Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 maí 2006

Nýr meirihluti myndaður í Reykjavík

Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa myndað meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður borgarstjóri í Reykjavík og mun taka við embætti af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þann 15. júní nk. á fyrsti fundi nýrrar borgarstjórnar Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Reykjavíkurborgar sem tveggja flokka meirihluti er myndaður í borgarstjórn. Með þessu er endi bundinn á tólf ára valdaferil félagshyggjuflokkanna í borginni í nafni R-listans. Hann bauð vissulega ekki fram í kosningunum og flokkarnir sem að honum stóðu náðu ekki meirihluta saman og því var Sjálfstæðisflokkurinn í oddastöðu. Mun Björn Ingi Hrafnsson leiðtogi Framsóknarflokksins, verða formaður borgarráðs. Er ánægjuefni að meirihluti hafi nú verið myndaður í borginni og sérstaklega hljótum við sjálfstæðismenn að fagna því að leiða borgarmálin að nýju eftir langt hlé.

Vilhjálmur Þ. hefur verið borgarfulltrúi í 24 ár, eða allt frá árinu 1982 og gjörþekkir því borgarmálin. Hann hefur leitt borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2003 er Björn Bjarnason varð dómsmálaráðherra og vann góðan sigur í prófkjöri flokksins í nóvemberbyrjun 2005 - hlaut þar gott umboð. Vilhjálmur stýrði á tólf ára valdaferli flokksins, 1982-1994, mjög öflugum nefndum og verkefnum og hefur alla tíð verið áberandi í borgarmálunum. Það er mjög gleðilegt að hann verði nú borgarstjóri í Reykjavík og er svo sannarlega ástæða til að óska Vilhjálmi Þ. til hamingju með þessa farsælu niðurstöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Það var verkefni hans að stýra meirihlutamyndun, enda vissu allir að ekki yrði R-listadraugurinn endurvakinn að þessu loknu og lítill áhugi á því. Nú er því litið í aðrar áttir og myndaður traustur og öflugur meirihluti sem leggur til atlögu við verkefnin og gerir góða borg enn betri.

Ég vil óska góðum félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík innilega til hamingju með að vera nú loks aftur komin í forystu borgarmálanna og vona að þau vinni af krafti fyrir því að breyta borginni í það forystusveitarfélag sem hún á ávallt að vera - en hefur ekki verið í stjórnartíð vinstriflokkanna. Það er gleðiefni að vinstristjórn í borginni heyrir nú sögunni til. Það verður verkefni Vilhjálms Þ. og Sjálfstæðisflokksins að leiða borgina inn í nýja tíma. Ég mun fylgjast með þeim af miklum áhuga að því að vinna af krafti í þágu borgarbúa.