Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 ágúst 2006

Pétur H. Blöndal sigrar í Frelsisdeild SUS

Pétur H. Blöndal

Pétur H. Blöndal, alþingismaður, hlaut flest frelsisstig að þessu sinni í Frelsisdeild sus.is og stendur því uppi sem sigurvegari Frelsisdeildarinnar. Mikil spenna var á lokakaflanum en Pétur hafði forystuna meginhlutann, allt frá annarri umferð. Jafnir í öðru sæti urðu þeir Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson og skammt undan voru Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson. Segja má að Pétur, Guðlaugur Þór, Sigurður Kári og Birgir hafi verið í sérflokki í deildinni á þessu þingi og í raun allir átt möguleika á sigrinum og barist um hann allt til enda. Það er því ljóst að ungu þingmennirnir hafa verið að standa sig vel á þessu þingi en að Pétur, sem setið hefur á þingi í rúman áratug, leiði hópinn, enda baráttujaxl fyrir frelsinu og hlýtur því verðugan sess að launum frá okkur ungliðunum nú.

Frelsisdeildin hóf aftur göngu sína á vef SUS í desember 2005. Deildin hafði áður verið á vefnum og tók ný ritstjórn strax í upphafi í upphafi síðasta vetrar þá ákvörðun að minni tillögu að henni skyldi haldið áfram með svipuðum hætti og verið hafði. Tekin var sú ákvörðun að ég myndi stýra deildinni og ákvað ég að velja Kára Allansson, fyrrum stjórnarmann í Heimdalli, með mér til verksins. Að mati okkar sem sitjum í ritstjórn vefs SUS er mikilvægt að hafa Frelsisdeildina. Með því förum við yfir málefni þingmanna Sjálfstæðisflokksins, leggjum mat okkar á málefni þingsins og dæmum hvort og þá hvernig þingmenn séu að standa sig. Það er nauðsynlegt að við leggjum okkar mat á það hvort þingmenn séu að vinna að framgangi frelsismála eða vinni að því að halda á lofti baráttumálum Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Frelsisdeildin er án nokkurs vafa öflugasta merkið af okkar hálfu til að færa þingmönnum þá kveðju að við fylgjumst með verkum þeirra og dæmum þau í þessari góðu deild. Deildinni hefur tekist að vekja athygli og þingmenn hafa unnið af krafti við að vinna að þeim málum sem mestu skipti af enn meiri krafti eftir tilkomu hennar.

Pistill SFS um Frelsisdeildina
Pétur H. Blöndal sigrar í Frelsisdeild SUS - umfjöllun