Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 ágúst 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi um sameiningarmálin, en kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér við Eyjafjörð eftir sex vikur. Nú hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna vegna kosningarinnar kynnt niðurstöður fjögurra vinnuhópa sinna. Koma þar fram mjög athyglisverðar tillögur. Fer ég yfir helstu niðurstöður þeirra og bendi lesendum á að kynna sér þær vel. Er framundan öflug umræða um kosti og galla sameiningar og það sem skiptir máli í þessari kosningu. Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla málsins. Á málinu eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur gallar eins og ávallt þegar um stórmál er að ræða. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina.

- í öðru lagi fjalla ég um þýsku þingkosningarnar sem verða eftir þrjár vikur. Eigast þar við sömu valdablokkir og jafnan áður. Ljóst er að mikil vatnaskil þurfa að eiga sér stað næstu þrjár vikurnar í þýskum stjórnmálum eigi Angelu Merkel að mistakast ætlunarverkið; að fella Schröder af valdastóli. Nú skilja rúm 10% að íhaldsmenn og krata í slagnum. Sigur Merkel er í sjónmáli. Hún talar af krafti, segir að án nýrrar stefnu og forystu sé framundan glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Hefur hún þegar valið lykilhóp sinn með í stjórn muni flokkurinn vinna kosningarnar. Hún græðir hiklaust á beittum tóni og skýrum valkosti með mannskapi og stefnu. Hún talar það mál sem Þjóðverjar skilja. Þeir finna dapra stöðu og svikin loforð vinstristjórnarinnar á eigin stöðu. Það er því rökréttast fyrir hægrimenn að nota staðreyndir efnahagslífsins og atvinnumálin sem sinn kosningagrunn.

- í þriðja lagi fjalla ég um sumarfundi þingflokka stjórnarflokkanna í vikunni þar sem fjárlagavinnan var rædd. Fór þingflokkur okkar sjálfstæðismanna yfir mörg málefni á fundi sínum (sem haldinn var á Ísafirði) eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og gengu eins og framsóknarmenn frá útgangspunktum frumvarpsins. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.


Pólitíska ræman
Gandhi

Á sunnudögum í sumar hef ég fjallað um kvikmyndir sem fjalla um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Er nú komið að þeirri síðustu sem ég nefni að sinni. Ein besta kvikmyndin sem fjallar um pólitík, lífsins baráttu fyrir bæði í senn mannlegri tilveru og hugsjónum er óskarsverðlaunamyndin Gandhi. Sannkallaður kvikmyndarisi sem greinir frá lífi og starfi Mahatma Gandhi og stjórnmálaþróuninni á Indlandi fyrir og eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1948. Rakinn er ferill þessarar frelsishetju Indverja allt frá því að hann byrjar stjórnmálaþáttöku sína, fátækur lögfræðingur í Afríku, og allt þar til að hann verður alþjóðleg friðarhetja fyrir mannúðarskoðanir sínar og friðsamar mótmælaaðferðir allt þar til fullnaðarsigur vinnst. Ben Kingsley fer á kostum í hlutverki frelsishetjunnar og er ótrúlega líkur fyrirmyndinni og er einstaklega heillandi í persónusköpun sinni, hann fékk enda óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan leiksigur sinn, hann hefur aldrei leikið betur á ferli sínum.

Kvikmyndin hreppti alls níu óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og einnig fyrir einstaklega góða óskarsverðlaunaleikstjórn breska leikstjórans Richards Attenborough, fyrir hið stórkostlega handrit sem vakti mikla athygli, fyrir einstaklega vandaða búninga og stórkostlega myndatöku. Þetta er íburðarmikil og einstaklega vönduð kvikmyndaframleiðsla með mörgum mjög stórbrotnum hópsenum sem veita mikla og heillandi innsýn í merkilega tíma í lífi indversku þjóðarinnar, en líka smærri, ljóðrænni myndir sem gefa ekki síst dýrmæta og fágæta innsýn í líf hins stórmerkilega indverska kennimanns sem féll fyrir morðingjahendi 30. janúar 1948, skömmu áður en draumur hans um sjálfstætt Indland rættist loks. Stórbrotin mynd, verðið endilega að sjá hana ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Saga dagsins
1818 Landsbókasafn Íslands stofnað - Jón Árnason varð fyrsti landsbókavörðurinn. Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru sameinuð í Þjóðarbókhlöðu Íslands við opnun hennar 1. desember 1994.
1910 Vígslubiskupar vígðir fyrsta sinni: Valdimar Briem að Skálholti og Geir Sæmundsson að Hólum.
1963 Dr. Martin Luther King flutti eftirminnilega ræðu á fjölmennum mótmælafundi í Washington.
1974 Ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar tók við völdum - stjórn Geirs sat í rúm fjögur ár.
1986 Bylgjan hóf útsendingar - varð fyrsta einkarekna útvarpsstöðin í kjölfar loka einokunar ríkisins.

Snjallyrðið
Ég vil fara... fara eitthvað
langt, langt í burt,
svo enginn geti að mér sótt,
enginn til mín spurt,
engin frétt, engin saga
eyrum mínum náð.
Ég vil aldrei troða akur,
sem aðrir hafa sáð.

Ég vil fara... fara þangað
sem ég þekki engan mann,
og engin ólög ráða,
og enginn boðorð kann -
hvíla á mjúkum mosa
við hið milda stjörnuljós,
með eilífðina eina
fyrir unnustu og vin.

Ég vil þangað, sem ég heyri
minn eigin andardrátt,
og allt er undrum vafið
og ævintýrablátt
og ég get innsta eðli mitt
eitt til vegar spurt.
Ég vil fara, fara eitthvað
langt, langt í burt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Ég vil fara)