Stokkum upp landbúnaðarkerfið
Ég var að enda við að horfa á þáttinn Pressuna á Netinu nú eftir miðnættið. Í dag sá náfrændi minn, Helgi Seljan, um þáttinn. Meðal þess helsta í þættinum að þessu sinni var merkilegt viðtal við Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra. Fara Guðni og Helgi þar yfir helstu málefni stjórnmálanna þessar sumarvikur. Rétt eins og viðtalið við Jón Sigurðsson fyrir rúmri viku er um að ræða áhugavert viðtal sem vekur athygli þeirra sem áhuga hafa á stjórnmálum. Eins og gefur að skilja er meginefni viðtalsins yfirferð yfir forystukapalinn í Framsóknarflokknum. Guðni hefur ákveðið að gefa kost á sér til varaformennsku áfram en fer ekki í formannsslag við Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í viðtalinu fer Guðni nánar yfir ástæður þeirrar ákvörðunar sinnar og aðra tengda þætti. Greinilegt er t.d. að Guðni er lítið hrifinn af hugmyndum um að einkavæða Landsvirkjun.
Ég verð að viðurkenna að merkilegast fannst mér að sjá þá fara yfir stóriðjumálin og stöðu mála á Austfjörðum. Frægar eru skoðanir Helga, frænda míns, á stóriðjumálunum fyrir austan allt frá því að stofnaði Biðlistann fyrir kosningarnar 2002 og fram að frægum pistli hans á Talstöðinni sálugu fyrir tæpu ári. Móðurbróðir minn, Helgi Seljan eldri, fyrrum alþingismaður, var lengi virkur stóriðjuandstæðingur í pólitískum verkefnum, enda alþingismaður að hálfu Alþýðubandalagsins til fjölda ára. Allir sem fara austur á firði þessar vikurnar og seinustu árin hafa orðið var við miklar breytingar á Austfjörðum í kjölfar framkvæmda við Kárahnjúka og á Reyðarfirði. Tek ég undir með Guðna og skoðunum hans í þessu viðtali að mjög ánægjulegt er að sjá Austfirðina blómstra í kjölfar þessara framkvæmda. Allir sem fara til Reyðarfjarðar sjá allavega mikinn mun á staðnum seinustu árin.
Eitt af helstu málefnum viðtalsins voru svo auðvitað landbúnaðarmálin, málaflokkur Guðna í ríkisstjórn. Um þessar mundir hefur hann setið á stóli landbúnaðarráðherra í rúm sjö ár og Framsóknarflokkurinn haft málaflokkinn á sinni könnu í rúm 11 ár, allt frá vorinu 1995. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ráðherrar flokksins hafa í þennan áratug verið talsmenn sífellt meiri ríkisafskipta á flestöllum sviðum landbúnaðarmála. Ennfremur voru þeir algjörlega á móti allri hagkvæmni í landbúnaði. Guðni Ágústsson er t.d. enn á því að mjólkurframleiðsla landsmanna eigi að vera byggð upp á litlum og notalegum fjölskyldubúum sem voru blómleg hérna í eldgamla daga. Hann telur aftur á móti stærri bú og vélvæðingu af hinu illa. Með því vill hann setja bændum takmarkanir til að ráðstafa eigum sínum og koma í veg fyrir að þeir selji öðrum bændum, sem leiði til þess að aðrir stækki og eigi hagkvæmari bú.
Það hefur greinilega verið framtíðarsýn framsóknarráðherranna í landbúnaðarráðuneytinu allt frá árinu 1995 að bændur skuli búa áfram á sínum litlu og notalegu fjölskyldubúum, hvað svo sem tautar og raular. Skítt með alla framtíðarsýn. Og eins og geta má nærri á almenningur að styrkja áfram með ríkulegum hætti allt heila báknið, enda gengi sennilega ekkert annað upp. Breytingar og ferskur hugsunarháttur með tilliti til nútímans í landbúnaðarmálum eru bannorð í hugsunargangi núverandi ráðherra sem virðist því miður vera pikkfastur í sama hjólfarinu. Finnst mér það mikill ljóður á hans ráði. Það er hverjum manni ljóst sem lítur á verk núverandi landbúnaðarráðherra og framtíðarsýn hans og ekki síður nefndafargan ráðuneytis hans í landbúnaðarmálum að hann telur rétt að ríkisafskipti dafni og ríkið eigi allsstaðar að vera sá sem hugsar en ekki einstaklingurinn sjálfur.
Gott dæmi í þessum efnum sást í spjalli Helga og Guðna um landbúnaðarmálin í kjölfar skýrslu matarverðsnefndarinnar sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, skipaði í ársbyrju og var undir forsæti Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra. Mér leist virkilega vel á skýrslu nefndarinnar og megintillögur hennar. Tel ég mikilvægt að þær verði að veruleika. Séu þær settar upp sem raunveruleiki blasir við að matarreikningur hinnar venjulegu fjölskyldu í landinu getið lækkað um allt að 50.000 krónum á ári, sé miðað við lægri mörk, en allt að 130.000 sé miðað við hærri mörkin. Þetta eru það mikilvægar tillögur að það er einsýnt í mínum huga að þær verði að vera að veruleika. Matarverð hér á landi er alltof hátt og mikilvægt að leita allra leiða til að lækka það.
Sérstaklega finnst mér mikilvægt að leggja til atlögu við landbúnaðarkerfið og stokka það verulega upp. Það er enda ekki eftir neinu að bíða. Mín skoðun er hiklaust sú að breyta eigi lögum með þeim hætti að draga verulega úr innflutningshömlum í formi tolla á landbúnaðarvörur, það verður að auka samkeppni milli innlends og innflutts landbúnaðarafurða og stokka upp stöðuna á þeim markaði. Fyrst og fremst þarf að lækka matarverð hérlendis - það er svo sannarlega hægt sé farið eftir þessum megintillögum sem fyrr eru nefndar. Ég tel að meirihluti sé á Alþingi fyrir slíkum tillögum og jafnvel allir flokkar nema Framsóknarflokkurinn séu tilbúnir til að styðja slíkar breytingar.
Eins og vel kom fram í þessu viðtali er Guðni Ágústsson algjörlega andsnúinn tillögu um að afnema innflutningstolla, þó jafnvel í áföngum væri. Hann brást hinn versti við er á slíkt var minnst og langt því frá sáttur við tilhugsunina eina - hvað þá að láta það fara í framkvæmd - þó það væri gert í skömmtum. Framsóknarflokkurinn er enn við sama heygarðshornið í sveitinni heima og vill engu breyta - halda skal í skaddað og úrelt kerfi svo lengi sem mögulegt má vera, þó það skaði hagsmuni hins almenna neytanda í landinu. Svo er Framsóknarflokkurinn hissa á því að hann sé allt að því að þurrkast út í þéttbýlinu með þessa stefnu uppi og þennan landbúnaðarráðherra við völd talandi fyrir þessum skoðunum í kjölfar fyrrnefndrar skýrslu sem skannar vel vandann.
Er löngu ekki kominn tími til að stokka upp þennan hugsunarhátt og reyna að hugsa í takt við nútímann? Gott dæmi um afdalahugsunarhátt núverandi ráðherra að auki því sem fyrr er nefnt er að hann vill áfram að ríkið ákveði mjólkurverð og taki endanlegar ákvarðanir um hvað skattborgarar borga fyrir mjólk. Það á ekki að láta hinn frjálsa markað verðleggja þá nauðsynjavöru sjálfa eins og flest annað. Það eru endalausar nefndir og ráð sem ákveða svo fyrir aðra, almenning, hvernig hagað er skipulagi í landbúnaðarmálum. Það er fyrir löngu kominn tími til að fara af þessari vegferð til glötunar og stokka landbúnaðarkerfið allt algjörlega upp, með tilliti til nútímans.
Því fyrr, því betra fyrir allan almenning.
<< Heim