Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 ágúst 2006

Nýtt hlutverk landsföðurins umdeilda

Davíð Oddsson

Um þessar mundir er tæpt ár liðið frá því að Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll um þá ákvörðun sína að láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Skömmu síðar sagði hann af sér ráðherraembætti og þingmennsku og eftirmaður hans á formannsstóli var kjörinn á landsfundi í október. Nokkrum dögum síðar varð Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Það er alveg óhætt að segja það að flestir sjá eftir Davíð Oddssyni úr hringiðu stjórnmálanna hér á Íslandi. Stjórnmálalitrófið varð mun litlausara við brotthvarf hans. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum. Í þann aldarfjórðung sem Davíð Oddsson var í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík var hann lykilmaður og mikil viðbrigði því er hann hætti.

Nú er það hlutverk Davíðs Oddssonar að koma öðru hverju í fjölmiðla og kynna okkur horfur í efnahagslífinu, kynna okkur stöðu mála og spá um hvert stefna beri. Flestir, bæði stjórnarsinnar sem og stjórnarandstæðingar, hafa fylgst með því betur en áður hvað sagt sé við Kalkofnsveg og þegar að Davíð fer í viðtal fangar hann athygli stjórnmálaáhugamanna. Reyndar er það nú svo að það er mun skemmtilegra að fylgjast með efnahagsumræðunni en áður. Enda er það svo að Davíð er snillingur í að koma fyrir sig orði og tjá sig um helstu málin og getur með hnyttnum og öflugum hætti talað um málin og fangað með því bæði athygli almennings og talað máli sem almenningur skilur. Þetta tekst honum meira að segja í Seðlabankanum þegar að hann talar um gengishalla, verðbólgu, stofnfjárvexti, stýrivexti og hvað þau öll heita annars þessi hugtök sem meðaljóninum gengur illa almennt að skilja.

Ég er einn þeirra sem sakna Davíðs úr forystusveit stjórnmála. Mér finnst pólitíkin vera daufari og ekki eins heillandi eftir að hann fór. Það er bara mín tilfinning. Kannski er það vegna þess að ég vann svo lengi í flokknum undir forystu hans og leit upp til hans sem leiðtoga og stjórnmálamanns. Annars finnst mér fleiri tala svona en ég og ekki er það allt sjálfstæðisfólk. Hann var þannig stjórnmálamaður að talaði hann hlustuðu allir og hann átti mjög auðvelt með að tala til fólks og gera það með miklum krafti. Hann var stjórnmálamaður sem talaði í fyrirsögnum eins og einn þingmaður flokksins orðaði það svo skemmtilega. Gleymi ég því aldrei er hann hélt ræðu í Valhöll í fyrra skömmu áður en hann hélt í leyfi til Flórída. Var tekið við hann viðtal og var það fréttaefni í marga daga eftir að hann fór út.

Davíð Oddsson

Ég hef mjög gaman af að fylgjast með Davíð tala um verksvið hans í dag. Það er einkum vegna þess að honum tekst með alveg kostulegum hætti að flétta pólitískum álitaefnum inn í tal sitt um efnahagsmálin og koma með skoðanir sínar þar inn í, reyndar svo listilega fléttað að hlusta þarf með næmleika og áhuga á það sem hann segir. Ég var einmitt að horfa á gott viðtal Heimis Más Péturssonar við Davíð sem var á NFS í hádeginu en það var tekið í sumarblíðunni fyrir utan Seðlabankann. Þar fór hann yfir stöðu mála. Það er einhvernveginn svo að ég fylgist meira með tali seðlabankastjóra nú en áður. Kannski er það vegna þess að hinir fyrri voru ekki eins lifandi í tali um málin og fóru ekki eins vítt yfir stöðuna. Með fullri virðingu fyrir Birgi Ísleifi Gunnarssyni verð ég að viðurkenna að ég hafði aldrei sérstaklega gaman af að heyra hann tala um þessi mál.

En Davíð hefur þetta og það er gaman að hlusta á hann.... og mikið innilega er ég sammála honum með Íbúðalánasjóð. Það var flott komment og mjög nauðsynlegt. Sérstaklega fannst mér Davíð komast vel að orði um gengismálin í marsmánuði og orða stöðu mála þá með mjög skemmtilegum hætti. Hann sagði að við hefðum stigið trylltan dans og mættum ekki tapa okkur í hita dansins. Ennfremur kom með þau skondnu ummæli að við yrðum að fara að öllu með gát og passa okkur á að missa ekki sýn á stöðunni í efnahagsmálunum og verða ekki eins og börn sem gleyma sér við tertuát í barnaafmæli. Skondið orðalag og ummæli sem eftir var tekið. Svona tala ekki nema menn sem hafa mikla yfirsýn og hafa þá listigáfu að geta talað og náð athygli allra með því í leiðinni.

Það er enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson mun vekja athygli þjóðarinnar í störfum sínum, enda einn af umdeildustu stjórnmálamönnum lýðveldissögunnar og þekktur fyrir að kalla fram sterk viðbrögð en ávallt athygli þeirra sem fylgjast með þjóðmálum, og jafnvel glæða enn meira áhuga landsmanna á efnahagsmálum. Það er allavega ljóst að hann orðar stöðu efnahagslífsins með mjög litríkum hætti og landsmenn fylgjast með af enn meiri áhuga en áður.