Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 maí 2006

Björn Ingi og Framsókn að fara á taugum

Björn Ingi

Nú þegar að átta dagar eru til sveitarstjórnarkosninga hefur loksins birst ný könnun á stöðunni í borginni. 20 dagar eru liðnir frá því að síðast birtist könnun þar en nú hefur Fréttablaðið birt nýja. Megintíðindi hennar eru að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með tæp 50% og átta menn inni. Samfylkingin dalar á milli kannana og mælist með tæp 30% - vekur athygli að flokkurinn fari undir 30% múrinn fræga sem þeir hafa oft miðað við sem sálfræðilega vont að fara undir. VG mælist með tæp 10%, Frjálslyndir eru með 7,9% og Framsókn mælist með tæp 4%. Skv. þessu hlyti Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta, eins og fyrr segir. Samfylking hlyti 5 borgarfulltrúa og VG og Frjálslyndir 1. Mikla athygli vekur að Frjálslyndi flokkurinn mælist í fyrsta skipti í skoðanakönnun með borgarfulltrúa, en þeir höfðu t.d. aldrei fulltrúa inni í könnunum fyrir kosningarnar 2002.

Það er ánægjulegt að sjá sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins - vonandi mun flokkurinn vinna góðan sigur eftir viku. Þetta er hvatning fyrir flokksmenn í borginni að sækja góðan sigur. Það sem vekur mesta athygli mína er auðvitað það að Samfylkingin er með fimmta mann sinn mjög veikan inni og hlýtur þessi staða að vera þeim mikið áhyggjuefni. Það er gott að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn er með tæp 50% og nokkuð örugga átta menn. Allavega er Samfylkingin með sinn seinasta mann mun tæpari en áttunda mann okkar. Merkilegt að sjá að Framsóknarflokkurinn er virkilega að syngja sitt síðasta í borginni og hefur engu marktæku bætt við sig. Ég er farinn að trúa því og treysta að Framsókn þurrkist út þar. Slíkt mun aðeins styrkja Sjálfstæðisflokkinn í þessari stöðu eins og allir sjá. VG virðist ekki vera í þeim krafti sem margir töldu að yrði og merkilegt er að sjá Ólaf F. inni þarna.

Í kvöldfréttum NFS var rætt við Björn Inga Hrafnsson. Nú þegar að átta dagar eru til kosninga virðist mjög fjarlægur möguleiki á því að hann nái kjöri í borgarstjórn. Hann hefur aldrei í kosningabaráttunni mælst með nægt fylgi til að ná inn og virðast vonir hans um kjör í borgarstjórn vera að hverfa. Það sást enda vel á honum í viðtalinu í kvöld að flokkurinn er að fara á taugum í borginni - skal það engan undra. Sagði hann þar að verði niðurstaða mála með þessum hætti muni það hafa alvarleg áhrif á ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þeir vilji ekki taka á sig óvinsældir einir, er haft eftir honum í þessu viðtalinu. Þóttu mér þetta merkileg orð og til vitnis um það að framsóknarmenn eru dauðhræddir um sögulegt tap, ekki bara í höfuðborginni heldur um allt land. Það verða altént mjög söguleg tíðindi ef Framsókn á engan fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur og missir öll völd sín þar.

Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík og forystumaður hans eru að fara á taugum nú þegar stefnir í valdaskipti í borginni og hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt, enda er flokkurinn við það að missa þann mikla og allt að því öfluga valdasess sem vinstriflokkarnir tryggðu honum til fjölda ára, enda sat Alfreð Þorsteinsson í öndvegi í OR og lykilnefndum, t.d. borgarráði, í yfir áratug í skjóli þeirra. Nú eru þeir dagar liðnir og dugar þeim ekki að kaupa atkvæðin með flenniauglýsingum. Þetta er auðvitað erfið staða fyrir þau og ekki virðist fortíð Alfreðs ætla að hjálpa þeim heldur í þessari baráttu. Það má velta því fyrir sér hvernig ástand verði í Framsóknarflokknum fari þar allt á versta veg eftir viku. Munu óbreyttir flokksmenn telja afhroð, ef af yrði, vænlegt til að bera inn í þingkosningar? Hvert myndu þeir leita eftir skýringum?

Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn á við mikinn innanhússvanda að stríða og þar eru margir ósáttir undir pólitískri leiðsögn Halldórs Ásgrímssonar, sem leitt hefur flokkinn í tólf ár. Fannst mér merkilegt að Björn Ingi talar um að Framsókn geti ekki sætt sig við að sjálfstæðismenn séu að vinna gegn flokknum og tala gegn honum. Finnst mér að hann ætti að tala varlega. Í síðustu þingkosningum töluðu margir framsóknarmenn með stjórnarandstöðubrag gegn Sjálfstæðisflokknum. Hæst bar þetta að mínu mati einmitt hér í Norðausturkjördæmi þar sem að ungliðarnir Dagný og Birkir Jón notuðu öll möguleg sóknarfæri til að ráðast að Tómasi Inga Olrich þáv. menntamálaráðherra, vegna ýmissa mála. Það fór ekki framhjá neinum t.d. á kosningafundum hér í kjördæminu þá að hart var sótt gegn okkur sjálfstæðismönnum og ekkert síður af framsóknarmönnum en öðrum andstæðingum okkar.

Framsóknarflokkurinn er hver annar andstæðingur okkar í pólitískri baráttu þessara lokavikna kosningabaráttu. Í kosningabaráttu er hver flokkur að berjast fyrir styrkleika sínum - flokkar ganga óbundnir til kosninga og sækjast eftir umboði á eigin vegum. Ég veit ekki af hverju við ættum eitthvað sérstaklega að verja Framsóknarflokkinn og bera hann um á himinskautum þessa daga en aðra. Það er alveg ljóst að kjósendur eru um allt land að fella dóm yfir Framsóknarflokknum og hann á við erfiða stöðu að glíma. Ég tel að Björn Ingi ætti að hugleiða það hvort að vandi flokksins sé innbyrðis en ekki búinn til af öðrum. Það eru allavega margir öflugir sveitarstjórnarmenn innan flokksins um land allt sem horfa til forystunnar með að finna sökudólg þessa vanda flokksins.

Það má líka velta því fyrir sér hvað gerist í flokknum verði þessi úrslit að veruleika. Verður byltingarástand innan flokksins áberandi eftir þessi mögulegu úrslit? Við höfum séð stöðuna í breska Verkamannaflokknum og hljótum að hugleiða hvort að Framsóknarflokkurinn og leiðtogi hans þurfi að fara í gegnum slíka innbyrðis krísu í skugga pólitísks áfalls.