Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 ágúst 2006

Draumur um menningarhús á Akureyri rætist

Samningar undirritaðir

Í gær var mikill gleðidagur hjá okkur Akureyringum. Þá tók Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, fyrstu skóflustunguna að menningarhúsi í miðbænum á byggingarreitnum á uppfyllingunni við Torfunesbryggju. Í sjö ár hefur verið rætt um menningarhús á landsbyggðinni, þ.á.m. hér og við höfum fylgst með hugmyndinni allt frá byrjun árið 1999 er hugmyndin var kynnt á teikniborði Björns Bjarnasonar, þáv. menntamálaráðherra, formlegrar undirritunar um framkvæmdina í menntamálaráðherratíð Tómasar Inga Olrich árið 2003 og að lokum til gærdagsins þegar að formleg endalok vinnsluferlisins varð að veruleika. Nú er komið að því að draumurinn rætist formlega og nú mun húsið rísa - það mun verða til árið 2008.

Menningarhúsið verður í hjarta Akureyrarbæjar við Strandgötuna og mun verða eitt af kennileitum Akureyrar í framtíðinni. Það mun ekki fara framhjá neinum sem til bæjarins koma. Tilkoma menningarhúss verður mikill lyftistöng fyrir alla menningarstarfsemi hér á svæðinu. Markmiðið með því er auðvitað að efla til mikilla muna alla menningarstarfsemi hér. Í húsinu er ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur verði í öndvegi en þar verði jafnframt aðstaða til annarrar fjölþættrar starfsemi svo sem fyrir ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald og margt fleira. Jafnframt er gert ráð fyrir að Upplýsingamiðstöð ferðamanna verði í húsinu, sem og veitingasala.

Kaka í lagi menningarhússins

Það var notaleg og góð stemmning við þetta gleðilega tilefni og margir samankomnir þar. Hitti ég marga góða félaga og vini og ræddi lengi við þá. Var sérstaklega ánægjulegt að hitta Tómas Inga Olrich, sendiherra og fyrrum menntamálaráðherra, og eiginkonu hans Nínu Þórðardóttur og ræða við þau, en nokkuð er um liðið síðan að ég hitti Tómas Inga síðast. Svo er auðvitað alltaf virkilega notalegt að hitta Þorgerði Katrínu vinkonu mína og ræða stjórnmálin við hana - í þetta skiptið fylgdu til hennar góðar hamingjuóskir frá mér með þann merka áfanga sem hún náði með því að verða fyrsta konan í forsæti ríkisstjórnar á fundum hennar.

Þarna voru margir góðir gestir altént og gæddum við okkur á dýrindistertum þarna sem var í lagi menningarhússins. Þetta var notaleg og góð stund - mikið gleðiefni fyrir alla sanna menningarunnendur á Norðurlandi. Þetta er altént stór stund fyrir okkur Akureyringa sem fögnum því að menningin blómstri, því það mun hún svo sannarlega gera í þessu húsi sem brátt rís.