Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 desember 2002

Örugg stjórn Bush - bandarísk stjórnmál í brennidepli
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með stjórnmálum í Bandaríkjunum seinustu vikurnar. Í nóvember gengu Bandaríkjamenn að kjörborðinu og Repúblikanaflokkurinn vann sögulegan kosningasigur í báðum þingdeildum. Demókratar sleikja sárin og eru farnir að huga að því hver muni mæta Bush forseta í næstu forsetakosningum og leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni rær lífróður til að bjarga pólitískum ferli sínum. Framundan eru spennandi 24 mánuðir í bandarískri pólitík, að mínu mati. Ég fjalla um bandaríska pólitík og það sem við blasir í ítarlegum pistli á heimasíðu Heimdallar í dag. Hvet alla til að kíkja á þann boðskap.

Borgarstjóri í varaþingmannsframboð
Nú blasir við að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi loksins eftir mikið japl, fam og fuður fikrað sig í áttina að ákvörðun, þó svo að ekki séu öll kurl komin til grafar. Þau eru nefnilega ekki alveg að segja sömu söguna borgarstjórinn og formaðurinn í Samfylkingunni. Hún er enn að hugsa málið og ákvörðun liggur ekki enn fyrir, heldur bara hálfsagðar sögur. Hinsvegar er tilhlökkunarefni að borgarstjórinn fari í varaþingmannsframboð og verði í varamannasveitinni næstu fjögur árin. Nú er boltinn hjá borgarstjórnarflokki R-listans og þeirra að ákveða hvort að flokkarnir þrír vilji allir hafa þetta sameiningartákn áfram á friðarstóli. Kjósendur í Reykjavík kusu borgarstjórann í vor vegna yfirlýsinga hennar um að hún yrði um kyrrt og síðast fyrir nokkrum dögum var hún sömu skoðunar. Nú er söðlað um við sennilega lítinn stuðning samherja í R-listanum í öðrum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn mun mæta Ingibjörgu Sólrúnu ef hún tekur þessa ákvörðun. Í þeim slag verður ekkert gefið eftir og ekkert sparað. Það er alveg ljóst. Það var alltaf ljóst að þessar kosningar yrðu spennandi, nýjustu fréttir staðfesta að svo muni verða.