Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 ágúst 2006

Rökþrot atvinnumótmælandanna

Mótmæli fyrir austan

Sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega virkjun og álveri á Austurlandi. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Margir þeirra hafa verið mjög friðsamlega að segja sínar skoðanir og það ber að virða, þó að vissulega séu margir þeim ósammála. Aðrir kjósa hinsvegar að beita valdi og þröngva sínum skoðunum á aðra með lítt áhugaverðum aðferðum. Við höfum orðið vitni að slíkum aðferðum á Austurlandi í þessari viku, þegar að hópur erlendra atvinnumótmælenda sem hefur rekið hingað og reynt að þröngva lágkúrulegum aðferðum upp á fólkið fyrir austan réðist inn á skrifstofur Hönnunar á Reyðarfirði og klifraði upp í tughæða byggingakrana á Alcoa-vinnusvæðinu við Reyðarfjörð. Þessar aðgerðir dæma sig sjálfar - svo og rökþrot þessa fólks.

Af hverju mótmælir þetta fólk ekki sé það ósátt við álverið með friðsamlegum hætti utan girðingar byggingarsvæðisins en fer fram með þessum hætti í stað þess? Það var hið eina rétta af Alcoa að kæra mótmælendur og fara þá leið með málið. Þessar aðgerðir sanna fyrir fólki að þessi mótmæli útlendinganna eru komin út í drastískar aðgerðir sem varla teljast eðlilegar. Hvernig geta íslenskir umhverfissinnar t.d. varið verklag þeirra sem brutu sér leið inn í Hönnun og komu fram með afskaplega lágkúrulegum hætti við starfsfólk þar? Mér dettur ekki í hug annað en að skrifa gegn svona vinnubrögðum og ófriðlegum mótmælum fólks sem hefur sýnt það og sannað að það getur ekki mótmælt nema með því að grípa til svona ráða, en hafa sagst á einum tímapunkti vera með friðsamleg mótmæli.

Er það rétt leið séu menn ósáttir við verk af svona tagi og telja framkvæmdir ólöglegar að brjóta sér leið inn á byggingarsvæði og klifra upp í tugmetra háa byggingakrana? Hvað halda andstæðingar álversins að myndi gerast t.d. ef að fólk sem byggi við hliðina á blokkarbyggingu sem það væri ósátt við og hefði mótmælt á opinberum vettvangi og væri í augnablikinu að rísa reyndi að stöðva framkvæmdirnar t.d. með því að klifra upp í byggingakranann með mótmæli og hlekkjaði sig fast þar? Ég er ansi hræddur um að slíku fólki yrði lítið jákvætt ágengt. Það að fara fram með þeim hætti og var í gær er eitthvað sem telst ekki eðlilegt í mínum bókum. Finnst einhverjum svona aðgerðir réttlætanlegar og eðlilegar? Stórt er spurt en ég efast um að almenningur sé innst inni hlynntur skoðanaflóði atvinnumótmælenda af þessu tagi.

Það hefur vel sést síðustu daga að Austfirðingar vilja ekki svona vinnubrögð og hafa látið skoðanir sínar á því vel í ljósi. Það er mjög ankanalegt að sjá þessa erlendu atvinnumótmælendur, sem eru að reyna að pikka sér fæting og traðka á austfirsku samfélagi með framferði sínu, reyna að þröngva sér inn á vinnustaði og láta ófriðlega undir yfirskini friðsamlegra mótmæla sem við öllum blasir að eru fjarri sanni. En það má segja að mælirinn hafi orðið endanlega fullur meðal Austfirðinga, sem langflestir styðja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan og ekki síður meðal þeirra landsmanna sem stutt hafa þessar framkvæmdir fyrir austan, nú hina síðustu daga. Öllu sómakæru fólki sem virðir skoðanir fólks með friðsamlegum hætti varð nóg boðið af vinnubrögðum þessa fólks.

Það er mjög hvimleitt að fylgjast með þessum mótmælum þessara erlendu atvinnumótmælenda. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita fyrir austan. Nú hefur lögreglan tekið á málinu og lagðar hafa verið fram ákærur á hendum atvinnumótmælendunum. Það er alveg ljóst í mínum huga að þegar að atvinnumótmælendur eða öfgasinnar í umhverfismálum eru farnir út í skemmdarverk og ofbeldisaðgerðir eru engin rök eftir í málinu af þeirra hálfu. Það hefur sannast svo ekki verður um villst með vinnubrögðum þeirra seinustu vikurnar. Rökþrot þeirra er algjört. Eða hvað segja annars vinnubrögð þessa fólks okkur? Ég bara spyr lesandi góður.

Fyrir nákvæmlega ári kom sama staða upp austur á fjörðum. Þá minnti ég á skoðanir mínar í þessum pistli sem á vel við nú í ljósi nýjustu atburða austan úr Fjarðabyggð.