N4 blæs til nýrrar sóknar í fjölmiðlun á Akureyri
Fyrr í kvöld horfði ég á nýjan og vandaðan magasínþátt á nýrri akureyskri sjónvarpsstöð sem ber heitið N4. Hún tekur við af Aksjón, sem hefur allt frá árinu 1997 verið með sjónvarpsefni héðan frá Akureyri, sýnt t.d. frá bæjarstjórnarfundum í Ráðhúsinu að kvöldi fundardags og verið með dagskrárgerð utan fréttaþáttarins Kortér sem var sýndur hvern dag kl. 18:15 og eftir það á klukkustundafresti. Nú heyrir Aksjón semsagt sögunni til og hinn lífseigi og áhugaverði þáttur Kortér ennfremur. Aksjón hefur staðið sig mjög vel en fyrirheit nú gefin um að N4 verði enn öflugri.
Var þetta fínn þáttur sem ég hafði gaman af að sjá nú í kvöld. Gefin eru góð fyrirheit af eigendum N4 um meiri dagskrárgerð en var á Aksjón, sem er mikið gleðiefni fyrir okkur öll hér sem viljum fréttir af því sem er að gerast hér á svæðinu og vandaða dagskrárgerð utan hinu beinu frétta. N4 sér NFS fyrir fréttum af þessu svæði og er Björn Þorláksson sérstaklega í því verkefni að miðla fréttum héðan suður um heiðar fyrir NFS-stöðina sem miðlar fréttum nær allan sólarhringinn með bravúr. Hlutur okkar í fréttum þar er meiri en áður altént.
Í fyrsta fréttaþættinum á N4 nú í dag var mjög áhugavert viðtal við Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra, sem var áður í beinni á NFS í hádeginu í dag. Þar vék hann að mörgu sem í gangi hefur verið og fannst mér sérstaklega ánægjulegt að heyra ummæli hans um björgunarþyrlur, en við hér fyrir norðan viljum fá eina þeirra hingað norður, eins og vel hefur komið fram. Ennfremur fór hann yfir væntanlega fjölskylduhátíð sem verður haldin hér í bænum næstu dagana. Hér ríkir sannkölluð hitabylgja og verður fjölmenni væntanlega í bænum.
Ræddu Björn og Kristján Þór saman í hitanum í Strandgötunni og var þetta hið fróðlegasta viðtal. Sagði Kristján Þór vonir okkar sjálfstæðismanna standa til þess að sjálfstæðismaður yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins að vori. Það er markmið sem við öllum vilja standa vörð um og mikilvægt er að tryggja að framboðslisti flokksins að vori verði vandaður og sigurstranglegur - vel valið á hann, vonandi með prófkjöri, svo að þau markmið sem við öllum viljum að rætist verði að veruleika.
En já, til hamingju N4 með nýtt upphaf í fréttaþjónustu og dagskrárgerð hér á svæðinu.
<< Heim