Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 september 2005

Punktar dagsins
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Í gær tilkynntu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, formlega um framboð sín til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Það stefnir því í spennandi kosningu um varaformannsstólinn. Auk þeirra blasir við að Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og verðandi fjármálaráðherra, sækist eftir varaformennsku, en hann er leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hann og Þorgerður Katrín koma bæði úr Hafnarfirði og sama kjördæmi. Það er því alveg ljóst að fari Árni fram er þetta óneitanlega liður í valdabaráttu í kraganum. Það hafa allir séð stjörnu Þorgerðar Katrínar rísa nokkuð hratt í kjördæminu á síðustu árum. Hún kom flestum á óvart með því að verða fjórða í prófkjöri í Reykjaneskjördæmi árið 1999. Í sama prófkjöri sigraði Árni og varð leiðtogi kjördæmisins. Listinn hélt sér hvað varðaði fjögur efstu sætin í kosningunum 2003, eftir kjördæmabreytinguna og sami hópur leiddi listann í hinu nýja Suðvesturkjördæmi. Það fór ekki framhjá neinum að Þorgerður Katrín vildi þá prófkjör og ætlaði sér að sækja fram og komast ofar á lista. Hún hlaut svo að kosningunum loknum embætti menntamálaráðherra og hefur verið áberandi í stjórnmálum á þessu kjörtímabili.

En Þorgerður Katrín hefur ekki verið eina rísandi stjarnan úr kraganum, sem hefur skyggt á leiðtogann Árna úr Hafnarfirðinum að undanförnu. Þar hefur einnig komið til leiks hinn 35 ára gamli Bjarni Benediktsson sem var í fimmta sæti listans í kosningunum 2003 og kom nýr á þing mörgum að óvörum, en hann hafði fram að því lítið tekið þátt í starfi flokksins. Hann kemur af Engeyjarætt eins og fleiri mætir menn. Faðir hans er Benedikt Sveinsson hæstaréttarlögmaður, sem um tíma var stjórnarformaður Eimskips. Afabróðir Bjarna var Dr. Bjarni Benediktsson, einn farsælasti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á 20. öld og formaður flokksins í níu ár, 1961-1970. Frændur Bjarna eru t.d. Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Bjarni hefur á þessu kjörtímabili komið mjög sterkur til leiks. Hann tók við formennsku í allsherjarnefnd árið 2003 af Þorgerði Katrínu er hún varð menntamálaráðherra. Þar hefur hann verið mjög áberandi og kom t.d. mjög vel fram í hinu umdeilda fjölmiðlamáli í fyrra. Vakti hann mikla athygli fyrir glæsilega frammistöðu í fjölmiðlum og hefur síðan verið sífellt oftar nefndur sem leiðtogaefni flokksins á komandi árum. Nú er mjög rætt um það hvort hann gefi kost á sér til varaformennskunnar og hafi áhuga á frekari frama, rétt eins og Þorgerður Katrín. Því unir vart Árni.

Eins og ég lýsti yfir í gær mun ég styðja Kristján Þór í þessu varaformannskjöri. Hef ég þekkt hann til fjölda ára og unnið með honum í fjölda verkefna innan flokksins. Vil ég að reyndur maður með þekkingu á fjölbreyttum sviðum taki við varaformennskunni. Í mínum huga er Kristján Þór slíkur maður. Hann er fæddur og uppalinn í sjávarplássi, þekkir því tilveruna og hefur starfað að sjávarútvegi og komið nálægt sveitarstjórnarpólitík. Reynsla hans er mikil. Eins og hann lýsti yfir í gær vill hann taka að sér þetta verkefni. Hann hefur langan feril að baki sem talar sínu máli. Varaformennskan er laus og enginn á hefðarrétt á henni. Að mínu mati á Kristján Þór fullt erindi í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur verið þekktur fyrir pólitíska forystu, er fljótur að taka ákvarðanir, er metnaðarfullur fyrir hönd síns sveitarfélags og sinnir þeim verkefnum sem hann tekur að sér með metnað að leiðarljósi. Á ferli sínum í sveitarstjórnarpólitík hefur Kristján Þór öðlast mjög mikilvæga reynslu að mörgum þáttum mannlífsins. Er ég á þeirri skoðun að þekking hans á þessum málefnum eigi fullt erindi í forystusveitina og hann sé réttur maður í þetta embætti. Því er hárrétt hjá honum að gefa kost á sér til þessa verkefnis sem varaformennskan er.

Séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir

Fimmtudaginn 15. september nk. mun séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir sóknarprestur í Akureyrarkirkju, láta formlega af störfum sem prestur okkar í Akureyrarprestakalli. Á sunnudaginn mun hún kveðja sóknarbörn sín með kveðjumessu í Akureyrarkirkju. Jóna Lísa hefur gegnt prestsstörfum hér á Akureyri frá vorinu 1999 en var áður fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi. Á þeim sex árum sem hún hefur unnið hér í forystu safnaðarstarfsins hefur hún sýnt það og sannað, að mínu mati allavega og eflaust margra fleiri, að hún er bæði einlæg og trú sínum verkum. Jóna Lísa hefur leitt af miklum krafti námskeið þar sem fólk fær aðstoð við að vinna sig frá sorg og áföllum. Ennfremur hefur hún verið drifkraftur í Samhygð, sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Allir þeir sem kynna sér verk hennar í þeim málefnum og almennt varðandi samskipti við fólk vita að Jóna Lísa er ákveðin en um leið traust og hefur starfað með miklum sóma að þeim verkum sem skipta máli. Bók hennar, Mig mun ekkert bresta, er að mínu mati biblía þeirra sem þurfa að horfast í augu við sorg, en þá bók skrifaði hún eftir sviplegt lát manns hennar, Vignis Friðþjófssonar. Það er bók sem er öllum lexía að lesa. Einnig hefur hún ritað margt almennt um mörg málefni og haldið fjölda fyrirlestra.

Valnefnd sóknarnefndar Akureyrarprestakalls ákvað á fundi sínum í síðasta mánuði að mæla með sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni sóknarpresti í Ólafsvík, í stöðu sóknarprests við Akureyrarkirkju. Mun hann taka við prestsembætti í kirkjunni af sr. Jónu Lísu í næstu viku er hún hættir störfum. Sama dag mun Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, taka formlega við nýju embætti prests með áherslu á barna- og unglingastarf. Með þessu verða þrír prestar starfandi við Akureyrarkirkju, en þar starfar fyrir sr. Svavar Alfreð Jónsson, sem verið hefur prestur hér frá því að sr. Þórhallur Höskuldsson lést með sviplegum hætti fyrir áratug. Mikil þáttaskil fylgja brotthvarfi Jónu Lísu úr starfinu úr sókninni. Hún hefur verið áberandi í starfinu sem þar hefur verið og mikill og öflugur leiðtogi þess með Svavari Alfreð. Segja má með sanni ennfremur að störf hennar sem prests hér hafi markað þónokkur þáttaskil. Hún var fyrsta konan sem var starfandi sóknarprestur í Akureyrarkirkju og reyndar hér á staðnum almennt í langri sögu kirkju á Akureyri. Fjöldi góðra presta hafa leitt safnaðarstarfið hér og er hún svo sannarlega ekki síður litrík en forverar hennar. Þáttaskil verða nú hjá Jónu Lísu en hún hefur í hyggju að breyta til og dvelja á Spáni í vetur við ýmis verkefni.

Hvet ég öll sóknarbörn í Akureyrarprestakalli til að fara í kirkju á sunnudaginn í kveðjumessuna. Þar mun kór Akureyrarkirkju og stúlknakór kirkjunnar syngja undir stjórn Björns Steinars Sólbergssonar og Eyþórs Inga Jónssonar. Eftir messu verður svo boðið upp á kaffiveitingar í Safnaðarheimilinu. Vil ég nota tækifærið og þakka Jónu Lísu góð störf í þágu okkar hér í sókninni og jafnframt óska nýjum presti velfarnaðar í störfum sínum hér á Akureyri á næstu árum.

Angela Merkel

Rúm vika er í þýsku þingkosningarnar. Spenna virðist nú komin í kosningabaráttuna. Dregið hefur saman milli vinstri- og hægriblokkarinnar eftir sjónvarpseinvígið á sunnudag þar sem Angela Merkel og Gerhard Schröder tókust á um málefni kosningabaráttunnar og verk vinstristjórnarinnar seinustu sjö árin. Hefur fylgi Jafnaðarmannaflokksins aukist eilítið og ef úrslit kosninganna verða með þeim hætti sem nú sýnir geta hægriflokkarnir ekki myndað meirihlutastjórn. Því kæmi til stóra samsteypa (grosse koalition) sem er samstjórn hægriflokkanna og jafnaðarmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það yrðu því óneitanlega þáttaskil ef hún kæmi til nú. Yrði slík stjórn mynduð eftir þeim tölum sem kannanir sýna núna yrði Merkel kanslari engu að síður. Schröder kanslari, þarf meira fylgi til að haldast inni í leiknum og að bæta við sig um sex til sjö prósentustigum á lokasprettinum. Þannig að hann er enn fjarri því takmarki sínu að halda starfinu þriðja kjörtímabilið í röð. En það er ekki lengur eins fjarlægur möguleiki og var fyrir nokkrum vikum. Það getur vissulega allt gerst. Það stefnir því allt í spennandi kosningabaráttu á lokavikunni sem framundan er. Átakapólarnir eru allavega vel ljósir en svo gæti farið að þeir þyrftu að starfa saman eftir kosningarnar.

Viktor Yushchenko og Yulia Tymoshenko

Fyrir nokkrum mánuðum var barist af hörku í Úkraínu um völdin. Spennandi forsetakosningar höfðu farið fram og eftir þær var forsætisráðherrann Viktor Yanukovych, frambjóðandi ráðandi afla, úrskurðaður sigurvegari. Það sætti mótframbjóðandinn Viktor Yushchenko sem var forsætisráðherra landsins á árunum 1999-2001, sig ekki við og mótmælti harðlega ásamt stuðningsmönnum sínum á torginu í höfuðborginni Kænugarði. Endinn þekkja allir. Kosningarnar voru endurteknar og Yushchenko var kjörinn forseti með miklum yfirburðum. Einn helsti stuðningsmaður hans í þeim miklu átökum var hin baráttuglaða Yulia Tymoshenko. Í kjölfar valdatöku Yushchenko varð Yulia forsætisráðherra landsins. Þau voru mjög öflug saman í baráttunni fyrir sigri Yushchenko og Yuliu var launaður stuðningurinn með afgerandi hætti. En nú er friðurinn milli þeirra búinn. Í gær rak forsetinn ríkisstjórnina til að reyna að binda endi á deilur innan hennar. Þar hafa Yulia og Petro Porochjenko fyrrum formaður þjóðaröryggisráðs Úkraínu, deilt af krafti og mikil valdabarátta verið bak við tjöldin. Nú talar Yulia með þeim hætti að sælan milli hennar og forsetans sé á enda. Blasir við að hún fari fram á eigin vegum í þingkosningunum í mars á næsta ári. Ef svo verður mun staða forsetans veikjast verulega og mikil óvissa skapast í úkraínskum stjórnmálum.

Fáskrúðsfjarðargöng

Í dag var stór stund í sögu Austfjarða. Þá voru formlega tekin í notkun göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Er um mikla samgöngubót að ræða, en vegurinn um Vattarnesskriðurnar er svo sannarlega barn síns tíma. Með þessum þáttaskilum opnast ennfremur möguleikinn á sameiningu sveitarfélaga, en kosið verður um sameiningu t.d. Fjarðabyggðar og Austurbyggðar eftir tæpan mánuð. Ennfremur verður þetta ennfremur eitt atvinnusvæði. Álver Alcoa verður til eftir um tvö ár og því er ljóst að möguleikarnir eru miklir á þessu svæði, samhliða bæði nýjum atvinnutækifærum og ekki síður þessum góða samgöngukosti sem opnar ný og spennandi tengsl milli byggðanna fyrir austan. Hef ég oft farið austur á þessu ári og notið þess að kynna mér enn betur mannlífið þar og kynnast fólki á svæðinu. Það hefur verið mjög ánægjulegt, en ég er svosem ekki ókunnur Austfjörðunum, verandi ættaður frá Eskifirði að hluta og með góð tengsl í Fjarðabyggð. Vil ég nota tækifærið og óska Austfirðingum innilega til hamingju með þessi göng. Hef ég alla tíð verið mjög hlynntur þeim og er því einn af þeim sem fagna mjög með heimamönnum. Þetta er sannkallaður gleðidagur!

Davíð Oddsson

Eins og allir vita er Davíð að hætta í stjórnmálum og ætlar sér að fara í Seðlabankann fyrir vetrarbyrjun. Það eru mikil þáttaskil samhliða því, eins og sést hefur á skrifum mínum seinustu daga. Gat ekki annað en ort eina stutta og rólega vísu um það að hann færi í bankann.

Solla og Dabbi fallast faðma í
seðlabankahúsinu fagra
sitja brátt fundi saman í
musteri peninga dýrra

Saga dagsins
1208 Víðinesbardagi var háður í Hjaltadal í Skagafirði - í honum féllu 12 manns, t.d. Kolbeinn ungi.
1877 Þingeyrarkirkja vígð - kirkjan var talin eitt veglegasta hús sem reist var á Íslandi á sínum tíma.
1926 Sjónvarpsstöðin NBC, The National Broadcasting Corporation, var formlega stofnuð í New York.
1976 Mao Zedong formaður, leiðtogi kommúnistastjórnarinnar í Kína, deyr í Peking, 82 ára að aldri.
2001 Ahmed Shah Massoud leiðtogi Norðurbandalagsins, myrtur í Afganistan, var þá 48 ára að aldri.

Snjallyrðið
Ástin vill þér vera nær
augun mild og tær
ástin syngur rökkursöng
kvöldin köld og löng;
þú sem ert mér fjær.

Þrái aðeins eina þig
nóttin dimm kyssir mig,
rúmið kalt engin þú
ég og mín veika trú;
þú sem ert mér fjær.

Finn ekki leiðina heim
er orðinn einn af þeim
tilheyri rótlausri hjörð
með engar rætur í jörð.

Borgin með sín svörtu tjöld
vokir yfir gríma köld
tjörnin frosin tunglið grátt
tíminn býður enga sátt;
þú sem ert mér fjær.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Þú sem ert mér fjær)