Alli Gísla tekur við landsliðinu í handbolta
Akureyringurinn og KA-maðurinn Alfreð Gíslason var í gær formlega ráðinn til starfa sem landsliðsþjálfari Íslands í handbolta. Fagna ég þessari ákvörðun mjög. Alfreð er einn öflugasti handknattleiksmaður Íslands á 20. öld og varð íþróttamaður ársins 1989, á hátindi atvinnumannaferils síns. Alli Gísla hóf feril sinn hér heima á Akureyri með KA og spilaði þar til að hann hélt út.
Hann kom aftur heim er atvinnumannaferlinum erlendis lauk árið 1992 og varð þjálfari KA í handbolta og leiddi liðið til bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitils áður en hann hélt til Þýskalands í þjálfun. Ég tel það mikið gleðiefni að Alli Gísla taki við þjálfun landsliðsins og óska honum til hamingju með starfið.
Það er svo auðvitað okkur Akureyringum öllum mikið gleðiefni að okkar öflugasti maður í handboltanum komi nú aftur heim á klakann og taki við þessu stóra og ábyrgðarmikla verkefni.
<< Heim