Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 júlí 2006

Spenna og fjör á boltasumri

HM 2006

Það líður að lokum heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Þýskalandi. Það hefur verið sannkölluð veisla að fylgjast með boltanum í sumar - eins og venjulega á slíkum stórmótum. Ég hef horft á nær alla leikina í keppninni en misst af nokkrum á ferðalaginu seinustu dagana. Fannst mér verst að missa af leikjunum tveim á laugardag. Þá voru þarfari hlutir á dagskránni og ekki var síðra að sleikja sólskinið austur á fjörðum. Sýn hefur haldið utan um mótið með glæsibrag að mínu mati - skilað öllum leikjum af sér með fagmannlegum hætti og sinnt vel pælingunum um boltann og keppnina. Jafnframt hafa verið skemmtilegir gestir hjá þeim fyrir og eftir leiki og boltasparkið krufið bæði frá áhugamannahliðinni sem og hinni fagmannlegu. Það er alltaf gaman af því.

Hápunktur í umfjöllun Sýnar er vafalaust þátturinn 4-4-2 sem hefur verið á dagskrá alltaf að kvöldi keppnisdags kl. 21:00. Þar hafa Þorsteinn J. og Heimir Karlsson farið yfir boltann með skemmtilegum hætti og frá öllum mögulegum hliðum. Þar hefur verið mjög flott umfjöllun og allir getað notið hennar, hvort sem viðkomandi eru forfallnir áhugamenn um boltaíþróttina frá a-ö eða sófaspekúlantar. Skemmtilegir molar tengdir keppninni hafa verið þar áberandi. Útkoman er ómissandi þáttur í önnum keppninnar og hef ég alltaf reynt að fylgjast með honum. Þátturinn var fyrst settur á í keppninni fyrir fjórum árum en þá var Snorri Már Skúlason með Þorsteini J. í þættinum. Mér finnst þátturinn mun betri núna en þá. Umsjónarmennirnir eiga svo sannarlega heiður skilið fyrir góða stjórn á áhugaverðum þætti.

Ég stend þannig núna, eins og fleiri, að öll mín uppáhaldslið eru dottin út úr keppninni. Sárt fannst mér að sjá á eftir Brössum en ég hafði fyrirfram spáð þeim sigri, eða öllu heldur vonast til að þeir myndu komast lengra. Það var reyndar merkilegt að bæði Brassar og Argentínumenn skyldu detta út í átta liða úrslitum. Englendingar komust í átta liða úrslit eins og 1998 og 2002 en svo ekki söguna meir. Ég hélt með Þjóðverjum eftir að örlög Brassanna voru kunn. Þeir duttu svo út í gær fyrir Ítölum í mögnuðum leik í Dortmund. Þar skoruðu Ítalir tvö mörk í blálokin í framlengingu. Taldi ég að stefndi í enn eina vítaspyrnukeppnina þar sem Jens Lehmann myndi brillera, rétt eins og gegn Argentínu á föstudaginn, en svo fór svo sannarlega ekki. Vonir Þjóðverja gufuðu upp skjótt og eftir standa vonbrigði á heimavelli í Þýskalandi.

Frakkar slógu út meistara Brassa á laugardaginn í Frankfurt mér og fleirum til vonbrigða. Í kvöld tryggðu Frakkar sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Portúgölum í München. Það er því orðið ljóst að Frakkar og Ítalir keppa til úrslita á sunnudaginn í Berlín. Á laugardaginn munu svo Þjóðverjar og Portúgalir keppa um bronsið í Stuttgart. Það eru átta ár síðan að Frakkar urðu heimsmeistarar síðast - þá á heimavelli í París í sögulegum leik þar sem þeir lögðu Brassana. Þeir léku þann leik eftir á laugardaginn. Frakkar léku illa framan af móti og fáir spáðu þeim alla leið í úrslitaleikinn. Það hefur þó gerst. Tólf ár eru síðan að Ítalir komust síðast í úrslitaleik. Þeir töpuðu fyrir Brössum í úrslitaleiknum í Bandaríkjunum árið 1994 - töpuðu í vítaspyrnukeppni sem mörgum er enn fersk í minni.

Ef ég á að giska um stöðuna eins og nú er orðið ljóst tel ég að Ítalir verði heimsmeistarar og að Þjóðverjar taki bronsið. Ítalir eru orðnir hungraðir í alþjóðlegan fótboltatitil - svo mikið er víst. Þeir urðu síðast heimsmeistarar fyrir 24 árum - árið 1982 og sigruðu þá Vestur-Þjóðverja. Ítalir höfðu aldrei tapað fyrir Þjóðverjum á heimsmeistaramóti þegar að þeir sigruðu þá í gær og það breyttist ekki. Ítalir hafa orðið heimsmeistarar þrisvar: árin 1934, 1938 og 1982. Það hefur aðeins einu sinni gerst áður að fjögur Evrópulið keppi í fjögurra liða úrslitum. Eins og fyrr segir eru vonbrigðin mikil í S-Ameríku en spútniklið Brassa og Argentínumanna eru farin úr keppninni. Vonbrigðin eru líka mikil á heimavelli í Þýskalandi, enda voru heimamenn farnir að telja sitt lið líklegt til að fara alla leið. Sviplegt fall þeirra í gær var þeim þungt áfall.

En nú tekur lokaspretturinn við. Tveir æsispennandi leikir eftir og verður áhugavert að fylgjast með þessum lokaleikjum í keppninni.