Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 júní 2006

Upplausn og valdabarátta í Framsóknarflokknum

Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir

Greinileg valdabarátta blasir við innan Framsóknarflokksins í kjölfar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, um að biðjast lausnar frá embætti sínu og að hætta í stjórnmálum. Hægt er að líkja ástandinu innan flokksins við upplausn og í raun blasir fátt annað öruggt við en það að Halldór er að hætta og ætlar sér að sitja fram að flokksþingi. Ekki er vitað hver tekur við forystu flokksins og þaðan af síður er ljóst hver mun taka sess Halldórs sem forystumanns flokksins innan ríkisstjórnar er hann lætur af ráðherraembætti. Allt er á huldu um það hver mun taka við lykilráðuneyti af hálfu Framsóknar á næstunni. Þegar að talað er um lykilráðuneyti er auðvitað talað um utanríkis- eða fjármálaráðuneytið. Þessi tvö ráðuneyti auk forsætisins eru lykilráðuneyti sem máli skiptir hverjir skipa. Við blasir að átök gætu orðið um það hver tekur við ráðuneyti af þessari vigt fyrir Framsókn.

Eins og allir vita hafa litlir kærleikar verið á milli Halldórs og Guðna Ágústssonar varaformanns flokksins og landbúnaðarráðherra. Það kristallast vel nú í því tómarúmi sem við blasir innan Framsóknarflokksins. Greinilegt er að valdabarátta þeirra hefur náð nýjum hæðum. Við blasir að samkomulag hafði náðst milli þeirra um að víkja úr stjórnmálum á sama tíma og skapa flokknum ný tækifæri til að hefjast upp til vegs og virðingar að nýju með nýrri pólitískri forystu. Guðni sneri frá því samkomulagi og hann talar nú sem formannsefni væri og hefur greinilega mikinn áhuga á að taka við forystu flokksins af Halldóri. Greinileg ólga blasir við milli þessara lykilforystumanna flokksins í kjölfar þessa og ljóst er að Guðni telur sig algjörlega óbundinn fyrra samkomulagi og telur sig hafa bæði sóknarfæri og stuðning til að takast á hendur það verkefni að leiða flokkinn.

Deilur milli Guðna og Halldórs hafa staðið mjög lengi, lengst af bakvið tjöldin. Þó að þeir hafi setið saman á þingi frá 1987 hafa þeir markað sér stöðu þar með mjög ólíkum hætti. Það olli úlfúð í Suðurlandskjördæmi, pólitíku heimavígi Guðna, þegar að hann var ekki valinn sem ráðherra að loknum kosningunum 1995. Fjórum árum síðar var Guðni loks valinn í ríkisstjórn og hefur síðan verið landbúnaðarráðherra. Guðni varð varaformaður Framsóknarflokksins á landsfundi árið 2000 og tók við embættinu af Finni Ingólfssyni. Halldór studdi ekki Guðna til varaformennsku, heldur Jónínu Bjartmarz. Þeir hafa oft eldað grátt silfur í málefnaáherslum en nær ávallt bakvið tjöldin. Undantekning þessa var flokksþingið 2005 þar sem þeir tókust á fyrir opnum tjöldum um Evrópumál - málefni sem þeir eru algjörlega ósammála um og tvær mjög ólíkar fylkingar eru þar um þetta hitamál stjórnmálanna.

Enginn vafi leikur á því að Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er einn af allra nánustu pólitísku trúnaðarmönnum Halldórs Ásgrímssonar. Það má treysta því að þegar að Valgerður talar af krafti um pólitík er hún að óma áherslur og skoðanir Halldórs. Hún hefur allt frá því að hún tók sæti á þingi árið 1987 verið lykilstuðningsmaður Halldórs og hún var ötull baráttumaður hans þegar að EES-málið reið yfir og viss hluti flokksins, Halldórsarmurinn, gerði uppreisn gegn Steingrími Hermannssyni í málinu við samþykkt þess árið 1993. Skömmu síðar tók Halldór við flokknum af Steingrími og Valgerður hlaut sterkan sess innan hans allt frá upphafi og varð þingflokksformaður hans árið 1995 og svo ráðherra við brotthvarf Finns Ingólfssonar í árslok 1999. Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson.

Það vakti óneitanlega verulega athygli þegar að Valgerður birtist á Morgunvakt Rásar 1 eldsnemma í gærmorgun í beinskeyttu viðtali um stöðu mála í kjölfar afsagnar Halldórs. Þar sagðist hún ekki geta stutt Guðna Ágústsson til formennsku og gæti ekki treyst honum. Kom þar fram enn einu sinni og sennilega með mest afgerandi hætti fram að þessu biturð og gremjan milli þeirra. Það er langt frá því ný saga að litlir kærleikar séu milli Guðna og Valgerðar - heiftin milli þeirra á sér langa og flókna forsögu. Það er alveg ljóst að orð Valgerðar í þessu viðtali bergmála skoðanir Halldórsarmsins í flokknum. Þar er mikil heift ríkjandi vegna þess sem fólk í þeim armi telur svik Guðna á heiðursmannasamkomulagi milli hans og Halldórs um að þeir hætti báðir til að tryggja flokknum nýja forystu. Greinilegt er að ekkert traust og engin samstaða ríkir meðal helstu forystusveitar flokksins.

Í gær varð endanlega ljóst að Finnur Ingólfsson fyrrum bankastjóri, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hyggur ekki á endurkomu í íslensk stjórnmál. Telur hann greinilega forsendur fyrir innkomu sinni brostnar með öllu enda hafði verið talað um að hann myndi leiða nýja forystu að Halldóri og Guðna gengnum í forystunni. Finnur sér fram á formannsslag í Framsóknarflokknum og hefur hvorki áhuga né metnað til að standa í hjaðningavígum og að berast á banaspjótum í pólitísku starfi flokksins í allt sumar og fram á haust hið minnsta. Er ljóst að Finnur var formannsefni Halldórsarmsins. Nú hefur það breyst allt og við tekur að velta fyrir sér hver muni hljóta stuðning Halldórs til formennsku. Greinilegt er að Halldór og hans nánasta stuðningsmannasveit mun aldrei sætta sig við Guðna Ágústsson sem nýjan formann Framsóknarflokksins.

Mér finnst það blasa við að Guðni Ágústsson hefur bæði metnað og áhuga fyrir formannssæti Framsóknarflokksins. Í löngu Kastljósviðtali í gærkvöldi fór hann yfir stöðuna í pólitíkinni. Guðni stóð sig vel í því viðtali og sást vel á allri framkomu hans og tali að hann hefur ákveðið að taka slaginn og er farinn að undirbúa möguleg átök um formannsstólinn. Í viðtalinu sást að mínu mati ný útgáfa af Guðna Ágústssyni. Hann talaði rólegar en venjulega og var bindislaus með efstu skyrtutöluna fráhneppta. Það sást á tali hans og fasi að hann er að sækjast eftir frekari frama í stjórnmálum og vill leiða flokkinn sinn. Að mörgu leyti hefur Guðni gríðarlega sterka stöðu í þeim formannsslag sem framundan er. Ég tek undir mat margra að öll vötn í Framsóknarflokknum falla nú til Brúnastaða. Það leikur enginn vafi á því að Guðni hefur sterka stöðu víða í flokkskjarnanum.

Valgerður Sverrisdóttir hlýtur að hafa metnað og áhuga ennfremur til forystu nú þegar að ljóst er að stjórnmálaferli Halldórs lýkur bráðlega og að Finnur Ingólfsson mun ekki snúa til baka á hið pólitíska svið. Eins og staðan er núna hlýtur hún að teljast sterkasti kandidat Halldórsarmsins svokallaða. Hún hefur rétt eins og Guðni á að skipa löngum stjórnmálaferli. Hún hefur vissulega marga kosti fram að færa fyrir flokkinn á þessum þáttaskilum eins og Guðni. Þó að Valgerður sé oft á tíðum gríðarlega hörð og ákveðin er hún mjög vinnusöm og keyrir hlutina áfram. Það er enginn vafi á því að hún lætur enga stjórna sér og sést vel á skrifum á vef hennar að þar fer mjög ákveðin forystukona í stjórnmálum. Hún hefur líka komist þangað sem hún er á eigin verðleikum. Ég hef alltaf virt mjög Valgerði í pólitísku starfi hér nyrðra, þó ég sé oft á tíðum ósammála henni.

Að óbreyttu blasa við vandamál hjá flokknum. Það verður varla flokksþing fyrr en í septembermánuði og fram að því virðist forysta flokksins í lausu lofti og varla styrkir það flokkinn að fráfarandi formaður hans situr á sínum stóli í allt sumar og á meðan er vaðandi formannsslagur með allri þeirri hörku sem því fylgir. Mun Halldór stýra af hálfu Framsóknarflokksins myndun nýrrar stjórnar og leggur fram ráðherralista sem tekur gildi við brotthvarf hans. Það verður fróðlegt að sjá hver fær stöðu Halldórs sem forystumaður í lykilráðuneyti. Það er sterkur orðrómur um það að Valgerður Sverrisdóttir fái lykilráðuneyti en Guðni sitji eftir og verði jafnvel sviptur sínum ráðherrastól. Við blasir því mikið uppgjör innan flokksins og fjarri því að eitthvað tal um samstöðu í flokknum sé raunin eins og margir forystumanna hans létu í veðri vaka eftir yfirlýsingu Halldórs á Þingvöllum.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fjallar um brotthvarf þessa eins af eftirmönnum sínum á forsætisráðherrastóli í vel rituðum leiðara í blaðinu í morgun. Halldór og Þorsteinn voru samtíðarmenn í forystusveit íslenskra stjórnmála, þó ekki hafi þeir leitt flokka sína á sama tímabili. Þeir voru um langt skeið áhrifamenn í íslenskum stjórnmálum og voru saman í ríkisstjórn lengi. Mér telst til að þeir hafi verið saman ráðherrar samtals í sjö ár: þ.e.a.s. í stjórn Steingríms Hermannssonar 1985-1987, stjórn Þorsteins sjálfs 1987-1988 og síðar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1995-1999 og unnu lengi saman í pólitískum verkefnum. Það er greinilegt að Þorsteinn ritar um Halldór af virðingu og minnir á að óvissa um framtíðarforystu Framsóknarflokksins skaðar mjög og að óvissan sé mesti óvinurinn.

Það eru orð að sönnu og enginn vafi á því að upplausnin sem nú blasir við á æðstu stöðum Framsóknarflokksins veikir ríkisstjórn landsins verulega í aðdraganda væntanlegra kosninga og eiginlega vekur furðu að þessi óvissa eigi að vera allt fram að síðsumri og framundir haustmál. Ef þetta er það sem koma skal innan Framsóknarflokks og ef þetta á að vera það sem sést frá forystusveit flokksins næstu mánuðina verður að spyrja sig hvort að Framsóknarflokkurinn sé fær til að vera í forystusveit ríkisstjórnar. Hann er sem flakandi sár og verulega stórar spurningar blasa við samstarfsflokknum hvort Framsóknarflokkurinn sé það stöðugur að geta verið í forystusveit landsmála með innri valdabaráttu algjörlega spilaða í fjölmiðlahasar.

Það blasa miklir átakatímar við á mörgum vígstöðum og þáttaskil í stjórnmálum verða óumflýjanleg ef þetta ástand verður viðvarandi næstu mánuðina að mínu mati. Í grunninn séð finnst mér að pólitísk arfleifð Halldórs Ásgrímssonar standi heil eftir enda hefur hann leitt mörg farsæl mál og verið maður stöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Það mun leiða til mikils skaða fyrir Framsóknarflokkinn og ríkisstjórnina ef samstarfsmenn hans ætla að ganga frá öllum þeim stöðugleika sem einkenndi pólitíska forystu Halldórs með innri hjaðningavígum í forystu flokksins næstu mánuðina.