Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 júní 2006

Snýr Finnur aftur í stjórnmálin?

Finnur Ingólfsson

Orðrómurinn um að Finnur Ingólfsson fyrrum bankastjóri og ráðherra, snúi til baka í stjórnmálin sem eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar er orðinn ansi hávær. Það virðist orðið nær öruggt að stórtíðindi eru framundan innan ríkisstjórnarinnar og blasir við að stjórnmálaferli Halldórs Ásgrímssonar sé að ljúka. Þáttaskil virðast því framundan innan Framsóknarflokksins. Mikið hefur verið rætt um möguleikann á innkomu Finns Ingólfssonar. Hann gaf þeim sögusögnum byr undir báða vængi í öflugu viðtali í Morgunblaðinu og segir þar orðrétt að skorað sé á sig að gefa kost á sér í stjórnmál að nýju og hann sé að íhuga næstu skref sín. Það er því alveg ljóst hvert stefnir og ansi líklegt að fyrir vikulok verði Finnur Ingólfsson orðinn formaður Framsóknarflokksins og ráðherra að nýju. Mikið er rætt um möguleikann á því að Finnur verði fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem væntanlega mun verða eftirmaður Halldórs á forsætisráðherrastóli.

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar hafði mikið verið rætt um það hvað myndi gerast ef Framsóknarflokkurinn hlyti afhroð í þeim. Á kosninganótt mátti sjá skýr merki þess að Halldór tók tapið mjög nærri sér og sagðist ábyrgur fyrir stöðu mála. Aðspurður sagðist hann í viðtali við frænda minn Helga Seljan á kosninganótt myndu hugleiða hvernig best væri að taka þeim úrslitum. Svo virðist vera að hann telji rétt að axla ábyrgð á slæmu gengi með því að láta af formennsku. Það gerði Ólafur Jóhannesson líka árið 1978 eftir afhroð Framsóknarflokksins í þingkosningum. Hann kenndi sér um úrslitin og taldi rétt að snúa við blaðinu með nýrri forystu. Hann var þó áfram þingmaður og áberandi í forystusveit flokksins. Svipuð þáttaskil og urðu innan Framsóknarflokksins undir lok áttunda áratugarins eru að verða innan Framsóknarflokksins sé þessi orðrómur sem nú gengur um allt og í öllum fréttatímum og á fréttavefum sannur.

Finnur Ingólfsson ljær orðrómi um endurkomu sína í stjórnmál vængi og fjölmiðlalíf með fyrrnefndu viðtali. Komi Finnur aftur boðar það viss þáttaskil. Þegar að Finnur hvarf af vettvangi stjórnmála var hann krónprins Halldórs, rétt eins og Árni Magnússon varð síðar. Þegar að Finnur hætti sem viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins til að verða seðlabankastjóri urðu margir hissa, enda talið að Finnur yrði formaður í fyllingu tímans. Sama varð með Árna. Brotthvarf beggja var mikið pólitískt áfall fyrir Halldór - enda treysti hann þeim fyrir miklum völdum og fóstraði þá upp sem stjórnmálamenn. Finnur og Halldór hafa verið samherjar til fjölda ára - allt frá því að Finnur var aðstoðarmaður Halldórs í sjávarútvegsráðuneytinu og þar til hann varð varaformaður flokksins. Kunnugir segja að það hafi tekið Halldór langan tíma að jafna sig af þeirri ákvörðun Finns að hætta svo snögglega sem hann gerði í árslok 1999.

Það deilir enginn um reynslu Finns Ingólfssonar af stjórnmálum. Hann hefur verið þekktur innan flokks sem utan fyrir mikla vinnusemi og dugnað í pólitík. Verði það niðurstaðan að honum verði falið að leiða Framsóknarflokkinn í kjölfar brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar mun verða fróðlegt að fylgjast með honum taka sæti í ríkisstjórn og leiða flokkinn án þess að vera kjörinn þingmaður. Það er þó engin ný tíðindi að flokksformaður eigi ekki sæti á þingi. Geir Hallgrímsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn sem utanríkisráðherra 1983-1985 þrátt fyrir að eiga ekki sæti á þingi - þá var Þorsteinn Pálsson formaður flokksins, utan stjórnar eins undarlegt og það hljómar. Ólafur Ragnar Grímsson varð formaður Alþýðubandalagsins árið 1987 og var fjármálaráðherra 1988-1991, þó ekki ætti hann sæti á þingi. Verði Finnur ráðherra mun hann geta tekið þátt í störfum þingsins þó hann sé ekki þingmaður, rétt eins og Ólafur Ragnar gerði.

Það verður fróðlegt að fylgjast með pólitíkinni næstu dagana í skugga þessara yfirvofandi stórtíðinda innan Framsóknarflokksins. Það stefnir ansi margt í að Finnur Ingólfsson sé að snúa aftur í forystusveit íslenskra stjórnmála. Verði það veruleikinn að hann verði ráðherra og formaður Framsóknarflokksins á næstu dögum blasa þáttaskil við innan Framsóknarflokksins. Ennfremur er ósvarað spurningunni hvort Guðni hafi áhuga á formennskunni muni Halldór hætta og hlýtur að vera stór spurning næstu dagana hvað Guðni hyggst fyrir. Eins og hann hefur sagt mun pólitísk framtíð hans ráðast á næstu dögum. Muni bæði hann og Halldór hverfa samtímis úr forystusveit flokksins eru það skýr skilaboð um að flokkurinn muni stokka sig algjörlega upp fyrir þingkosningarnar að ári.

Það er þó það eitt ljóst að atburðarás er hafin innan Framsóknarflokksins og mjög líklegt er að Finnur Ingólfsson sé aðalleikari í nýrri framtíðarsýn Framsóknarflokksins. Moggaviðtalið við hann staðfestir að yfirgnæfandi líkur eru á því að hann verði bráðlega orðinn áhrifamikill forystumaður í íslenskum stjórnmálum og verði bráðlega orðinn húsbóndi í einu af lykilráðuneytum ríkisstjórnar Íslands.