Minnt á afstöðu Akureyringa til þyrlumála
Eins og flestum er kunnugt óskaði bæjarstjórn Akureyrar eftir því í marsmánuði, eftir að við blöstu þáttaskil í varnarmálum landsins, að fram færu viðræður um að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar skyldi vera staðsett hér á Akureyri. Bæjarráð samþykkti einróma tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, um þetta á fundi sínum þann 23. mars sl. Á sama tíma ákvað ráðherra að skipa nefnd sem skila ætti tillögum um þyrlubjörgunarþjónustu hérlendis. Nýlega lá skýrsla nefndarinnar fyrir. Það er skemmst frá því að segja að bæjarstjórn Akureyrar var ekki virt svo mikið sem svars í vinnslu skýrslunnar. Eru þessi vinnubrögð algjörlega með hreinum ólíkindum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, enda töldum við Akureyringar fyrirfram að allavega yrðu málin rædd við forystumenn sveitarfélagsins.
Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag lagði Kristján Þór Júlíusson fram svohljóðandi ályktun sem samþykkt var samhljóða og að mestu án umræðu: "Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir undrun á niðurstöðu skýrslu dómsmálaráðherra um "Þyrlubjörgunarþjónustu á Íslandi - tillögur að framtíðarskipulagi" sem kynnt var í júlí sl. og vísar til bókunar bæjarráðs frá 23. mars sl. þar sem óskað var eftir viðræðum við ríkisstjórn Íslands um uppbyggingu björgunarstarfs þjóðarinnar. Bæjarstjórn leggur áherslu á að vandað sé til undirbúnings á yfirtöku Íslendinga á þessu mikilvæga verkefni.
Taka þarf tillit til öryggis allra landsmanna og sjófarenda á svæðinu kringum landið sem er skilgreint sem starfssvæði þyrlubjörgunarsveitarinnar. Nauðsynlegt er að skipulag björgunarmála sé þannig að björgunar- og viðbragðstími sé sem stystur. Jafnframt er áríðandi að hafa í huga að siglingar flutningaskipa um norðurskautssvæðið eru að aukast og krefjast frekari viðbúnaðar á þessu viðkvæma svæði. Með vísan til ofangreindra raka telur bæjarstjórn bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að a.m.k. ein björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri.
Mér finnst það í senn undarlegt og til skammar fyrir viðkomandi starfshóp að svara ekki einu sinni þeim óskum sem til hennar var beint um að ræða um stöðu mála. Er ekki hægt að segja annað en að skýrslan sé mjög höfuðborgarmiðuð og vekur athygli hversu þröngt sjónarhorn hennar er. Er vægt til orða tekið að kalla skýrslu starfshópsins samstarfsverkefni kerfiskalla um að halda hlutunum í horfinu og horfa á hagsmuni málsins aðeins frá einum miðpunkti, sem er auðvitað Reykjavík. Veldur þessi skýrsla vonbrigðum og fær altént algjöra falleinkunn héðan norðan heiða og þessi ályktun bæjarstjórnar. Það er algjör krafa okkar að staða mála verði stokkuð upp og horft til þess að hér verði björgunarþyrla.
Það er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er. Það er viðeigandi við þau þáttaskil sem nú blasa við og ljóst er að fjölga verður björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun.
Það er algjör óþarfi að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er t.d. um Keflavíkurflugvöll sem einhverja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar og dreifi kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Það blasir við öllum að efla þarfLandhelgisgæsluna til mikilla muna og stokka upp allt kerfi hennar samhliða þeirri uppstokkun. Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla.
Að mínu mati mæla öll rök með því að hér sé björgunarþyrla og rétt að stjórnvöld hagi málum með þeim hætti að ekki séu allar þær þyrlur, sem til staðar verða eftir að Gæslan hefur verið efld, staðsettar á suðvesturhorni landsins. Það er við hæfi að horft sé til Akureyrar í þeim efnum að dreifa kröftunum hvað varðar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og með ólíkindum að ábendingar okkar um að ræða málin séu virtar að vettugi og hlýtur að vekja athygli hversu höfuðborgarmiðuð vinna kerfiskallanna fyrir sunnan er.
<< Heim