Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 júní 2006

Halldór segir af sér - forsætisráðherraskipti

Halldór Ásgrímsson

Á fallegu sumarkvöldi í kastljósi fjölmiðlanna fyrir framan embættisbústað forsætisráðuneytisins á hinum sögufrægu Þingvöllum tilkynnti Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í gærkvöldi um þá ákvörðun sína að biðjast lausnar sem forsætisráðherra lýðveldisins og hætta í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga viðburðaríkan stjórnmálaferil. Halldór Ásgrímsson hefur verið aðalleikari í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára og verið einn af þeim sem mestu hafa ráðið um forystu þjóðarinnar á seinustu áratugum. Væntanlegt brotthvarf hans markar því nokkur þáttaskil fyrir Framsóknarflokkinn og auðvitað ríkisstjórnina, enda hefur hann verið ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks allt frá því að hún var mynduð fyrir ellefu árum, í apríl 1995.

Ljóst er nú að Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, muni taka við forsætisráðherraembættinu við þessar miklu breytingar og við blasa allnokkrar breytingar á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Brotthvarf Halldórs leiðir til þess að flokkarnir verða að mynda nýtt ráðuneyti og ljóst að hrókeringar verða allnokkrar á ráðherrum og verður áhugavert að fylgjast með hvernig ríkisstjórnin lítur út þegar að Halldór lætur af ráðherraembætti. Mikið gleðiefni er að formaður Sjálfstæðisflokksins, stærsta stjórnmálaflokks landsins, taki við forsæti í ríkisstjórn landsins að nýju. Geir tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum af Davíð Oddssyni fyrir sjö mánuðum og var varaformaður flokksins 1999-2005. Geir H. Haarde er þekktur fyrir verk sín og störf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987, var fjármálaráðherra árin 1998-2005 og hefur verið utanríkisráðherra frá september 2005.

Það eru auðvitað mjög merkilegt að sjá afsögn forsætisráðherra af þessu tagi og við þessar aðstæður sem við blasa nú. Atburðarásin hefur verið gríðarlega hröð í flokknum seinustu dagana og blasað við frá föstudeginum að stefndi í stórtíðindi. Vissulega má segja að forysta Framsóknarflokksins hafi misst stjórn á atburðarásinni að allnokkru leyti, enda hafði Halldór aðeins kynnt nánustu vinum og pólitískum samstarfsmönnum þessa persónulegu ákvörðun sína um að hverfa úr stjórnmálum en þau tíðindi láku beint í fjölmiðla. Engum dylst að afhroð Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum undir lok maímánaðar er meginástæða þess að hann ákveður að víkja nú og skapar rými fyrir nýja forystu í flokknum í aðdraganda væntanlegra þingkosninga eftir tæpt ár, en kosningar verða í síðasta lagi í byrjun maímánaðar 2007.

Halldór hefur verið mjög lengi í forystu Framsóknarflokksins. Hann hefur verið varaformaður og formaður frá árinu 1980, eða í 26 ár, ráðherra í tæpa tvo áratugi og þingmaður nær samfellt frá árinu 1974, en hann varð þingmaður þá aðeins 27 ára að aldri. Hann varð forsætisráðherra þann 15. september 2004 og tók við af Davíð Oddssyni, sem á glæsilegum stjórnmálaferli leiddi ríkisstjórn samfleytt í rúmlega 13 ár. Með því að verða húsbóndi í Stjórnarráðinu náði Halldór hápunktinum á sínum stjórnmálaferli. Það verður þó seint sagt að forsætisráðherraferill Halldórs Ásgrímssonar hafi verið einhver sæla fyrir hann. Árið 2005 var mjög erfitt pólitískt fyrir Halldór og Framsóknarflokkinn. Bæði voru mikil innri vandamál innan flokksins og hann mældist með lítið persónulegt fylgi og þurfti að berjast við erfiða umræðu vegna sölunnar á ríkisbönkunum.

Það verður að segjast alveg eins og er að Halldóri tókst aldrei að festa sig í sessi í forsætisráðherratíð sinni. Að mörgu leyti koma þessi tíðindi ekki að óvörum, þó vissulega séu þau mikil og boði gríðarleg þáttaskil á mörgum vígstöðvum stjórnmálanna. Við Framsóknarflokknum blasir erfið sigling og ekki ljóst hver muni leiða flokkinn inn í væntanlegar kosningar - nýjar áskoranir í pólitískri baráttu. Við væntanlegum formanni Framsóknarflokksins blasa mikil verkefni. Flokkurinn er í miklum öldudal og greinilegt er að Halldór hefur ekki treyst sér til að halda af krafti inn í komandi kosningar og fundið að flokkurinn hlyti ekki meðbyr með sig við stjórnvölinn. Hvernig brotthvarf hans ber hinsvegar að með svo snöggum hætti í upphafi sumars vekur mikla athygli og eru margar spurningar uppi um stöðuna í innsta valdakjarna flokksins.

Greinilegt er að mikil ólga hefur verið innan Framsóknarflokksins í aðdraganda þess að Halldór tilkynnti um afsögn sína. Orðrómur þess efnis að Finnur Ingólfsson fyrrum bankastjóri, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, myndi verða eftirmaður Halldórs leiddi til skjálfta innan flokksins og greinilegt að Guðni Ágústsson var ekki sáttur við stöðu mála. Þó að Finnur hafi vissulega verið mjög öflugur stjórnmálamaður og lykilmaður í forystu flokksins lengi vel framan af formannstíð Halldórs vekur athygli að formaðurinn fráfarandi vildi ekki að Guðni Ágústsson yrði sjálfkrafa formaður. Hann mun enda ætla sér að gegna embættinu fram til flokksþings sem haldið verður síðsumars og því verður Guðni ekki sjálfkrafa formaður. Vel kom fram í tali Halldórs á blaðamannafundinum að hann vildi að bæði hann og Guðni myndu víkja nú. Það varð ekki og greinileg ólga er þeirra á milli eftir atburði helgarinnar.

Óneitanlega stendur Guðni Ágústsson vel að vígi í væntanlegum leiðtogakapli flokksins og ljóst af viðbrögðum hans í gærkvöldi að hann var ekki sáttur við framgöngu mála hjá Halldóri og orðalag hans á blaðamannafundinum. Það verður vissulega spennandi að sjá hverjir muni gefa kost á sér til formennsku á flokksþingi. Ef marka má tal Halldórs Ásgrímssonar er það vilji hans að Finnur Ingólfsson komi aftur í stjórnmálin og taki við flokknum á flokksþinginu. Er ekki ólíklegt að fleiri hafi áhuga á formennskunni og má búast við spennandi kosningu þegar kemur að því að velja þann sem leiða mun Framsóknarflokkinn í kjölfar brotthvarfs Halldórs og inn í væntanlegar þingkosningar. Við þeim blasir ennfremur það verkefni að tryggja flokknum nýtt líf í pólitískri tilveru og finna ný sóknarfæri enda virðist flokkurinn í rúst að mjög mörgu leyti.

Það blasa mörg þáttaskil við Framsóknarflokknum á 90 ára afmælisári hans. Formaður flokksins til tólf ára og sitjandi forsætisráðherra hefur boðað brotthvarf sitt af hinu pólitíska sviði og ljóst að verði ekki miklar áherslubreytingar með væntanlegu formannskjörinu muni halla mjög á gamalgróna stöðu flokksins sem missti mikið fylgi víða um land, jafnvel í sögufrægum vígum á borð við Akureyri og Kópavog, í sveitarstjórnarkosningunum. Það verður ekki horft framhjá þeim sögulegu tíðindum sem verða er Halldór Ásgrímsson hverfur úr forystu flokksins eftir langa setu í forystusveit hans - hann ákveður að stíga til hliðar og reyna að marka flokknum nýtt líf með breyttri forystu. Það mun ráðast á næstu vikum og mánuðum hvort að forystuskipti innan flokksins marki honum ný sóknarfæri á þeim kosningavetri sem framundan er.

Enginn deilir um það að Halldór Ásgrímsson hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum á löngum stjórnmálaferli sínum og mikil þáttaskil verða innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins við brotthvarf hans, enda hefur Halldór verið ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá myndun hennar árið 1995. Það verður fróðlegt að fylgjast með atburðarásinni innan ríkisstjórnar og flokksins í kjölfar þessara tíðinda. Nú tekur við að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti formanns Sjálfstæðisflokksins og leikur enginn vafi á því að þessi ákvörðun Halldórs leiðir til mikilla breytinga í íslenskum stjórnmálum.

Grein á vef SUS - 060606