Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 janúar 2003

Opinberri heimsókn forsætisráðherra til Japans lokið
Í dag lauk opinberri heimsókn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og eiginkonu hans, til Japans. Fram hefur komið í fréttum að hann sé mjög sáttur við árangurinn af heimsókninni. Fram hefur komið hjá forsætisráðherra að markmiðið með heimsókninni hafi verið að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum um sameiginleg hagsmunamál landanna og það hefði tekist mjög vel. Meginahersla var lögð á viðræður um samgöngur og ferðaþjónustu, hvalveiðar, nýja viðskiptamöguleika og orkumál, jafnframt sem heimsóknin var notuð til að kynna Ísland og styrkja almennt hin margþættu tengsl landanna. Aðspurður um hápunkta heimsóknarinnar sagði forsætisráðherrann að viðræðurnar við Koizumi, forsætisráðherra Japans, í gær og einstaklega góðar móttökur japönsku gestgjafanna bæri hæst. Forsætisráðherrar landanna ræddu ýmis mál á fundinum en mesta athygli vöktu viðræður þeirra um hvalveiðar. Eftir fundinn lýsti Davíð því yfir á blaðamannafundi að Íslendingar hygðust hefja aftur hvalveiðar í vísindaskyni eftir rúmlega áratugar hlé. Japanskir ráðamenn voru ánægðir með nýlega inngöngu Íslendinga í Alþjóðahvalveiðiráðið, en gáfu engar afdráttalausar yfirlýsingar varðandi ákvörðunina um vísindaveiðar, eða möguleikana á framtíðarviðskiptum með hvalkjöt. Eftirspurn er eftir hvalkjöti í Japan en forsætisráðherra lagði áherslu á að opinber afstaða japanskra stjórnvalda til innflutnings á hvalkjöti væri mjög varkár og því alls ekki sjálfgefið að Íslendingar geti hafið sölu til Japans. Annar mikilvægur liður í heimsókninni var stofnun íslensk-japanska verslunarráðsins í Tókío fyrr í vikunni og var forsætisráðherra bjartsýnn á að ráðið myndi stuðla að nýjum viðskiptamöguleikum. Það er því ljóst að heimsóknin hefur tekist mjög vel.

Samstaða um starfslok borgarstjóra
Sl. fimmtudag samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur með átta atkvæðum meirihlutans ráðningu Þórólfs Árnasonar í embætti borgarstjóra í stað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Mun hann taka við embættinu formlega um mánaðarmótin og verða starfslok núverandi borgarstjóra miðuð við 31. janúar, það verður seinasti starfsdagur ISG. Mér fannst skondið að fulltrúar meirihlutans einvörðungu samþykktu ráðningu Þórólfs en allir borgarfulltrúarnir 15 samþykktu starfslok Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það var mjög athyglisvert. Á meðan andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hlóðu Ingibjargardys fyrir utan Ráðhúsið og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar kallaði ISG ríkissósíalista samþykkti borgarstjórn einróma að binda endi á valdaferil borgarstjórans, það þótti mér táknrænt. En nú stekkur hún í djúpu laugina, hún er ekki lengur í pólitískt vernduðu umhverfi í stjórnmálum.