Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 mars 2006

Valgerður fer í fýlu við Styrmi

Valgerður Sverrisdóttir

Það var merkilegt að lesa vef Valgerðar Sverrisdóttur í gær. Þar lét hún Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins, fá það óþvegið í kjölfar þess að hann skrifaði í staksteinum á þá leið að gera verði þá kröfu til ráðherra að þeir hafi lágmarksþekkingu á þeim málaflokki sem þeim sé trúað fyrir. Greinilegt er að Valgerður finnst að vegið sé að sér eftir kostulegt tal hennar um að taka upp Evru en ganga ekki í ESB. Eins og flestallir hafa sagt seinustu daga einkenndist það tal ráðherrans af þekkingarleysi og var með öllu óraunhæft. Það er því varla undrunarefni að ritstjóri Morgunblaðsins tali með þeim hætti og í raun taki undir það sem fyrr hafði verið sagt, t.d. af fræðimönnum og fólki með þekkingu í þessum efnum. Afstaða þeirra kom skýrt fram og leiddi auðvitað til skrifanna í Morgunblaðinu.

Í fyrrnefndum pistli segist Valgerður hafa átt stormasöm samskipti við ritstjórann og lýsir einkafundi þeirra fyrir nokkrum árum. Segist hún telja skýringuna á þeirri óvild sem hún telur ritstjóra Morgunblaðsins bera í sinn garð helst vera þá að hann telji sig ekki sýna honum sæmandi virðingu með því að mæta ekki á einkafundi með honum með reglubundnum hætti. Hún sé hins vegar ekki sú manngerð sem láti þennan karl (eins og hún orðar það) vaða yfir sig ítrekað með niðurlægjandi ummælum og muni hún áfram svara fyrir sig. Harkaleg skrif og að svo mörgu leyti í takt við Valgerði, sem er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Annars hefur þetta ekki verið góð vika fyrir Valgerði og margir sennilega hugsi eftir vikuna hvort hún sé alltaf svona örg þegar á móti blæs.

Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Þá hlaut flokkurinn aðeins Valgerði kjörna og Framsókn missti fyrsta þingmann Norðurlandskjördæmis eystra í fyrsta skiptið til Sjálfstæðisflokksins. Þetta voru seinustu kosningarnar í gamla kjördæminu og tók Valgerður við af Guðmundi Bjarnasyni sem þá fór í Íbúðalánasjóð. Valgerður var mjög skapvond þessa kosninganótt og sagði í viðtali við Gísla Sigurgeirsson eitthvað á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki gott af því að fá svona góða útkomu sem þá væri og ætti enga innistæðu fyrir því. Var hún mjög þung á brá og skaut í allar áttir svo frægt varð.

Í þingkosningunum 2003 var hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Henni tókst að klúðra málum austur í Mývatnssveit svo eftir var tekið og Mývetningar hefðu á orði að Valgerður myndi sennilega ekki sjást þar fyrr en færi að styttast í næstu kosningar. Margt fleira mætti telja t.d. útboð við viðgerðir á varðskipunum sem sliguðu mjög Slippinn. En það er ekki pláss til að telja allt upp sem fólk talar um hér. En nú er spurning hvernig Framsóknarflokknum gengur í Norðausturkjördæmi að ári. Ef marka má kannanir hefur flokkurinn tapað miklu fylgi og sér sennilega ekki fyrir endann á því.

Það er því skiljanlegt að Valgerður sé pirruð. Hatur hennar og ergelsi í garð ritstjóra Morgunblaðsins vakti athygli mína og pistlaskrifin voru harkaleg og greinileg fýla sem þar kom fram í garð ritstjórans. Það er eins og það er. Sennilega er ekki furða að forystumenn Framsóknarflokksins séu í fýlu eins og staðan er. Enn undarlegra er að þeir fari í fýlu við þá sem reyna að benda þeim á villur síns vegar. En svona er Valgerður bara og stíll hennar kemur engum á óvart sem hana þekkja hér um slóðir. En það er greinilegt að þetta var ekki vikan hennar Valgerðar. Það blasir alveg við. Enda ekki gott fyrir hana að hafa fengið bæði samstarfsflokkinn og helstu Evrópuspekingana á móti sér með svo undraverðum og skjótum hætti.