Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 október 2002

Athyglisvert viðtal við menntamálaráðherra
Í Stúdentablaðinu í dag er að finna athyglisvert viðtal Eggerts Þórs Aðalsteinssonar við Tómas Inga Olrich menntamálaráðherra. Í þessu viðtali fer Tómas yfir pólitíkina á kosningavetri, ræðir um mennta- og menningarmálin, um málefni RÚV, Áslandsskóla, málefni Þorfinns Ómarssonar, utanríkismál og margt fleira mætti nefna. Ég hvet alla áhugamenn um pólitík til að lesa þetta viðtal Eggerts við Tómas Inga.

Skondin póstkosning Samfylkingarinnar
Mikið hefur verið rætt í vikunni um póstkosningu Samfylkingarinnar um Evrópumál þar sem flokkurinn mótaði stefnu sína í þeim efnum fyrir komandi þingkosningar. Eru deildar meiningar um úrslitin. Sérstaklega var athyglisvert að heyra forystu flokksins og formanninn hreykja sér af niðurstöðum kosninganna og tala um þau sem mikil tímamót. Það sem mér þykir athyglisverðast er að mikill minnihluti flokksmanna kemur að því að móta stefnuna og einungis 31% þeirra tók afstöðu í þessari kosningu. 69% ákváðu að senda ekki kjörgögnin til baka og lét sér þetta í engu skipta, þetta var greinilega ekki þeirra hjartans mál. Ég fjalla um þessi mál í vikulegri grein minni á heimasíðu Stefnis.

Harður prófkjörsslagur í Norðvesturkjördæmi
Framundan er spennandi prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þar sem 10 frambærilegir einstaklingar sækjast eftir föstum þingsætum, þ.á.m. fimm sitjandi þingmenn flokksins í þeim þrem kjördæmum sem nú mynda hið nýja kjördæmi. Hafa ásakanir gengið manna á millum um að vissir þingmenn hafi myndað bandalög sín á milli til að tryggja sér betra gengi í þessum slag. Slíkt fylgir ávallt slíkum baráttum og ekki óeðlilegt svosem að hiti sé í leiknum meðan hæst stendur. Mikilvægast er þó að menn séu sáttir með niðurstöðuna eftirá og niðurstaðan verði sigurstranglegur listi flokksins í þessu stóra kjördæmi. Einn ungliði gaf kost á sér í prófkjörinu, Skjöldur Orri Skjaldarson. Ég vona að honum gangi vel og að almennt muni ungt fólk verða sýnilegt í þeirri kosningabaráttu sem senn hefst. Ennfremur verða spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni sama dag og Sjálfstæðismenn velja frambjóðendur sína í Norðvesturkjördæmi. Það er ljóst að 9. nóvember verður athyglisverður dagur í pólitíkinni, þá verða fimm prófkjör sem skipta sköpum fyrir flokkana. Spennan magnast og athyglisvert að fylgjast með seinustu dögum prófkjörsslagsins. Svo styttist óðum í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni. Nóvembermánuður verður athyglisverður fyrir okkur fréttafíklana og alla þá sem fylgjast almennt með pólitíkinni af áhuga.