Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 apríl 2003

Skemmtileg barátta - rætt við kjósendur
Nóg hefur verið um að gerast í kosningabaráttunni hér í Norðausturkjördæmi í dag og seinustu daga og baráttan komin á lokasprettinn, enda aðeins hálfur mánuður til kosninganna. Í morgun var Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna með fund á Hótel KEA með ferðaþjónustuaðilum (fjalla um hann hér neðar á síðunni). Var hann velheppnaður og skemmtilegur. Í gærkvöldi vorum við ungt sjálfstæðisfólk með opið hús á kosningaskrifstofunni fyrir unga kjósendur áður en við fórum á djammið. Voru þar skemmtilegar umræður um pólitíkina, munum við vera með svona opið hús hjá okkur á föstudagskvöldum fram að kosningum, kl. 21:00. Hvet alla til að mæta og taka með sér fólk. Eftir hádegi á laugardeginum fórum við sem erum í kosningabaráttu flokksins í kjördæminu á Glerártorg til að ræða við kjósendur og kynna stefnu okkar og verk flokksins á seinustu árum fyrir fólki. Frá kl. 14:00 stóð yfir menningarveisla KEA á Glerártorgi. Fullyrða má að aðsóknarmet hafi verið slegið og þetta því fjölmennasti viðburður þarna frá því opnað var árið 2000. Þarna voru allavega nokkur þúsund manns. Boðið var upp á góða dagskrá sem var að miklu leyti borin upp af ungu fólki og er ástæða til að fagna sérstaklega öflugu menningarstarfi unga fólksins hér á svæðinu. Leikfélög MA og VMA sýndu atriði úr velheppnuðum skólasýningum sínum. MA með brot úr hinum magnaða söngleik Chicago og VMA með brot úr Grease. Mjög góðar sýningar og skemmtileg tónlistaratriði hjá þeim, greinilega mikil gróska í menningarlífinu í skólunum ef marka má þessi góðu atriði. Hljómsveitin Douglas Wilson tók nokkur lög og er óhætt að segja að þar fari fín hljómsveit, Stebbi Jak söngvari þeirra er virkilega góður söngvari og tók hann t.d. lagið sem hann söng fyrir VMA í söngkeppni framhaldsskólanna, Elska þig enn.

Á meðan þessu stóð vorum við að ræða við kjósendur og voru þarna fulltrúar allavega fjögurra flokka að labba um og spjalla við fólk. Arnbjörg Sveinsdóttir, Tómas Ingi Olrich og Sigríður Ingvarsdóttir voru þarna ásamt fleiri frambjóðendum og okkur sem vinnum að framboðinu. Hitti ég t.d. hjón frá Hafnarfirði sem voru hér á ferðalagi og fórum við að ræða pólitíkina fyrir sunnan, en það er eitt traustasta vígi okkar og þá kom í ljós að þau bjuggu áður á Akureyri og ræddum við bæjarmál hér, pólitíkina á landsvísu, bæjarmál fyrir sunnan, Áslandsskólamálið og margt fleira. Mjög gaman af þessu. Einnig ræddi ég við stelpur úr MA sem vildu fá að ræða menntamál og fræddum við Sigríður þær um þau. Þetta var virkilega góður dagur og gaman að ræða við fólk og fylgjast með menningarveislunni á Glerártorgi. Voru margir sem þáðu kynningarbækling flokksins og tel ég að mörghundruð stykki af blaðinu hafi runnið þarna út. Þáðu flestir blaðið og ætluðu að kynna sér það. Margir óákveðnir kjósendur voru þarna og var gott að fræða þá um stöðu mála, margir spurðu um málin. Bæklingurinn er í góðri stærð og er fullur af staðreyndum og góðu efni. Sendi sérstakar kveðjur til mannsins sem ég ræddi við í Nettó seinnipartinn meðan ég var að versla, en hann labbaði til mín og sagðist verða að spjalla, enda hefði hann skrifað lengi á Innherjavefinn og rætt við mig þar. Vildi hann ræða við mig og höfðum við báðir gaman af þessu. Alltaf gaman að hitta fólk sem maður hefur spjallað við á Netinu, en aldrei hitt í eigin persónu. Alltaf miklu skemmtilegra að ræða saman augliti til auglitis.

Kristján Möller og Stórisandur
Í dag er Jón í Grófinni beinskeyttur að vanda á Íslendingi: "Á fundi í dag á Hótel KEA með fulltrúum ferðaþjónustunnar á Akureyri í dag lýsti Kristján L. Möller efasemdum sínum yfir styttingu leiðarinnar til Akureyrar um 81 km með því að leggja veg um Stórasand og þaðan í Borgarfjörð. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að þessi þingmaður hefur þóst vera sérstakur talsmaður þess að lækka þurfi flutningskostnað, en auðvitað vita allir að eina raunhæfa leiðin til þess er að stytta vegalengdir. Stórisandsvegur myndi lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur um að minnsta kosti 15%. Stórisandsvegur er líka mjög mikils virði fyrir ferðaþjónustuna, verslun og menningarlíf á Akureyri. Engum þætti áhorfsmál að skjótast um helgi í bíl 3 tíma norður til að fara í leikhús eða á skíði eða til að lyfta sér upp í öðru umhverfi. Það lýsir satt að segja undarlegri þröngsýni ef þingmaður Norðlendinga er úrtölumaður þess að þegar í stað sé gengið í það að rannsaka vegarstæði, veðurfar, snjóalög og annað sem rannsaka þarf áður en Stórisandsvegur er lagður."