Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 ágúst 2006

Afmæli Hönnu ömmu

Kiddi og amma - mynd tekin sumarið 2005

Í dag er amma mín, Hanna Stefánsdóttir, 86 ára gömul. Hélt hún upp á afmælið með veislu fyrir nánustu ættingja á heimili sínu í dag. Var þar notaleg og góð stund sem við áttum nokkur saman vegna afmælis hennar. Tvíburabróðir ömmu, Kristján Stefánsson, lést 28. janúar sl. eftir erfið veikindi. Veikindi hans voru mikið áfall fyrir okkur og fráfall hans kom á erfiðum tíma fyrir mig persónulega. Ég fór upp í kirkjugarð í dag og lagði blóm á leiði hans og eiginkonu hans, Kristínar Jensdóttur, í tilefni dagsins. Foreldrar þeirra systkina voru Stefán Jónasson skipstjóri og útgerðarmaður (13. september 1881 - 22. janúar 1982) og Gíslína Friðriksdóttir húsmóðir (29. júlí 1881 - 8. janúar 1980). Systkini ömmu og Kidda voru Hugrún Stefánsdóttir (10. júní 1917 - 7. apríl 2005) og Jónas Stefánsson (3. janúar 1919 - 8. apríl 1937).

Alla mína ævi hefur Hanna amma skipt mig miklu máli. Ástúð, umhyggja, trygglyndi og kærleiki verður aldrei metin til fjár. Fjölskyldubönd skipta alltaf máli að mínu mati. Þeir sem næst manni standa eiga að njóta virðingar og ástúðar fyrir jákvætt framlag þess til ævi manns, bæði í gleði og sorg. Þau bönd eru ómetanleg. Við þessi tímamót vil ég óska ömmu innilega til hamingju með afmælið.

Fyrir ári þegar að amma varð 85 ára skrifaði ég stutta grein um hana hér á vefnum.