Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 desember 2002

SUS gagnrýnir vöxt ríkisútgjalda
Á stjórnarfundi Sambands ungra sjálfstæðismanna sl. miðvikudag, samþykkti stjórnin einróma eftirfarandi ályktun sem ég tek heilshugar undir.

Samband ungra sjálfstæðismanna gagnrýnir þann mikla vöxt sem orðið hefur á ríkisútgjöldum síðastliðin ár. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar og fólksfjölgunar hafa ríkisútgjöldin hækkað um 20% á fimm árum eða um rúma fjörutíu milljarða króna. Í fjárlögum þeim sem nú liggja fyrir Alþingi er gert ráð fyrir enn meiri hækkun samneyslunnar meðan einkaneyslan dregst saman. Ungir sjálfstæðismenn mótmæla sérstaklega ákvörðun um skattahækkanir, bæði á tóbak og áfengi, sem ætlað er að mæta auknum útgjöldum í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Vekur sérstaka eftirtekt að í meðförum Alþingis hefur útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins hækkað um fjóra milljarða og þrjúhundruð milljónir króna frá því sem frumvarp fjármálaráðherra gerði ráð fyrir. Það stingur í augun að meðal nýrra útgjalda er að finna ýmis ,,gæluverkefni" sem afar erfitt er að rökstyðja að efli almannahag. Þessi mikla hækkun ríkisútgjalda á síðustu árum er verulegt áhyggjuefni. Í reynd á hún aðallega rætur að rekja til gríðarlegrar aukningar framlaga til heilbrigðismála. Á því sviði virðist orðin regla að reksturinn fari langt fram úr fjárveitingum á hverju ári, sem þó eru með þeim ríflegustu sem þekkjast í víðri veröld samkvæmt samanburði OECD. Betri nýting fjármuna og hagkvæmari rekstur í heilbrigðisþjónustunni er að mati ungra sjálfstæðismanna eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna og er ein af forsendum þess að stöðva megi linnulausa aukningu útgjalda ríkisins. Hvað önnur svið ríkisfjármálanna varðar hafa ungir sjálfstæðismenn ítrekað bent á leiðir til sparnaðar sem miða því að minnka opinber útgjöld verulega. Mikilvægt er að Alþingi Íslendinga, sem bæði hefur með höndum fjárveitingavaldið og vald til að skattleggja almenning, breyti áherslum sínum. Það er kominn tími til þess að þróunin verði í þá átt að útgjöld minnki og hinn almenni maður haldi eftir meiru af þeim verðmætum sem hann aflar.

Húmor Ingibjargar Sólrúnar
Í dag kom í ljós að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er ekki komin undir feldinn og hyggur ekki á að liggja undir honum næstu dagana til að hugsa betur um framboðsmálin. Hún sagðist í fréttum í dag aðeins hafa verið að grínast á borgarstjórnarfundi með að ekki væri útilokað að hún fari fram í komandi kosningum. Gott er að vita að borgarstjóri hefur góða kímnigáfu og hefur ekki í hyggju að svíkja loforð sín við þá borgarbúa sem treystu henni til forystu í maímánuði þrátt fyrir blákaldar staðreyndir um stjórnarfar R-listans.