Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 maí 2006

Meirihlutamyndun á Akureyri

Akureyri

Í gær hófust meirihlutaviðræður fyrrum minnihlutaflokka í bæjarstjórn Akureyrar: Samfylkingar, Vinstri grænna og Lista fólksins. Þá settust bæjarfulltrúar framboðanna þriggja niður og fóru yfir stöðu mála. Það gerðu þeir ennfremur í dag. Í kjölfar þessara viðræðna ákvað Samfylkingin að slíta viðræðunum. Það kom mér vissulega ekkert á óvart í kjölfar falls meirihlutans um helgina að þessi öfl færu að ræða saman, þó að ég hefði alla tíð verið viss um það að þær myndu sigla í strand. Fyrir því er auðvitað ein ástæða. Mér þótti alltaf mjög fjarstæðukennt að þau tvö öfl sem bættu við sig mönnum í kosningunum myndu fara að vinna í meirihluta upp á náð og miskunn Odds Helga Halldórssonar. Framboð hans, Listi fólksins, tapaði umtalsverðu fylgi og einum manni í kosningunum. Hefði þessi meirihluti verið myndaður hefði hann haft líf meirihlutans í höndum sér og blóðmjólkað oddastöðu sína mjög kröftuglega.

Það er því engin tíðindi fyrir mig að Samfylking kasti þessum kosti fyrir borð og horfi aftur í áttina til okkar í Sjálfstæðisflokknum. Í aðdraganda kosninganna og að kvöldi kjördags ræddu leiðtogar flokkanna um möguleikana á samstarfi þeirra. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa mjög sterkt umboð til að ræða meirihlutamyndun og vinna saman á þessu nýja kjörtímabili. Þetta eru stærstu pólitísku öflin í bænum og eru með sjö bæjarfulltrúa af ellefu. Það deilir því enginn um það að yrði slíkur meirihluti myndaður yrði hann verulega sterkur. Það er því vissulega mjög í anda kosningaúrslitanna að þessi kostur sé sá sem líklegastur er til árangurs. Eins og ég hef bent á hefur þriggja flokka meirihluti eða stærri ekki verið myndaður á Akureyri frá árinu 1982 og af mjög augljósum ástæðum. Það er enda alltaf erfiðara að þoka góðum málum áfram í margra framboða meirihluta en tveggja flokka öflugum meirihluta.

Nú er því staðan sú að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ræðast við um meirihlutamyndun. Hvort að þær viðræður skili árangri og góðum sjö manna meirihluta skal ósagt látið. Að mörgu leyti tel ég þetta vænlegasta kostinn og í raun þann sem mest ómar tilfinningu bæjarbúa fyrir því hverjir skuli vera við völd. Það deilir enginn um það að Framsóknarflokkurinn og Listi fólksins töpuðu mjög í þessum kosningum og því afskaplega ósennilegt að þeir verði í meirihluta á kjörtímabilinu. Væntanlega mun krafturinn í Framsóknarflokknum á þessu tímabili fara í innri uppstokkun og endurreisn grunnstykkis flokksins. En nú halda meirihlutaviðræður áfram og við fylgjumst öll hér á Akureyri með þeim af nokkrum áhuga.