Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 júní 2006

Halldór Ásgrímsson hættir í stjórnmálum

Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tilkynnti um afsögn sína sem forsætisráðherra og að hann myndi víkja af hinu pólitíska sviði á blaðamannafundi við embættisbústað forsætisráðuneytisins á Þingvöllum um níuleytið í kvöld að loknum fundi landsstjórnar og þingflokks Framsóknarflokksins. Þar tilkynnti Halldór að hann hefði rætt um það við Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks yrði mynduð undir forsæti Geirs. Mun Halldór leiða þær viðræður fyrir hönd Framsóknarflokksins. Halldór mun verða áfram formaður Framsóknarflokksins fram að flokksþingi sem haldið verður síðsumars þar sem ný forysta flokksins verður kjörin. Halldór sagðist ætla að nota tímann fram að flokksþinginu til að hvetja sitt fólk til dáða fyrir þingkosningar, sem haldnar verða næsta vor.

Orðrómur hefur verið um það frá því á föstudag að Halldór hefði í hyggju að biðjast lausnar og hætta í stjórnmálum í kjölfar slæmrar útkomu Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í síðasta mánuði. Mikil þáttaskil verða við lok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar. Halldór hefur setið á þingi nær samfleytt frá árinu 1974. Hann varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Halldór hefur setið í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og forsætisráðherra frá 2004. Aðeins Bjarni Benediktsson hefur setið lengur í ríkisstjórn en Halldór Ásgrímsson.

Enginn deilir um það að Halldór Ásgrímsson hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum og mikil þáttaskil verða innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins við brotthvarf hans, enda hefur Halldór verið ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 1995. Það verður fróðlegt að fylgjast með atburðarásinni innan ríkisstjórnar og flokksins í kjölfar þessara tíðinda. Nú tekur væntanlega við að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti formanns Sjálfstæðisflokksins og leikur enginn vafi á því að þessi ákvörðun leiðir til mikilla breytinga í íslenskum stjórnmálum.