Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 maí 2006

15 ára fermingarafmæli

Dalvíkurkirkja

Í dag eru 15 ár liðin frá fermingu minni í Dalvíkurkirkju. Það var sr. Jón Helgi Þórarinsson núv. prestur í Langholtskirkju, sem fermdi. Ég á mjög góðar minningar um þennan dag. Það var mikil veðurblíða og á heimili okkar, sem þá var á Dalvík, var fjölmenn og mjög eftirminnileg fermingarveisla. Veislan var sérstaklega eftirminnileg vegna þess að Hanna systir var þá kasólétt að tvíburunum sínum en var samt sem áður á fullu í verkunum í undirbúningnum og að skipuleggja veisluna. Ellefu dögum eftir veisluna fæddi hún þær Andreu og Berglind - það er því stutt í fimmtán ára afmæli stelpnanna og því verður fagnað með flottum hætti.

19. maí 1991 var að mörgu leyti minn dagur og mér líkaði vel sú athygli. Ég horfði á fermingarmyndina mína inni í stofu rétt áðan og hugsaði til baka til dagsins. Mörgum finnst fermingarmyndin sín hörmung er frá líður. Ólíkt flestum finnst mér fermingarmyndin af mér flott og er stoltur af því að hafa valið mér sígild fermingarföt og vera sígildur í tískunni - myndin er því mjög klassísk af mér. Fór ég yfir myndirnar úr veislunni áðan og var ánægjulegt að sjá þar góðar myndir af ættingjum og vinum sem hafa kvatt þennan heim. Þetta var alveg frábær dagur.

Planað er fermingarmót okkar sem fermdust þennan dag í júní og verður gaman að hitta félaga sem maður hefur ekki hitt suma hverja til fjölda ára og aðra sem maður er í góðum tengslum við enn í dag. Það verður fjör á Dalvík um miðjan júnímánuð og vonandi líflegur hittingur hjá 77 árgangnum hressilega. :D