Hvað er eftir af varnarsamningnum?
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hefur ritað bréf til George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Innihald bréfsins er skýrt: hvað tekur við í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna eftir 1. október? Þann dag munu umsvif Bandaríkjahers á Íslandi heyra sögunni til. Þáttaskil hafa orðið - um þau þáttaskil hef ég áður ritað um á þessum vef. Nú verða Íslendingar að fá skýr svör frá Bandaríkjunum og þeim sem með einhliða og með afskaplega ómerkilegum hætti slitu á mikilvægustu bönd þessa varnarsamnings. Það er eðlilegt að við spyrjum forseta Bandaríkjanna að því hvað sé nú orðið eftir af varnarsamningnum - með hvaða hætti þeir ætli að standa við skuldbindingar sínar. Nú tekur við vinna við frágang mála og eðlilegt að kanna hvort eitthvað sé orðið eftir í þessum varnarsamningi sem orð er á gerandi. Skýr svör verða að koma frá Washington um það með hvaða hætti þeir meta Ísland og samskipti landanna seinustu 55 árin - hvernig þeir meta varnarsamning landanna.
Þessi varnarsamningur er tvíhliða. Það er því algjörlega fyrir neðan allt þegar að einhver skrifstofublók í bandaríska utanríkisráðuneytinu hringir í Geir Hilmar Haarde, leiðtoga stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og jafnframt utanríkisráðherra og tilkynnir einhliða og allt að því kuldalega nöpur vinnubrögð sem binda enda á grunngildi varnarsamningsins. Það var enda svo að varnarviðræðurnar náðu aldrei neinu marktæku flugi á þeim þrem árum sem þær stóðu. Það er rétt að ég tel sem Valur Ingimundarson benti á að þær viðræður voru alla tíð sýndarviðræður af hálfu Bandaríkjanna. Það var ekkert sem stóð eftir þær nema þá að reyna að hugga okkur og reyna að segja okkur á eins fjarlæglega kuldalegan hátt að við ættum bara að sætta okkur við einhliða rof á tvíhliða varnarsamningi. Mér fannst Valur Ingimundarson tala um þetta mál af festu og með mjög góðum hætti í viðtölum sem fréttamenn NFS og Sjónvarpsins áttu við hann. Valur þekkir málið vel, hefur ritað um það margar vandaðar bækur og hefur mikla þekkingu á stöðunni.
Það er eðlilegt að íslenska ríkisstjórnin spyrji bandarísk yfirvöld að því hvað sé eftir af varnarsamningnum í þeirra augum. Það má vel vera að Íslendingar ætlist til of mikils af Bandaríkjunum. En nú er mikilvægt að skýr svör komi. Mér finnst að varnarsamningurinn heyri algjörlega sögunni til ef þetta verður framhald mála sem við blasi og eðlilegt að endalok þessa varnarsamnings séu formlega staðfest sé þetta það sem á að verða túlkun samningsins sem við okkur blasir. Davíð Oddsson talaði af festu um málið fyrir þrem árum og ég hef alla tíð verið mjög sammála honum. Fari orrustuþoturnar og björgunarþyrlurnar er von að spurt sé: hvað varð um skuldbindinguna - hvað varð um grunngildi varnarsamningsins frá 1951. Mér finnst það eiginlega móðgun við Íslendinga að tala um að Bandaríkin ætli að standi við varnarsamninginn með því að færa allt hér á brott og halda að með því sé staða mála viðunandi. Það er það ekki. Það er þá eðlilegast að Bandaríkin tali hreint út um hvers þeir meta þennan 55 ára gamla varnarsamning og tengsl þjóðanna.
Mér fannst vinnubrögð bandarískra stjórnvalda með öllu óviðunandi af helstu bandalags- og vinaþjóð okkar að ræða. Við þurfum þá alvarlega að íhuga hvernig samskiptin eru metin ef þetta eiga að teljast vinaleg samskipti milli tveggja þjóða sem eiga gagnkvæm og virðuleg samskipti. Það hefði verið algjört lágmark að fulltrúar okkar hefðu verið kallaðir til Washington og leitað leiða að tilkynna þessi endalok varnarliðsins á Íslandi með sameiginlegum hætti. Þess í stað er eitt símtal og ein skilaboð - ein endalok á tvíhliða varnarsamningi. Þetta er óviðunandi að mínu mati. Ég verð að viðurkenna að vinnubrögð Bandaríkjastjórnar komu mér á óvart, enda taldi að einhliða vinnubrögðin árið 2003 myndu leiða til þess að yrði tekin einhver ákvörðun um brotthvarf hersins yrði það gert sem samkomulag og reynt að landa málinu svo báðir aðilar færu frá því sáttir. Þessi vinnubrögð eru því afskaplega einfaldlega að mínu mati fyrir neðan allar hellur. Þetta er svona eins og að senda maka sínum SMS með skilaboðunum: "Hæ elskan þetta er búið, fann aðra - eigum við ekki samt að vera vinir áfram."
Ég ætla að vona að Bandaríkjastjórn ljái máls á því að ljúka þessum tengslum með virðingu fyrir okkur að leiðarljósi sé þeim ekki alvara að standa við skuldbindingar sínar við okkur. Það ætti að vera öllum ljóst að þessu er í raun lokið - herinn og öll umsvif hans eiga að fara í haust og með því taka við þáttaskil. Fjöldaatvinnuleysi er framundan á Suðurnesjum sé ekkert að gert og mikilvægt er að bregðast við því að björgunarþyrlurnar fari á brott. En framundan tekur við spurningin: hvað er í stöðunni. Þetta er enginn heimsendir fyrir okkur svosem - Íslendingar hafa verið þekktir fyrir að komast í gegnum þrengingar með bros á vör og leysa málin. Það gerist í þessu máli sem öðrum. Að mínu mati þarf að efla Landhelgisgæsluna verulega til að standa undir björgunarhlutverkinu. Nú liggur því á að kaupa nýjar þyrlur og bregðast við atvinnuástandinu á Suðurnesjum, sem er grafalvarlegt svo ekki fastar að orði kveðið.
Það er engin furða að forsætisráðherra sendi forseta Bandaríkjanna bréf og spyrji að því hvað sé eftir af varnarsamningnum. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Bandaríkjamenn verða að veita sýnilegar varnir hérlendis, ella er varnarsamningurinn frá árinu 1951 einskis virði og vart annars úrkosta en að líta í aðrar áttir. Það verður fróðlegt að sjá svar forseta Bandaríkjanna við bréfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Með því svari er betur hægt að gera sér grein fyrir stöðunni og því hvað sé eftir af varnarsamningnum. Í dag samþykkti stjórn SUS eftirfarandi ályktun sem að mínu mati er mjög góð og tekur vel á málinu og samtvinnar vel þær skoðanir sem ég tjáði í pistli á vef SUS í gær:
Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skorar á íslensk stjórnvöld að hvika hvergi frá þeirri stefnu sinni að tryggja varnir Íslands, þrátt fyrir einhliða breytingar af hálfu Bandaríkjastjórnar á varnarsamstarfi ríkjanna. Sú ákvörðun stjórnvalda í Washington að fjarlægja fjórar herþotur af Miðnesheiði hefur að mati SUS engin grundvallaráhrif á öryggishagsmuni Íslands.
SUS treystir því að viðræður Íslands og Bandaríkjanna um breytingar á farsælum varnarsamningi ríkjanna frá 1951 snúist áfram um að tryggja raunverulegar varnir landsins í ljósi breyttra aðstæðna á alþjóðavettvangi. Íslendingar hljóta fyrst og fremst að treysta á raunverulegar og trúverðugar varnir, þó svo að sýnilegar og táknrænar varnir hafi vissulega ákveðið gildi. Skýr og klár skuldbinding af hálfu Bandaríkjanna um að verja Ísland á hættutímum er og verður áfram besta tryggingin fyrir öryggi landsins.
Um áratugaskeið stafaði Íslendingum veruleg ógn af útþenslustefnu Sovétríkjanna og miklum hernaðarmætti þeirra á norðurslóð. Helsta vörn Íslands var aðildin að NATO. Í Varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 fólst enn frekari vernd gegn þessari vá. Ógnin af hernaðarumsvifum Sovétríkjanna var sýnileg, raunveruleg og sífellt aðsteðjandi. Á þessum tíma gegndu orrustuþotur og margvíslegur annar viðbúnaður varnarliðsins lykilhlutverki fyrir varnir Íslands. Það er fagnaðarefni að Íslendingum stafar ekki lengur ógn af Sovétríkjunum, þeim ríkjum sem þau mynduðu eða öðrum þjóðum í okkar heimshluta.
Aldrei má þó horfa framhjá því að mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að standa vörð um öryggi og frelsi þeirra sem dvelja á Íslandi. Við Íslendingar höfum sem betur fer aldrei þurft að starfrækja her og vonandi mun aldrei koma til þess óyndisúrræðis. Það þýðir aftur á móti að við þurfum að gera annars konar ráðstafanir til að tryggja lágmarksvarnir landsins. Að mati ungra sjálfstæðismanna verður það best gert með áframhaldandi veru Íslands í NATO, ásamt nánu öryggis- og varnarsamstarfi við Bandaríkin og aðrar nágrannaþjóðir sem tekur mið af þeim hættum sem helst gætu steðjað að Íslendingum nú og í náinni framtíð.
Nú er bara að bíða svars frá Washington - svars um það hvað Bandaríkjamenn vilja gera í stöðunni og hvort eitthvað sé eftir af þeim tvíhliða varnarsamningi sem hefur verið í gildi í 55 ár, allt frá árinu 1951. Ég er sammála formönnum stjórnarflokkanna í því að hér verða að vera sýnilegar varnir til marks um að þessi varnarsamningur sé enn til staðar - við verðum að hafa einhver sýnileg merki þess að hann sé ekki bara orðin tóm. Hversu mikil þáttaskilin verða í haust ræðst því að mínu mati mjög mikið óneitanlega af svarinu sem kemur úr Hvíta húsinu á næstu dögum.
Saga dagsins
1917 Tíminn, flokkspólitískt blað Framsóknarflokksins, kom út í fyrsta skipti - Tíminn kom út allt til ársins 1996, er það sameinaðist Degi.
1953 Leikarinn Gary Cooper hlaut óskarinn fyrir meistaralega túlkun sína á Will Kane í kvikmyndinni High Noon. Cooper hlaut verðlaunin áður fyrir leik sinn í myndinni Sergeant York árið 1942. Cooper var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum, t.d. í The Pride of the Yankees og Meet John Doe. Cooper hlaut heiðursverðlaun kvikmyndaakademíunnar í apríl 1961 fyrir æviframlag sitt til kvikmynda. Hann lést úr krabbameini rúmum mánuði síðar.
1987 Beinar kosningar um prestsembætti voru afnumdar með lögum.
1988 Fyrsta glasabarnið fæddist hérlendis nákvæmlega 10 árum eftir að fyrsta barnið fæddist á heimsvísu með slíkum hætti.
2001 Kosið var um það í beinni atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um framtíðarskipulag flugvallar í Vatnsmýrinni og um skipulagslegt byggingarfyrirkomulag alls svæðisins - mjög dræm þátttaka var í kosningunni. Andstæðingar flugvallarins náðu þó naumlega sigri kosningunni. Úrslitin breyttu þó litlu, enda er enn tekist á af krafti um málið. Forsendur flugvallarmála eru og verða átakamál að óbreyttu.
Snjallyrðið
A week is a long time in politics.
Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands (1916-1995)
<< Heim