eru nú opnar allan sólarhringinn.

Saga dagsins
1720 Jón Vídalín biskup, lést á leið norður í Kaldadal - staðurinn hefur síðan heitið Biskupsbrekka.
1779 Hið íslenska lærdómsfélag var stofnað í Kaupmannahöfn - það var loks lagt niður árið 1796.
1935 Íslenska ríkið eignaðist Geysi í Haukadal - svæðið hafði þá verið í eigu útlendinga í rúm 10 ár.
1967 Borgarskálabruninn - vöruskemmur Eimskips við Borgartún brunnu, en í skemmunum voru þá þúsundir tonna af vörum. Um var að ræða mesta eignartjón í eldsvoða hérlendis, fram að þeim tíma.
1967 Thurgood Marshall verður hæstaréttardómari í Bandaríkjunum - fyrstur allra þeldökkra manna.

Snjallyrðið
Ég skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,
og blaðið það er krypplað, og ljósið er að deyja.
En þegar þú færð bréfið, þá veistu hvað ég vil,
og veist að ég er heima, og í náttkjól meira að segja.

Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf
til að sýna þér að ég er hvorki hrædd við þig né gleymin.
Til að segja, til að segja, til að segja að ég sef,
undir súðinni að norðan, ég er svo voðalega feimin.

Í guðsbænum þú verður að ganga ósköp hljótt,
og gæta vel að öllu, hvort nokkur fer um veginn.
Læðstu inn um hliðið þegar líða fer á nótt,
og læðstu upp að húsinu eldhúsdyramegin.

Beint á móti uppgöngunni eru mínar dyr,
elsku vinur hægt, hægt, svo stiginn ekki braki.
Og þó þú hafir aldrei, aldrei farið þetta fyrr,
þá finn ég að þú kemur, og hlusta bíð og vaki.

Gættu að því að strjúka ekki stafnum þínum við,
og stígðu létt til jarðar og mundu hvað ég segi.
Það iðka sjálfsagt margir þennan ævintýrasið,
sem aldrei geta hist þegar birta fer að degi.

Opnaðu svo hurðina hún er ekki læst,
hægt elsku vinur það er sofið bak við þilið.
Í myrkrinu, í myrkri geta margir draumar ræst,
og mér finnst við líka eiga það skilið.

Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér,
og gengur hægt um dyrnar, farðu helst úr skónum.
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér,
þei, þei, húsið er fullt af gömlum ljónum.

Það grunar engan neitt svona í allra fyrsta sinn,
og engum nema þér skal ég gefa blíðu mína.
Og þó að ég sé feimin, þá veistu vilja minn,
og veist að ég er heima, þín elsku hjartans Stína.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bréfið hennar Stínu)

Get ekki annað en birt þetta fallega ljóð, það á minningar í huga mínum og mér finnst lag Heimis Sindrasonar við ljóð meistara Davíðs undurfagurt. Enginn hefur sungið það betur að mínu mati en Herdís Ármannsdóttir úr Eyjafirðinum á plötunni Skref fyrir skref sem kom út árið 2001. Undurfagurt og tært. Þetta ljóð á stað í hjartanu á mér, það er alltaf einlægt og eitthvað svo sætt í gegn. Það er rétt eins og öll ljóð Davíðs Stefánssonar með einlægri tilfinningu sem skilar sér til þess sem þau lesa.