Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 júní 2006

Er Halldór Ásgrímsson að hætta í stjórnmálum?

Halldór Ásgrímsson

Eins og flestir vita beið Framsóknarflokkurinn verulegan ósigur í sveitarstjórnarkosningum í síðasta mánuði. Síðan hefur verið mikil umræða um það hvort og þá hvaða breytingar verði í kjölfarið innan flokksins. Sá orðrómur gengur nú að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafi í hyggju að hætta í stjórnmálum á næstu dögum og láta af formennsku í flokknum á miðstjórnarfundi sem boðaður hefur verið á föstudag. Mikla athygli vakti fyrr í vikunni þegar að landsstjórn flokksins ákvað að boða til þessa miðstjórnarfundar og mikið talað um stöðu flokksins. Fyrst í stað var aðeins talið að fundurinn yrði vettvangur umræðu um úrslit kosninganna og hvað ætti að gera til að breyta vondri stöðu flokksins í skoðanakönnunum. Ef marka má fréttir nú bendir hinsvegar allt til þess að á þessum fundi verði forystuskipti í Framsóknarflokknum og upphaf sóknar fyrir alþingiskosningarnar á næsta ári.

Á miðstjórnarfundi er hægt að kjósa formann losni embættið á sama tímapunkti. Það gerðist síðast árið 1979. Þá ákvað Ólafur Jóhannesson þáv. forsætisráðherra, að láta af formennsku eftir ellefu ára formannsferil og söðla um. Ólafur hætti þó ekki í stjórnmálum við það, en hann varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens 1980-1983 og sat á þingi allt til dauðadags árið 1984. Steingrímur Hermannsson, sem þá var ekki varaformaður Framsóknarflokksins, gaf kost á sér til formennsku er þessi ákvörðun Ólafs lá fyrir og hlaut afgerandi umboð til forystu. Um hann náðist afgerandi sátt og hann naut mikils stuðnings innan flokksins á fimmtán ára formannsferli sínum. Það var mat Ólafs á þeim tíma, eftir mikið tap flokksins í þingkosningunum 1978, að flokkurinn þyrfti á nýrri og ferskri forystu að halda og Steingrímur, sem var fulltrúi annarrar kynslóðar, var valinn til forystustarfa - hann var þá ráðherra í stjórn Ólafs.

Það eru auðvitað mikil tíðindi framundan í stjórnmálum ef það er rétt sem talað er um nú að Halldór Ásgrímsson sé að víkja úr stjórnmálum. Halldór hefur verið lykilmaður í forystu Framsóknarflokksins í rúmlega þrjá áratugi. Afi hans og alnafni hafði verið þingmaður flokksins á árum áður. Halldór naut þess auðvitað að hafa styrkan bakgrunn í fjölskyldufyrirtæki föður síns og var studdur til verka innan flokksins í Austurlandskjördæmi. Hann varð þriðji á framboðslista flokksins í kjördæminu árið 1974. Þá vann flokkurinn sögulegan sigur undir forystu Vilhjálms Hjálmarssonar og komst Halldór á þing. Í kosningunum 1978 galt flokkurinn afhroð í vinstribylgjunni í kosningum og hann missti þingsæti sitt. Hann var utan þings í eitt og hálft ár en komst aftur á þing í hinum sögufrægu desemberkosningum árið 1979 og hefur setið á þingi alla tíð síðan. Halldór varð varaformaður flokksins sumarið 1980 er Einar Ágústsson hætti í stjórnmálum.

Halldór varð sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar vorið 1983 og gegndi því embætti í átta ár, allt til ársins 1991. Árin 1988-1989 var hann ennfremur dóms- og kirkjumálaráðherra. Flokkurinn missti völdin eftir þingkosningarnar 1991, en þá hafði hann verið í stjórn nær samfleytt í 13 ár. Halldór varð formaður Framsóknarflokksins í aprílmánuði 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Tók hann við embættinu á miðstjórnarfundi en samstaða náðist innan flokksins um að hann tæki við honum. Í þingkosningunum 1995 vann Framsóknarflokkurinn góðan sigur og hlaut 15 þingsæti. Halldór varð utanríkisráðherra að kosningunum loknum en Framsóknarflokkurinn myndaði þá ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki undir forsæti Davíðs. Halldór var utanríkisráðherra samfellt í níu ár en tók svo við embætti forsætisráðherra 15. september 2004 skv. samkomulagi flokkanna vorið 2003.

Það blasir við öllum að forsætisráðherraferill Halldórs Ásgrímssonar hefur verið stormasamur og það stefnir í að hann víkji nú vegna þeirra vinda sem blásið hafa innan Framsóknarflokksins. Ferill Halldórs sem stjórnmálamanns er auðvitað mjög glæsilegur. Hann er starfsaldursforseti Alþingis, enda hefur hann verið þingmaður í yfir þrjá áratugi, hefur verið ráðherra í tvo áratugi og formaður Framsóknarflokksins í tólf ár. Aðeins dr. Bjarni Benediktsson hefur verið lengur ráðherra í ríkisstjórn en Halldór Ásgrímsson svo að ferillinn er orðinn langur. Það er vissulega hápunktur ferils hans að hafa tekist að verða forsætisráðherra. Það var mjög harkalega sótt að honum og flokknum í kosningunum 2003 en hann varð eftir þær í oddastöðu sem hann notaði til að verða forsætisráðherra í stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað Halldór geri eftir að stjórnmálaferlinum lýkur, séu þessar fréttir sannar.

Skv. kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í dag munu breytingar á ríkisstjórn verða kynntar á þriðjudag og taka gildi seinnipart vikunnar. Það er alveg ljóst að um er að ræða breytingar sem tengjast báðum flokkum. Það verður að teljast líklegt að hætti Halldór muni Geir H. Haarde utanríkisráðherra, verða forsætisráðherra. Sterkur orðrómur er uppi um það að Finnur Ingólfsson fyrrum bankastjóri, varaformaður Framsóknarflokksins og viðskiptaráðherra, verða eftirmaður Halldórs sem formaður flokksins og verða kjörinn sem slíkur á miðstjórnarfundinum á föstudag. Sé það rétt boðar það stórtíðindi. Finnur var álitinn krónprins Halldórs er hann ákvað að víkja úr stjórnmálum í árslok 1999 og verða seðlabankastjóri. Hann hafði tekið sæti á þingi árið 1991 og orðið þingflokksformaður 1994 og ári síðar varð hann viðskiptaráðherra og varð mjög áberandi sem slíkur. Hann varð varaformaður er Guðmundur Bjarnason hætti árið 1998.

Það stefnir í spennandi daga í stjórnmálum eftir hvítasunnuhelgina. Flest bendir til þess að Halldór Ásgrímsson sé að víkja af hinu pólitíska sviði og þáttaskil að verða innan Framsóknarflokksins eftir 26 ára feril Halldórs sem formanns og varaformanns Framsóknarflokksins. Hann hefur verið lykilmaður í íslenskum stjórnmálum í um þrjá áratugi. Brotthvarf hans mun hafa veruleg áhrif á pólitíska umræðu og lykilmál stjórnmálanna á þeim kosningavetri sem framundan er.